Fyrri hluta vikunnar standa yfir opnir dagar í FAS. Þá eru skólabækurnar lagðar til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við önnur verkefni sem þeir hafa valið sjálfir. Þeir hópar sem nú starfa eru; útvarpshópur, útivistarhópur, föndurhópur, TikTokhópur, kósýhópur og svo loks hópur sem undirbýr árshátíð en hún verður haldin fimmtudagskvöldið 4. mars.
Um langt árabil hefur Hornafjarðarmanni verið spilaður á opnum dögum og í ár var engin undantekning á því. Það var sjálfur útbreiðslustjórinn Albert Eymundsson sem kom og stjórnaði mótinu. Í byrjun var spilað á 11 borðum en eftir því sem leið á spilið fækkaði þátttakendum. Þegar kom að úrslitaspilinu áttust við; Hans Markús, Steinar Logi og Tómas Orri. Eftir nokkrar sviptingar í spilinu stóð Tómas Orri uppi sem sigurvegari og ber því sæmdarheitið Framhaldsskólameistari í Hornafjarðarmanna 2021. Þrír efstu fengu viðurkenningu fyrir þátttökuna og árangurinn.
Til hamingju strákar með þrjú efstu sætin og takk fyrir spilamennskuna í dag öll.
Í FAS er í boði bóklegt nám en það er ekki síður lögð áhersla á starfsnám. Þar má t.d. nefna nám í fjallamennsku og vélstjórn. Þá er einnig hægt að velja nám á lista- og menningarsviði og íþróttasviði. Nemendur geta því sett saman nám sem hentar áhuga og því hvert er stefnt í framtíðinni. Til að hægt sé að halda úti námi sem þessu þarf auðvitað kennara sem búa yfir sérþekkingu. Í litlum skóla eins og FAS er mikilvægt að kennarar hafi möguleika á að sækja námskeið og efla um leið sérþekkingu sína sem á endanum ætti að koma öllum til góða.
FAS hefur lengst af lagt áherslu á erlent samstarf og hefur skólinn markað sér stefnu í erlendum samkiptum. Skólinn hefur unnið með mörgum löndum í Evrópu og jafnvel oftar en einu sinni með sama skólanum. Margir fyrrum nemenda okkar eiga minningar um námsferð erlendis frá veru sinni í FAS. Síðustu árin hafa samskipti við skóla og stofnanir erlendis aukist enn frekar.
Reglulega býður Erasmus+ menntaáætlunin upp á alls kyns möguleika á styrkjum og í haust var sérstaklega auglýst að skólar gætu sótt í sjóði Erasmus+ til að efla kennara og nemendur, einkum í list- og verkgreinum. FAS ákvað að senda inn umsókn og nú í vikunni kom svar um að umsóknin hefði verið samþykkt. Gildistími þessa samnings er frá 1. mars 2021 og nær til ársloka 2027.
Samkvæmt umsókninni getur FAS sent árlega 10 nemendur og allt að 5 kennara til þeirra skóla sem ákveðið er að vinna með. Ætlunin er að nýta núverandi tengslanet við skóla erlendis en einnig að stækka netið.
Þetta finnast okkur frábærar fréttir. Þessi styrkur fellur vel að stefnu skólans og gefur um leið mörgum tækifæri til að ferðast og fræðast. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan.
Mánudaginn 22. febrúar var komið að annarri fuglatalningu í Óslandi á þessari önn. Veður var með eindæmum gott, logn, sól og sex stiga hiti. Einhverjir í hópnum nefndu að vorið væri að minna á sig og það finnst okkur ekki leiðinlegt.
Þó svo að veðrið væri frábært var lítið um fugla. Einungis sáust tæplega 70 fuglar á talningasvæðinu og mest var af fýl og æðarfugli. Líkleg skýring á því hversu fáir fuglar eru að loðnugöngur hafa verið að fara vestur með ströndinni og fuglinn er líklegast að elta ætið.
Í gær bárust af því fréttir að farfuglar væru farnir að komast til landsins. Í síðustu viku sást tjaldur í Kjósinni sem var merktur og var fyrir nokkru við Ermasundseyjar þar sem hann hafði vetursetu. Þá sáust þrjár lóur inn við Silfurvöll en ekki er vitað hvort það eru fuglar sem hafa haft hér vetursetu eða hvort um farfugla er að ræða.
Í gær komu til okkar góðir gestir en það voru nemendur sem eru að ljúka námi í grunnskóla í vor og eru farnir að velta fyrir sér áframhaldandi námi. Það voru þau Eyjólfur skólameistari, Hildur áfangastjóri, Fríður námsráðgjafi ásamt nemendum úr nemendaráði sem tóku á móti hópnum. Í upphafi fékk hópurinn kynningu á framhaldsskólakerfinu og á því hvaða námsleiðir eru í boði í FAS.
Nemendur í nemendaráði sögðu frá því hvernig félagslíf skólans er byggt upp og að lokinni kynningu gengu þeir með gestunum um húsið. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta í haust.
Í gær var sett upp sýning tveggja nemenda í sjónlist en verkin eru unnin á haustönninni. Ekki hefur verið stund eða staður til að sýna þessi verk fyrr en núna. Verkin verða til sýnis í Menningarmiðstöð Hornafjarðar frá og með deginum í dag.
Daníel Snær Garðarsson sýnir ljósmyndir af teikniæfingum en hann vann að mestu út frá þrívíðum formum líkamans og voru honum grísk goð einkar hugleikin.
Karen Ása Benediktsdóttir sýnir stílistaverkefni þar sem hún endurhannaði fatnað og skapaði um leið heildstætt útlit þar sem m.a. var hugað að förðun og hárgreiðslu. Sjö einstaklingar tóku að sér að sitja fyrir. Dagmar Lilja Óskarsdóttir farðaði í þessu verkefni og Karen Ása tók sjálf myndirnar.
Við hvetjum alla til að líta við í Menningarmiðstöðunni og skoða skemmtileg verkefni.
Fyrsta hjálp fór fram í fjallamennskunámi FAS í janúar og fyrri hluta febrúar. Þema áfangans var meðal annars að undirbúa nemendur undir óvænt slys í óbyggðum og bráð veikindi sem upp geta komið. Mikið var lagt upp úr verklegri kennslu bæði inni og úti. Á námskeiðinu var meðal annars fjallað um; sárahreinsun, spelkur, böruburð með línum, hvernig búa skal um ofkældan einstakling, áhættusár, bruna og endurlífgun.
Síðasta kvöldið fengu nemendur að spreyta sig í aðkomu að hópslysi þar sem bráðaflokkun og forgangsröðun var æfð til þaula. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá námskeiðinu.
[modula id=“12412″]