FAS keppir í Gettu betur í kvöld

Eins og undanfarin ár keppir FAS í Gettu betur. Þegar lið voru dregin sama kom í ljós að FAS keppir við lið Menntaskólans í Kópavogi og verður viðureignin í kvöld, 5. janúar. Viðureigninni verður útvarpað á Rás 2 og munu liðin keppa klukkan 20:20.
Lið FAS er skipað þeim Ingunni Ósk Grétarsdóttur, Júlíusi Aroni Larssyni og Selmu Ýr Ívarsdóttur. Keppnin leggst vel í krakkana og þau hlakka til kvöldsins. Þegar spurt var um undirbúning sögðust þau hafa verið nokkuð dugleg að undirbúa sig í jólafríinu.
Vegna sóttvarnarreglna er ekki hægt að koma og horfa á viðureignina en við hvetjum alla til að stilla á Rás 2 í kvöld og fylgjast með okkar fólki og senda þeim góða strauma. Að sjálfsögðu óskum okkar fólki góðs gengis í kvöld.

Skólastarf vorannar hafið

Skólastarf vorannarinnar hófst formlega í dag með skólasetningu. Það var þó óvenjulegt að þessu sinni því það var bæði hægt að mæta í skólann og einnig að vera á Teams. Í kjölfarið voru umsjónarfundir sem bæði voru í stofu og á Teams.
Þann 1. janúar tók gildi ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar sem gildir til 28. febrúar. Þar er kveðið á um að fjöldi í hverju rými geti verið allt að 30. Ef fjarlægð á milli manna nær tveimur metrum þarf ekki að hafa grímu. Þá er blöndun á milli hópa leyfileg. Þess vegna getum við verið með skólahald með nánast hefðbundnu sniði en þó þurfa allir að gæta vel að sóttvörnum.
Kennsla hefst svo 5. janúar samkvæmt stundaskrá og við hlökkum til annarinnar og ganga mót hækkandi sól.

Jólafrí og upphaf vorannar

Síðustu daga hafa kennarar verið önnum kafnir við að taka nemendur í lokamatsviðtöl og fara yfir vinnugögn nemenda. Í dag lýkur skólastarfi haustannarinnar í FAS formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Það verður eflaust kærkomið að fá jólafrí eftir krefjandi haustönn vegna COVID.

Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 4. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 10. Umsjónarfundur verður sama dag klukkan 10:30 og er mikilvægt að nemendur mæti þar. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 5. janúar samkvæmt stundaskrá.

Starfsfólk FAS sendir nemendum og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.

Glaðventa í FAS

Í dag er síðasti kennsludagur annarinnar í FAS. Af því tilefni gerðu nemendur og kennarar sér dagamun og kennsla féll niður í síðasta tíma fyrir hádegi. Nemendur fór í leik og hún Hafdís í veitingasölunni töfraði fram kræsingar í anda jólanna.
Að sjálfsögðu fylgdu allir sóttvarnarreglum, báru grímur á meðan náð var í matinn og borðuðu í sinni heimastofu.
Á morgun tekur svo við lokamat hjá nemendum. Þá mæta nemendur í viðtal hjá kennurum sínum og gera upp önnina. Tímasetningar í lokamat fylgja í flestum tilfellum stundaskrá viðkomandi áfanga. Það verða allir að mæta í lokamat til þess að ljúka áfanga og ná þar jafnframt tilsettum árangri. Lokamati lýkur 18. desember og þá ættu líka allar einkunnir að ligga fyrir í Innu.
Við óskum nemendum okkar góðs gengis í lokamati.

Aida Gonzalez lýkur námi í stafrænni framleiðslutækni

Í janúar 2020 hóf Aida Gonzalez Vicente kennari í FAS nám í stafrænni framleiðslutækni sem Fab Foundation og Fab Lab smiðjur landsins bjóða upp á. Fab Academy er alþjóðlegt diplómanám sem er kennt af Neil Gershenfeld prófessor hjá MIT háskólanum í Boston. Aida kláraði námið í lok nóvember og mun útskrifast á næstu misserum. Lokaverkefni hennar er teikniborð með ýmsum áhugaverðum tæknilausnum.  Hægt er að  fræðast um verkefni hennar á slóðinni http://fabacademy.org/2020/labs/reykjavik/students/aida-gonzalez/

