Sönguppbrot á þriðjudegi

Það var aldeilis fjör á uppbroti í Nýheimum núna fyrir hádegi. Þar var karlakórinn Jökull mættur á svæðið og kynnti það starf sem fer fram í kórum bæði í orðum og söng. Jóhann stjórnandi sagði frá því hvaða raddir syngja í karlakór og kórfélagar gáfu tóndæmi frá sínum röddum. Þá voru tekin dæmi um hvers konar lög eru sungin í kórum. Og við fengum líka að heyra að sum lög fara best á því að hafa undirleik.

Stefán Sturla sagði frá því að nú gefst nemendum kostur á því að taka þátt í kórastarfi og hægt er að fá fyrir það einingar sem nýtast í námi. Hann upplýsti líka að þekktir söngvarar sem við þekkjum í dag hófu sinn feril á því að syngja í kór því það sé mikill og góður undirbúningur.

Það var ekki annað að sjá en uppbrotið vekti lukku meðal áheyrenda. Nú skorum við á nemendur að drífa sig til að taka þátt í kórastarfsemi á svæðinu því það er sannarlega bæði gaman og gefandi.

Við þökkum Jökli kærlega fyrir komuna og skemmtilega og fræðandi stund.

Breytingar á Heinabergsjökli skoðaðar

Í dag var komið að árlegri ferð að Heinabergsjökli en hún er liður í námi nemenda í inngangsáfanga í náttúruvísindum. Ríflega tveir tugir fóru í ferðina í dag en auk nemenda og kennara komu Kristín og Snævarr frá Náttúrustofunni en hann er allra manna fróðastur um jökla hér um slóðir.

Undanfarin ár hefur verið gengið frá brúnni þar sem Heinabergsvötn áður runnu og þaðan yfir jökulöldurnar að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er oft staldrað við og ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði skoðuð.

Mælingar í gegnum tíðina á jöklum hafa verið nokkuð breytilegar. Þegar jöklar voru stærri var oft hægt að ganga frá ákveðnum viðmiðunarpunktum að jökulsporðinum og mæla vegalengdina beint með málbandi eða spotta. Þegar jöklar tóku að hopa mynduðust lón fyrir framan við þá en á þeim tíma var þríhyrningamælingum beitt til að finna út stöðu jökuljaðarins.

Það má segja að það hafi verið komið að tímamótum í þessari ferð. Af loftmyndum sem Snævarr Guðmundsson tók í sumar sést að Svartarönd, urðarröndin á jöklinum hefur hliðrast til fremst og er sá hluti jökulsins ekki lengur virkur. Það þýðir að sá hluti Heinabergsjökuls sem hefur verið mældur undanfarin ár er ekki lengur partur af jöklinum heldur risastór ísjaki sem er að hluta til þakinn seti þar sem áður var urðarröndin. Ekki er hægt að segja nákvæmlega hvenær þetta gerðist en myndir allt frá árinu 2017 sýna í hvað stefndi. Enn og aftur erum við minnt á þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað á jöklum landsins. Það var samt ákveðið að mæla hversu langt er í jakann frá landi og eins er ætlunin að reyna að fylgjast með því hvort og hvernig jökullinn þynnist.

Ferðin í dag var hin ágætasta. Veðrið skartaði sínu fegursta og útivistin er bætandi bæði fyrir sál og líkama. Næstu daga munu svo nemendur vinna skýrslu um ferðina.

[modula id=“13390″]

Lokaráðstefna í DETOUR verkefninu

Við höfum áður sagt frá því að FAS er þátttakandi í menntaverkefninu DETOUR sem fjallar um heilsueflandi ferðaþjónustu. Senn líður að lokum DETOUR og verður lokaráðstefna verkefnisins haldin í Nýheimum og á netinu 10. nóvember næstkomandi á milli 15 og 19.

Í upphafi ráðstefnunnar mun Katrín Jakobsdóttir ávarpa ráðstefnugesti. Þá verða fluttir áhugaverðir fyrirlestrar tengdir ferðaþjónustu. Dagskráin er enn í mótun en verður birt um leið og hún er endanleg. Þeir sem vilja vita meira um DETOUR er bent á heimasíðu verkefnisins og einnig er hægt að senda fyrirspurn á hulda@fas.is en það er Hulda Laxdal sem heldur utan um verkefnið af hálfu FAS.

Við vonumst eftir góðri þátttöku allra sem áhuga hafa á heilsu, vellíðan og ferðaþjónustu.

 

Græn skref í FAS

Nú er í gangi í FAS vinna við verkefnið Græn skref, sem er verkefni fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna eins og segir á vefsíðu verkefnisins. Þetta er þarft og mikilvægt verkefni á tímum loftslagsbreytinga.

Með verkefninu á að draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið. Ætlunin er að bæta flokkun, minnka matarsóun, setja upp grænt bókhald og bæta hjólaaðstöðu við Nýheima svo eitthvað sé nefnt. Grænu skrefin eru fimm og samkvæmt Loftslagsstefnu Stjórnarráðsins er gerð krafa um að allar ríkisstofnanir uppfylli öll fimm Grænu skrefin fyrir árslok 2021.

Núna er verið að vinna að því að móta loftslagsstefnu fyrir skólann og vinna í skrefum eitt og tvö. Í hverju skrefi þarf að huga að 20 – 40 mismunandi atriðum sem þarf að uppfylla til að hljóta viðurkenningu. Verkefnastjóri með Grænum skrefum í FAS er Olga Ingólfsdóttir.

Mælingar á Fláajökli

Í dag fóru staðnemendur í áfanganum JARÐ2IJ05 í ferð að Fláajökli til að skoða stöðu jökulsporðsins. Með í för var Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands en hann er manna fróðastur hér um slóðir um jökla og breytingar á þeim.

Í ferðum sem þessum er margt að sjá tengt náttúrunni og breytingum á henni. Því er oft staldrað við til að skoða ummerki náttúrunnar, hvort sem það tengist rofi, gróðurframvindu eða öðru sýnilegu í umhverfinu.
Veðrið í dag var ljómandi gott en nokkuð napurt inni við jökulinn þar sem mælingar fórum fram.

Nemendur frá FAS fóru fyrst til mælinga á Fláajökli vestanverðum vorið 2016 og síðan þá hafa orðið gríðarlega breytingar. Sem dæmi má nefna að þá gátu nemendur gengið á löngum köflum á jökulsporðinum en núna er komið nokkur hundruð metra breytt lón á milli jökuls og lands.

Næstu daga munu nemendur svo vinna nánar úr gögnunum sem var aflað í feðrinni.

[modula id=“13340″]

 

Góðir gestir í FAS

Í dag komu til okkar fulltrúar frá Konfúsíusarstofnuninni Norðurljósum. Stofnunin byggir á samvinnu þriggja aðila; Háskóla Íslands, Ningbo háskóla í Kína og Hanban sem er móðurstofnun Konfúsíusarstofnana í heiminum. Stofnunin er bakhjarl námslínu kínverskra fræða og hefur líka staðið fyrir námi á framhaldsskólastigi í kínversku.

Gestirnir komu færandi hendi en skólinn fékk að gjöf nokkrar kennslubækur og orðabækur. Það væri gaman ef að í framtíðinni yrði boðið upp á nám í kínversku í FAS.

Það vakti athygli gestanna að á vegg skólans hangir kínverskt ljóð en það er gjöf frá fyrrum nemanda okkar Chiharu Kawai en hún er japönsk og lauk héðan stúdentsprófi 2006.

Kærar þakkir fyrir komuna ágæta fólk.