Lokaverkefni í list- og verkgreinum

Í dag klukkan 14 opnar sýning í Nýheimum. Þar sýna nemendur í sjónlistum á listasviði FAS sýnishorn af vinnu annarinnar. Þetta eru fjölbreytt verkefni, t.d. myndlistarverkefni, textílverkefni og síðast en ekki síst förðunarverkefni. Kennslan í sjónlistum fer fram í Vöruhúsinu og er kennt bæði í saumastofu og listastofu. Nemendur í sjónlistum eru á fyrsta, öðru og þriðja hæfniþrepi og verkin á sýningunni endurspegla hæfniþrepin.
Sýningin er á báðum hæðum og við hvetjum fólk til að koma á efri hæðina til að skoða verkefnin.

Kveðja skólann sinn

Það hefur heldur betur verið fjör í Nýheimum í morgun því væntanlegir útskriftarnemendur eru að kveðja skólann sinn í dag. Klukkan sjö hittust nemendur og kennarar í sameiginlegum morgunverði en áður höfðu útskriftarefnin aðeins skreytt í skólanum og fært kennurum sínum gjafir. Eftir að hafa gætt sér á kræsingum var skólasöngur FAS æfður.

Dagurinn verður notaður til að létta sér upp áður en lokatörnin tekur við. Í næstu viku hefst lokamat og þá þarf líka að skila öllum verkefnum sem enn á eftir að skila.
Líklegast munu margir sjá „Bangsímon“, „Grísla“ og „Tuma tígur“ á sveimi í bænum í dag.

Lokaverkefni stúdentsefna

Í dag var stór stund hjá mörgum tilvonandi útskriftarnemendum en þá kynntu þeir lokaverkefni sín til stúdentsprófs. Allir nemendur sem ljúka stúdentsprófi frá FAS taka áfanga þar sem þeir velja viðfangsefni eftir námsáherslum sínum og áhuga. Þeir þurfa að ákveða framvindu í verkefninu og eins að velja hvernig þeir afla upplýsinga og setja þær fram.
Verkefnin voru mörg og mismunandi. Þar má t.d. nefna verkefni um neyslu orkudrykkja, fordóma og það að verða nýbúi í samfélaginu, skoðanir ungmenna á Hornafirði á því að svæðið verði fýsilegur búsetukostur í framtíðinni, breyting á ásýnd Hafnar í tengslum við landris og landfyllingar, verkefni tengt ferðaþjónustu og hvernig iðnnemar upplifa viðbrögð við námsvali sínu. Síðast en ekki síst að þá kynnti nemandi EP-plötu þar sem hann hefur samið og spilað lögin auk þess sem myndband hefur verið gert við eitt laganna.
Það er skemmst frá því að segja á kynningarnar í dag gengur ljómandi vel og allir geta verið sáttir við sitt framlag. Og örugglega eru einhverjir fegnir að þessu verkefni sé lokið.

Stuttmyndahátíð FAS

Við nokkrir nemendur í FAS erum búin að vera vinna í því að gera stuttmyndir seinustu mánuði. Ferlið í þessum sviðslistaáfanga er búið að vera langt og skemmtilegt. Við höfum verið í þessu verkefni síðustu FJÓRA MÁNUÐI! Við skrifuðum handrit, tókum upp hljóð, mynd, lékum og klipptum myndirnar sjálf. Myndin Óstjórn var tekin upp að hluta til í Bergárdal og myndin Manía í Nýheimum.

Ferlið er búið að vera mjög fræðandi, við fengum ráð og kynningar frá fagmönnum og við nýttum okkur þá kennslu í myndirnar okkar. Við í hópnum viljum sérstaklega þakka kennurunum okkar, Stefáni Sturlu og Skrými fyrir alla hjálpina. Aðrar þakkir fara til Hlyns Pálmasonar, Emils Morávek og Tjörva Óskarssonar.

Föstudaginn 7. maí ætlum við að sýna stuttmyndirnar okkar ásamt sex öðrum stuttmyndum frá nemendum skólans og fleirum. Allar myndirnar verða sýndar í röð fjórum sinnum yfir daginn; klukkan 14:00, 15:00, 16:00 og 17:00. Sýningarnar verða í fyrirlestrarsal Nýheima og öllum er velkomið að mæta á þeim tíma sem þeim hentar best. Við minnum þó á grímuskyldu og fjarlægðartakmörk. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá sem flesta.

