Það hefur heldur betur verið fjör í Nýheimum í morgun því væntanlegir útskriftarnemendur eru að kveðja skólann sinn í dag. Klukkan sjö hittust nemendur og kennarar í sameiginlegum morgunverði en áður höfðu útskriftarefnin aðeins skreytt í skólanum og fært kennurum sínum gjafir. Eftir að hafa gætt sér á kræsingum var skólasöngur FAS æfður.
Dagurinn verður notaður til að létta sér upp áður en lokatörnin tekur við. Í næstu viku hefst lokamat og þá þarf líka að skila öllum verkefnum sem enn á eftir að skila.
Líklegast munu margir sjá „Bangsímon“, „Grísla“ og „Tuma tígur“ á sveimi í bænum í dag.