Gróðurreitanna á Skeiðarársandi vitjað

Í dag var komið að árlegri ferð á Skeiðarársand þar sem er verið að fylgjast með gróðurframvindu. FAS á þar fimm gróðurreiti og er það verkefni nemenda í inngangsáfanga að náttúruvísindum að fara og skoða reitina. Það þarf að viðhafa ýmis konar mælingar og mikilvægt er að allir vandi sig sem best. Allar upplýsingar eru skráðar niður og teknar með heim. Þetta verkefni er mikilvægur liður í því að kenna nemendum að vinna að rannsóknum og tileinka sér öguð vinnubrögð svo allar mælingar verði sem nákvæmastar.

Í ferðinni í dag var þó ekki bara verið að vinna að náttúruskoðun. Vegna COVID hefur skólinn þurft að bregðast við ýmis konar samstarfsverkefnum þar sem nemendur og/eða kennarar áttu að ferðast. Til  að halda þessum verkefnum gangandi þarf að finna nýjar leiðir. Þannig var í dag verið að prófa að streyma frá vinnunni á sandinum og gekk það ljómandi vel. Þá komu til móts við okkur fólk sem vinnur að gerð heimildamyndar um skóga á Íslandi og fengu að taka upp frá vinnu okkar á sandinum. Sú mynd verður sýnd á RUV þegar hún er tilbúin.

Vinnan í dag gekk ljómandi vel og allir stóðu sig með mikilli prýði. Næstu daga verður svo unnið úr niðurstöðum og munum við greina nánar frá þeim þegar þær liggja fyrir.

Skólastarf hafið í FAS

Skólastarf haustannarinnar hófst formlega í morgun með skólasetningu. Nú miðast allt skólastarf við að fylgja reglum varðandi COVID-19 og hafa verið gerðar ráðstafanir þar að lútandi í skólanum. Mikilvægast er að halda eins metra fjarlægðarmörkum og fylgja fyrirmælum um hreinlæti. Það er búið að hengja upp leiðbeiningar frá Landlæknisembættinu víða um skólann og eru allir hvattir til að lesa þær.
Margir eldri nemendur sem á vorönninni upplifðu að skólastarf færðist allt yfir í fjarnám höfðu á orði hvað það væri gott að geta mætt aftur í skólann. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að fylgja sem best settum reglum svo skólastarf verði sem eðlilegast.
Kennsla hófst svo eftir hádegið svo nú má segja að allt sé komið á fulla ferð í skólanum.

Skólasetning í FAS

Skólasetning verður í FAS á morgun klukkan 10. Allir sem vilja geta mætt en mikilvægt er að nýnemar mæti. Umsjónarfundur hefst klukkan 10:30 og þar eiga nemendur að mæta.

Hér er slóðin https://www.youtube.com/watch?v=PQkRzghd2Pc

Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá klukkan 13 á morgun.

 

Skólabyrjun á haustönn 2020

Skólastarf haustannar hefst fimmtudaginn 20. ágúst klukkan 10 með skólasetningu í fyrirlestrasal Nýheima. Setningunni verður streymt en mikilvægt er að nýnemar mæti. Umsjónarfundur hefst klukkan 10:30 í stofum fyrir staðnemendur og þá sem eru um óreglulega mætingu. Fjarnemendur fá fundarboð í gegnum Teams.

Sama dag klukkan 13 hefst kennsla samkvæmt stundaskrá og er miðað við að kennsla fari fram í stofum með hefðbundnum hætti þó að teknu tilliti til eins metra reglunnar. Ekki er komin útfærsla á öllu verklegu námi en þær upplýsingar verða birtar um leið og þær liggja fyrir. Stundatöflur og bókalistar eru nú þegar aðgengilegar í Innu og hægt er að skoða kennsluáætlanir einstakra áfanga á vef skólans. Í byrjun næstu viku koma nánari upplýsingar um nýjan námsvef FAS og aðgang að Office 365.

Við hér í FAS búum við þær aðstæður að það er tiltölulega auðvelt að viðhafa eins metra fjarlægð á milli fólks og að aldrei séu fleiri en 100 manns í sama rými.

Nemendur á heimavist geta mætt 19. ágúst en þurfa að hafa samband við skólameistara til að komast inn.

Við hlökkum til að sjá ykkur og vonum að skólastarfið fari vel af stað þrátt fyrir aðstæður vegna COVID-19.

Innritun og sumarfrí í FAS

Nú stendur yfir innritun fyrir nám á haustönn. Umsóknarfresti lauk 10. júní fyrir nemendur úr grunnskóla. Hvað varðar eldri nemendur er miðað við búið sé að sækja um fyrir lok maí en þó er hægt að sækja um fram til 26. ágúst. Best er að sækja um sem fyrst. Á vef skólans eru upplýsingar um námsframboð og þar er einnig hægt að sækja um nám.

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margir hafa sótt um nám í fjallamennsku en nú þegar hafa yfir 30 umsóknir borist. Það verður spennandi að fylgjast með framvindu mála þar.

Ekkert verður af fyrirhuguðu sumarnámi í FAS þar sem ekki bárust nægilega margar umsóknir.

Skrifstofa FAS lokar 19. júní og opnar aftur 5. ágúst. Það er hægt að hafa samband við Eyjólf skólameistara ef þörf þykir (eyjo@fas.is og 860 29 58).

Við vonum að allir eigi gott og gefandi sumar.

Sumarnám í FAS

Boðið verður upp á sex mismunandi námskeið í sértæku sumarnámi í FAS. Því er ætlað að koma til móts við aðstæður á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19. Þetta eru framsækin, áhugaverð og hagnýt námskeið í frjóu umhverfi. Tveir áfangar eru hefðbundið framhaldsskólanám, einn áfangi er sérstaklega hugsaður fyrir nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku. Tveir áfangar tilheyra list- og verkgreinum en það eru sjónlist og saga annars vegar og kvikmyndagerð hins vegar þar sem áherslan er á upptökur og eftirvinnslu á hljóð- og myndefni. Þá er boðið upp á kynningaráfanga fyrir fjallamennskunám FAS.

Það er mismunandi hvenær áfangarnir eru í boði og einnig er mismunandi hvort þeir eru í staðnámi eða fjarnámi. Umsóknarfrestur fyrir alla áfanga er til 10. júní n.k. Nánari upplýsingar er að finna hér

Það eru margir skólar sem bjóða upp á alls konar nám vegna þessara sérstöku aðstæðna. Sjá nánar hér