Sjókajaknámskeið FAS

Í apríl fóru fram tvö kajaknámskeið í fjallamennskunáminu. Þar fá nemendur örstutta hvíld frá fjöllunum og upplifa útivist sem er mjög frábrugðin klifri, jöklaferðum og skíðamennsku. Kajaknámskeiðið er frábær viðbót inn í flóru fjallamennskunámsins en þar opnast fyrir nemendum nýjar dyr innan útivistargeirans á Íslandi.  Kennarar námskeiðsins voru Magnús Sigurjónsson, Sigfús Sigfússon, Michael Walker og Erla Guðný Helgadóttir.

Í þessum áfanga byrjuðum við inni í skólastofu fyrir hádegi þar sem farið var yfir sjávarfallafræði, lesið í sjókort, leiðaval á sjó, alls kyns bjarganir og þann helsta búnað sem kayakleiðsögumenn þurfa að hafa með í för. Einnig var farið yfir kajakferðir og leiðsögn á jökullónum, þær hættur sem leynast þar og öryggisatriði.

Annar dagurinn fór í skipulag leiðangurs á kajak en þar þarf að huga að ýmsum þáttum sem nemendur voru margir að kynnast í fyrsta skipti. Hafstraumar og sjávarföll eru hugtök og fræði sem þarf að læra á til þess að skipuleggja góðan leiðangur á kajak. Nemendur fengu þó að sjálfsögðu einnig að spreyta sig á tækni og var haldið út á sjó. Þar fengu nemendur tækifæri til þess að kynnast hafstraumum, læra ýmsa róðratækni, æfa félagabjarganir, leiðsögutækni og leiðaval svo eitthvað sé nefnt.

Á fjórða og síðasta degi námskeiðsins æfðu nemendur leiðaval, að leiða hóp og einnig fékkst þar tækifæri til þess að æfa enn betur þá tækni sem kynnt var dagana áður. Þau fengu einnig að prófa svokallaða sit on top báta og æfðu félagabjörgun á þeim. Hópur tvö fékk tækifæri til þess að prófa kajakveltuna í sundlauginni á Höfn en það var ekki möguleiki fyrir fyrri hópinn.

Veðrið hjá báðum hópum var með ýmsu móti en að mestu gott þó að stundum hafi blásið hressilega. Kennarahópurinn var hæstánægður með frammistöðu nemenda og vonast til þess að þau geti nýtt sér öll þau tæki og tól sem þau öðluðust á námskeiðinu í náinni framtíð. Nú ættu nemendur að vera tilbúnir í næsta kajakævintýri!

[modula id=“12717″]

Úrslit í veggspjaldsamkeppni

Eins og við sögðum frá í síðustu viku hefðu 10 nemendur átt að vera í Noregi í síðustu viku. Þó engin væru ferðalögin var tæknin notuð til að vinna saman. Í hópavinnu voru tveir nemendur frá hverju landi og saman átti að vinna að veggspjaldi þar sem unnið var með heimsmarkmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu.
Auk skólanna þriggja í Finnlandi, Noregi og Íslandi eru jarðvangar í nágrenni skólanna samstarfsaðilar. Trollfjell jarðvangurinn í Noregi ákvað að efna til samkeppni um besta veggspjaldið þar sem m.a. eftirfarandi var til grundvallar; skýr og innihaldsríkur texti, góð litasamsetning og myndir við hæfi. Vinnan við veggspjöldin gekk mjög vel og síðasta daginn kynntu hóparnir afrakstur vinnunnar.
Í gær var svo tilkynnt hvaða veggspjald hefði borið sigur úr býtum og það var veggspjald frá hópi 3 en þar voru Harpa Sigríður og Karen Ása fulltrúar Íslands. Veggspjaldið verður sent til EGN (European Geoparks Network) sem er dreift til allra jarðvanga í Evrópu. Nánari upplýsingar um vinningsveggspjaldið má sjá hér. Öll veggspjöldin er að finna á síðu verkefnisins undir „Spring 2021 – Goal 12“
Öll fimm veggspjöldin sem voru unnin í síðustu viku verða hengd upp í FAS.