Breytingar á Heinabergsjökli skoðaðar

21.okt.2021

Í dag var komið að árlegri ferð að Heinabergsjökli en hún er liður í námi nemenda í inngangsáfanga í náttúruvísindum. Ríflega tveir tugir fóru í ferðina í dag en auk nemenda og kennara komu Kristín og Snævarr frá Náttúrustofunni en hann er allra manna fróðastur um jökla hér um slóðir.

Undanfarin ár hefur verið gengið frá brúnni þar sem Heinabergsvötn áður runnu og þaðan yfir jökulöldurnar að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er oft staldrað við og ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði skoðuð.

Mælingar í gegnum tíðina á jöklum hafa verið nokkuð breytilegar. Þegar jöklar voru stærri var oft hægt að ganga frá ákveðnum viðmiðunarpunktum að jökulsporðinum og mæla vegalengdina beint með málbandi eða spotta. Þegar jöklar tóku að hopa mynduðust lón fyrir framan við þá en á þeim tíma var þríhyrningamælingum beitt til að finna út stöðu jökuljaðarins.

Það má segja að það hafi verið komið að tímamótum í þessari ferð. Af loftmyndum sem Snævarr Guðmundsson tók í sumar sést að Svartarönd, urðarröndin á jöklinum hefur hliðrast til fremst og er sá hluti jökulsins ekki lengur virkur. Það þýðir að sá hluti Heinabergsjökuls sem hefur verið mældur undanfarin ár er ekki lengur partur af jöklinum heldur risastór ísjaki sem er að hluta til þakinn seti þar sem áður var urðarröndin. Ekki er hægt að segja nákvæmlega hvenær þetta gerðist en myndir allt frá árinu 2017 sýna í hvað stefndi. Enn og aftur erum við minnt á þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað á jöklum landsins. Það var samt ákveðið að mæla hversu langt er í jakann frá landi og eins er ætlunin að reyna að fylgjast með því hvort og hvernig jökullinn þynnist.

Ferðin í dag var hin ágætasta. Veðrið skartaði sínu fegursta og útivistin er bætandi bæði fyrir sál og líkama. Næstu daga munu svo nemendur vinna skýrslu um ferðina.

[modula id=“13390″]

Aðrar fréttir

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Félagslíf er mikilvægt í skólastarfi

Nú er skólastarfið komið á gott skrið. Hluti af skólastarfi í FAS er að hlúa að félagslífinu og það er gert með klúbbastarfi. Forsvarsmenn nemendafélagsins; þær Helga Kristey, Nína Ingibjörg og Isabella Tigist hafa undanfarið verið að undirbúa félagslíf annarinnar....

Skólastarf vorannar komið á skrið

Skólastarf vorannar komið á skrið

Nú er skólastarf vorannarinnar óðum að taka á sig mynd. Það hófst á mánudag en þá var farið yfir áfanga vorannarinnar samkvæmt hraðtöflu. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá í gær, þriðjudag. Ef það eru einhverjir enn að velta fyrir sér að skrá sig í fjarnám að þá...

Jólafrí og upphaf vorannar

Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...