Heilsueflandi ferðaþjónusta – þróunarverkefni

12.feb.2021

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur til margra ára verið í öflugu samstarfi við skóla og stofnanir erlendis, m.a. í gegnum menntaáætlun ERASMUS+. Eitt af þeim Erasmus+ verkefnum sem nú eru í gangi í skólanum er verkefni sem ber yfirheitið DETOUR, en sú skammstöfun stendur fyrir enska heiti verkefnisins sem er, Destinations: Wellbeing Tourism Opportunities for Regions.

Verkefnið sem hefur fengið íslenska heitið Áfangastaðir: Heilsueflandi ferðaþjónusta, svæðisbundin tækifæri, felst í stefnumótandi samstarfi skóla og stofnanna í sex löndum með það að leiðarljósi að þróa starfsmenntun og þjálfun á sviði heilsueflandi ferðaþjónustu. Í verkefninu er leitast við að styðja ferðaþjónustufyrirtæki til að nýta tækifæri til uppbyggingar fjölbreyttrar heilsueflandi ferðaþjónustu. DETOUR verkefnið hlaut styrk til tveggja ára til að sinna þessu viðfangsefni og eru samstarfsaðilarnir skólar og stofnanir frá Skotlandi, Írlandi, Slóveníu og Azoreyjum og Danmörku auk Íslands.

Aukning á náttúruferðum, efld vitund um umhverfið og leit að aukinni líkamlegri og andlegri velferð hefur byggt upp vaxandi neytendamarkað innan ferðaþjónustunnar. Heilsueflandi ferðaþjónusta er ört stækkandi markaður á heimsvísu, en samkvæmt Global Wellness Institute (GWI) óx ferðamennska sem snýst um heilsu og vellíðan næstum 50% hraðar en heildarferðamennska á heimsvísu á árunum 2015 – 2017. GWI setti einnig fram þá spá að árið 2022 sæki yfir miljarður ferðamanna í heilsueflandi- og vellíðunar upplifun í ferðum sínum. Þessi spá var sett fram fyrir tíma Covid-19 en ekki er ólíklegt að þessi þróun haldi sér þegar ferðamennirnir fara aftur af stað. Þessi sömu samtök hafa skilgreint heilsueflandi ferðaþjónustu sem „Ferðalög sem leitast við að viðhalda eða efla persónulega velferð og líðan“

Til að geta tekið vel á móti þessum stækkandi ferðamannahópi verður í DETOUR verkefninu unnið að því að þróa bjargir og þjálfunarefni sem styrkt getur hæfnigrunn þeirra sem kjósa að starfa innan heilsueflandi ferðaþjónustu. DETOUR mun leggja kennurum, litlum- og meðalstórum ferðaþjónustufyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum sem vinna að þróun innan ferðaþjónustunnar, til þekkingu og færni til að nýta sér núverandi og komandi tækifæri á sviði heilsueflandi ferðamennsku til að efla nýsköpun í greininni, fjölbreytni á markaði og vöxt viðkomandi svæða.

Svæðið sem horft er til hér á landi er Suðurland og hefur verkefnið þegar verið kynnt fyrir  nokkrum fyrirtækjum og hagsmunaaðilum í fjórðungnum þar sem leitað er eftir samstarfi við að auka sameiginlegan skilning á fyrirbærinu heilsueflandi ferðaþjónustu, leita eftir tengdum  viðskiptatækifærum á þessu sviði og, eins og áður hefur verið greint frá, þróa þjálfunarefni sem nýst getur hlutaðeigandi. Afurðir verkefnisins verður hægt að nálgast rafrænt, eða því sem á ensku er kallað MOOC (Massive Open Online Course).

Slóðin inn á heimasíðu DETOUR er: https://www.detourproject.eu og fyrir frekari upplýsingar vinsamlegast hafið samband við tengilið verkefnisins í FAS, Huldu Laxdal Hauksdóttur á netfanginu hulda@fas.is

Aðrar fréttir

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

Til Svíþjóðar í boði Erasmus

FAS hefur í nokkur ár verið með svokallaða Erasmus+ aðild sem er hugsuð sem einfaldari leið að styrkjamöguleikum á sviði náms og þjálfunar. Fjallamennskunám FAS hefur verið duglegt að nýta þennan möguleika til að nemendur fái tækifæri til að heimsækja önnur lönd og...

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Staðan í fjallamennskunámi FAS

Nú er ljóst að námi í fjallamennsku í FAS í núverandi mynd er lokið og ekki verða innritaðir nemendur í námið á næstu haustönn. Sagan í tengslum við námið er orðin nokkuð löng og það hefur verið endurskrifað nokkrum sinnum með það fyrir augum að bæta námið og aðlaga...

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

FAS á Austfirsku Ólympíuleikunum

Fyrir margt löngu var margs konar samstarf á milli framhaldsskólanna á Austulandi. Þar á meðal voru Austfirsku Ólympíuleikarnir þar sem nemendur skólanna hittust og áttu góðar stundir saman í alls konar leikjum. Þessi viðburður lagðist af fyrir mörgum árum en það...