Það var aldeilis fjör á uppbroti í Nýheimum núna fyrir hádegi. Þar var karlakórinn Jökull mættur á svæðið og kynnti það starf sem fer fram í kórum bæði í orðum og söng. Jóhann stjórnandi sagði frá því hvaða raddir syngja í karlakór og kórfélagar gáfu tóndæmi frá sínum röddum. Þá voru tekin dæmi um hvers konar lög eru sungin í kórum. Og við fengum líka að heyra að sum lög fara best á því að hafa undirleik.
Stefán Sturla sagði frá því að nú gefst nemendum kostur á því að taka þátt í kórastarfi og hægt er að fá fyrir það einingar sem nýtast í námi. Hann upplýsti líka að þekktir söngvarar sem við þekkjum í dag hófu sinn feril á því að syngja í kór því það sé mikill og góður undirbúningur.
Það var ekki annað að sjá en uppbrotið vekti lukku meðal áheyrenda. Nú skorum við á nemendur að drífa sig til að taka þátt í kórastarfsemi á svæðinu því það er sannarlega bæði gaman og gefandi.
Við þökkum Jökli kærlega fyrir komuna og skemmtilega og fræðandi stund.