Í náminu fóru allir fyrirlestrar fram í gegnum fjarfundarbúnað en vinnan sjálf fór að mestu fram í Fab Lab smiðju Hornafjarðar þar sem aðgangur er að tækjum og þekkingu tengt náminu.  Formlega var Aida skráð í Fab Lab smiðju Reykjavíkur í þessu námi en ekki í Fab Lab smiðjunni hér en það var vegna framkvæmda sem áttu sér stað að hluta í Vöruhúsinu á námstímabilinu.  Gott samstarf var á milli smiðja til að styðja við nám Aidu og tók hún miklum framförum á þessum tíma. Námið er mjög krefjandi en að meðaltali eru það um 35 til 40 tímar á viku sem þarf að skila af sér í 20 vikur. Nemendur fá verkefni í hverri viku sem þarf að vinna og skrásetja inn á vef Fab Academy og tengja það við sitt lokaverkefni. Hvert lokaverkefni þarf að innhalda rafrásakerfi sem eru hönnuð frá grunni af þátttakendum, ekki má nota tilbúnar iðntölvur. Hér er hægt að skoða myndband um borðið og eiginleika þess.

Hér er upptalning á helstu þáttum námsins:
– Grunnatriði stafrænnar framleiðslutækni
– Verkefnastjórnun
– Tölvustudd hönnun
– Tölvustýrð skurðartækni
– Þrívíddarhönnun og þrívíddarprentun
– Rafeindatækni, hönnun
– Tölvustýrð framleiðsla
– Forritun í C++
– Iðntölvuhönnun, hönnun rafrásabretta
– Forritun fyrir iðntölvur
– Net- og samskiptatækni
– Notendaviðmót og forritun
– Vélahönnun og forritun
– Þróunarverkefni
– Uppfinningar, einkaleyfi og tekjumöguleikar
– Verkefnaþróun
– Vinna við lokaverkefni

Það eru því mjög áhugaverðir tímar í þróun Fab Lab náms í FAS og mun námið nýtast vel til að kenna nemendum. Ég vil óska Aidu innilega til hamingju með áfangann og hlakka til áframhaldandi samstarfs við hana og stjórnendur Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

Vilhjálmur Magnússon
Forstöðumaður Vöruhúss
og Fab Lab smiðju Hornafjarðar

[modula id=“11414″]

Jöklaferð í Öræfin

Grunnnámskeið í jöklaferðamennsku var haldið dagana 27. – 30. nóvember með seinni helming nemendahópsins. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Árni Stefán Haldorsen, Bjartur Týr Ólafsson, Elín Lóa Baldursdóttir og Sólveig Sveinbjörnsdóttir. Sem áður var markmið námskeiðsins að byggja ofan á línuvinnu, kynnast virkni og hegðun jökla, að læra rétta notkun mannbrodda og æfa ísklifur. Námskeiðið byrjaði í fyrirlestrasal Nýheima en fór eftir það fram á skriðjöklum Öræfajökuls.

Námskeiðinu hafði þurft að fresta vegna samkomutakmarkanna, og var því í seinna lagi, enda jöklarnir orðnir bláir og harðir og búið að snjóa á þá, auk þess sem dagarnir eru nú orðnir stuttir. Dagsbirtan var þó fullnýtt og unnið myrkranna á milli.

Skipulag námskeiðsins var með svipuðu sniði og fyrra námskeiðið. Byrjað var í Nýheimum og farið yfir hagnýtar upplýsingar, jöklabúnað, virkni og hegðun jökla. Eftir hádegismat var ferðinni heitið á Falljökul þar sem farið var í að stilla og festa brodda á skó og farið í grunnatriði broddatækni og hvernig þeim skal beita í mismunandi aðstæðum.

Daginn eftir var stefnan sett hátt á Virkisjökul og fékk hópurinn þá góðan tíma til að halda áfram að æfa broddatæknina, lesa í landslag jökulsins og velja góða leið. Þegar komið var á efri sléttu Virkisjökuls voru ístryggingar kynntar og að því loknu æfði hópurinn sig niður í jökulsprungu og klifra upp línuna. Áður en heim var haldið skoðuðum við fallegan íshelli.

Á sunnudeginum héldum við á Fjallsjökul og æfðum ísklifur í frábæru veðri og aðstæðum. Farið var yfir uppsetningu akkera fyrir ísklifur í ofanvaði, upprifjun í tryggingu klifrara, klifurtækni og fleira.

Seinasta daginn var haldið á Kvíárjökul og farið yfir hífingar og einstefnuloka. Nemendur beittu þessu svo til að æfa sprungubjörgun, auk þess sem tími gafst til að æfa betur önnur atriði sem farið hafði verið í á námskeiðinu.

Námskeiðslok voru með hefðbundnu sniði, búnaður var flokkaður og yfirfarinn, námskeiðið rýnt til gangs, spurningum svarðað og ráðleggingar fyrir framhaldið gefnar. Námskeiðið tókst afar vel og hópurinn sýndi flottar framfarir yfir þessa fjóra daga. Við þökkum kærlega fyrir okkur. Myndirnar eru frá @skulipalmason.

Árni Stefán

[modula id=“11395″]