Erasmusstyrkir til starfsþróunar og skiptináms

26.feb.2021

Í FAS er í boði bóklegt nám en það er ekki síður lögð áhersla á starfsnám. Þar má t.d. nefna nám í fjallamennsku og vélstjórn. Þá er einnig hægt að velja nám á lista- og menningarsviði og íþróttasviði. Nemendur geta því sett saman nám sem hentar áhuga og því hvert er stefnt í framtíðinni. Til að hægt sé að halda úti námi sem þessu þarf auðvitað kennara sem búa yfir sérþekkingu. Í litlum skóla eins og FAS er mikilvægt að kennarar hafi möguleika á að sækja námskeið og efla um leið sérþekkingu sína sem á endanum ætti að koma öllum til góða.

FAS hefur lengst af lagt áherslu á erlent samstarf og hefur skólinn markað sér stefnu í erlendum samkiptum.  Skólinn hefur unnið með mörgum löndum í Evrópu og jafnvel oftar en einu sinni með sama skólanum. Margir fyrrum nemenda okkar eiga minningar um námsferð erlendis frá veru sinni í FAS. Síðustu árin hafa samskipti við skóla og stofnanir erlendis aukist enn frekar.

Reglulega býður Erasmus+ menntaáætlunin upp á alls kyns möguleika á styrkjum og í haust var sérstaklega auglýst að skólar gætu sótt í sjóði Erasmus+ til að efla kennara og nemendur, einkum í list- og verkgreinum. FAS ákvað að senda inn umsókn og nú í vikunni kom svar um að umsóknin hefði verið samþykkt. Gildistími þessa samnings er frá 1. mars 2021 og nær til ársloka 2027.

Samkvæmt umsókninni getur FAS sent árlega 10 nemendur og allt að 5 kennara til þeirra skóla sem ákveðið er að vinna með. Ætlunin er að nýta núverandi tengslanet við skóla erlendis en einnig að stækka netið.

Þetta finnast okkur frábærar fréttir. Þessi styrkur fellur vel að stefnu skólans og gefur um leið mörgum tækifæri til að ferðast og fræðast. Það eru sannarlega spennandi tímar framundan.

 

 

Aðrar fréttir

Áfram halda opnir dagar

Áfram halda opnir dagar

Það hefur verið nóg um að vera á öðrum degi opinna daga í FAS. Líkt og í gær hófst dagurinn á nokkrum léttum morgunæfingum. Nemendur hafa síðan getað valið um ýmsa atburði og má þar t.d. nefna tölvuleiki, karokí, spil og pússl, snyrtibuddugerð, leiki í íþróttahúsi svo...

Opnir dagar í FAS

Opnir dagar í FAS

Í morgun hófust opnir dagar í FAS og þeir standa yfir í þrjá daga. Þessa daga er ekki hefðbundin kennsla en margt annað í boði. Kristján áfangastjóri hefur veg og vanda að skipulagi opinna daga og kennarar eru honum til aðstoðar. Dagskráin í dag hófst með léttum...

Opnir dagar í næstu viku

Opnir dagar í næstu viku

Áfram flýgur tíminn. Nú er orðið bjart þegar við mætum í skólann og jafnvel má sjá ummerki um að vorið sé í nánd. Í þessari viku hafa staðið yfir miðannarviðtöl og í næstu viku verða opnir dagar en þá er hefðbundið nám sett til hliðar og nemendur fást við eitthvað...