Slagorð og veggspjöld umhverfinu til heilla

Þessa vikuna höfum við í Nýheimum helgað umhverfinu athygli okkar. Það hefur verið fjallað um mikilvægi flokkunar, við höfum velt fyrir okkur ferðavenjum okkar og næringu og reiknað út kostnað.

Í dag var komið að því að draga saman það sem hefur verið skoðað. Nemendur hittust og útbjuggu slagorð og veggspjöld sem miða að því að vekja athygli og fá okkur til að hugsa. Á samfélagsmiðlum skólans má sjá afrakstur vinnunnar og hvetjum við alla til að vera virkir í umhverfismálum.

Ísklifur í fjallamennskunáminu

Fjallamennskuárið 2022 er hafið og það af fullum krafti. Dagana 28. – 31. janúar kenndum við Árni Stefán og Íris Ragnarsdóttir tíu nemendum á öðru ári ísfossaklifur. Áfanginn var að þessu sinni kenndur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en erfitt reyndist að finna ísklifuraðstæður á landinu þessa vikuna sökum hlýinda. Allt fór þó á besta veg og við náðum að klifra á þremur mismunandi stöðum í Hvalfirði, í Múlafjalli, Brynjudal og við Meðalfellsvatn.

Ísfossaklifur er tækniíþrótt, góð tækni skiptir meira máli en líkamlegur styrkur. Við lögðum því mikla áherslu á að nemendur öðluðust góða klifurtækni, en það næst með því að klifra mikið og fá endurgjöf og ábendingar jafnóðum. Eins er mikilvægt að leggja mat á áhættur, gæði íssins og að þekkja sín mörk. Vegna aðstæðna klifruðum við að mestu í ofanvaði en það er mjög góð leið til að bæta ísklifurtæknina og öðlast traust á búnaðinum.

Það var ánægjulegt að hitta hópinn aftur eftir dimmustu mánuði ársins en nú taka skíða- og leiðangursáfangar við hjá þeim fram að útskrift í vor. Við óskum hópnum góðs gengis og vonumst til að sjá þau á fjöllum.

[modula id=“13855″]

Flokkum og spörum – allir græða

Eitt þeirra atriða sem við ætlum að skoða í umhverfisviku er hvað verður um ruslið sem við skiljum eftir okkur. Elín Ásgeirsdóttir umhverfisstjóri hjá Íslenska Gámafélaginu var í dag með fyrirlestur um sorp og flokkun. Hún kom inn á mikilvægi þess að allir kynni sér og tileinki hugtakið „hringrásarhagkerfi“ sem snýst um að nýta hlutina sem best. Flokkun og endurvinnsla er liður í hringrásarhagkerfinu en auk þess sparar hringrásarhagkerfið auðlindir, orku og dregur úr mengun.

Ýmsar auðlindir sem við erum að nýta eru takmarkaðar og því ber okkur skylda til að endurnýta þær sem mest. Þar má t.d. nefna ýmis konar málma sem ekki er mikið af á jörðinni. Það þarf líka minni orku þegar er verið að endurvinna efni heldur en þegar er verið að vinna það úr jörðu í fyrsta skipti. Á þann hátt er hægt að koma í veg fyrir mikla losun á koltvíoxíði sem er mjög mikilvægt.

Elín fór einnig yfir það hverjir helstu flokkar í endurvinnslu eru og hvernig efnið/umbúðirnar þurfa að vera áður en þær eru settar í endurvinnslu. Þá fór hún yfir ferlið allt frá því að við skilum umbúðum í grænu tunnuna og þangað til að efnið hefur verið endurunnið. Á sama hátt útskýrði hún ferlið fyrir lífræna úrganginn.

Staðan á flokkun hér í Nýheimum var skoðuð sérstaklega. Það er ánægjulegt að magn sorps í húsinu hefur minnkað en við þurfum að bæta flokkun og minnka þar með hlut þess sem fer í almennt sorp. Hún minnti á mikilvægi þess að allir verði meðvitaðir og virkir í flokkun til að bæta árangurinn enn frekar. Eftir fyrirlestur Elínar gafst þátttakendum kostur á að spyrja og nýttu margir sér það.

Við þökkum kærlega fyrir áhugaverðan fyrirlestur og nú þurfum við öll að sameinast um að standa okkur enn betur í flokkun.

Heildstæð námskrá í ferðaþjónustu

Í janúar á síðasta ári fékk FAS það verkefni að móta og skrifa heildstæða námskrá í ferðaþjónustu. Þetta verkefni var unnið náið með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Um er að ræða nám með námslokum á öðru þrepi, þriðja þrepi og stúdentsprófi. Í hverjum námslokum er sameiginlegur kjarni og sérhæfing. Sérhæfingarnar á öðru þrepi eru móttaka, veitingar og fjallamennska. Á þriðja þrepi og í stúdentsprófinu er sérhæfingin fjallamennska. Námið er skipulagt þannig að hægt verði að bæta við sérhæfingu á fleiri sviðum.

Námskráin var send í morgun, 4. febrúar inn til Menntamálastofnunar til samþykktar og vonir standa til að hægt verði að kenna samkvæmt námskránni strax á næsta skólaári. Af þessu tilefni var boðið upp á góðgjörðir á kennarastofunni í morgun.

Umhverfisvika í FAS og Nýheimum

Næsta vika, 7. – 11 febrúar verður helguð umhverfinu í Nýheimum. Á hverjum degi verður eitthvað gert til minna okkur á og benda á mikilvægi þess að við umgöngumst umhverfið af virðingu og með velferð þess í huga.

Á mánudag verður bíllaus dagur og eru allir hvattir til að mæta gangandi eða hjólandi í Nýheima. Allir íbúar hússins þurfa að skrá og segja frá því hvernig þeir koma í húsið þennan dag.

Á þriðjudag verður fulltrúi frá Íslenska gámafélaginu með um hálftíma fyrirlestur um sorp, flokkun og stöðuna í Nýheimum. Eftir fyrirlesturinn sem verður á Teams verða umræður.

Á miðvikudag er svo komið að næringunni. Þann dag eru allir hvattir til borða í veitingasölunni eða taka með sér nesti. Þeir sem versla í Nettó og aðrir sem koma með matvælaumbúðir verða að taka þær með sér heim. Óskað verður eftir upplýsingum um neysluvenjur og þær skráðar niður.

Á fimmtudag er ætlunin að reikna út kostnað við mismunandi samgöngumáta í ferðalögum til og frá skóla. Þá á einnig að reikna út mismunandi kostnað varðandi mat og næringu eftir því hvort það er borðað í veitingasölunni, tekið með nesti eða farið í Nettó. Þá er líka ætlunin að finna heppilegar fjölnota umbúðir sem nýtast bæði í ferðalögum á vegum skólans og ekki síður fyrir þá sem velja að taka með sér nesti.

Föstudagurinn 11. febrúar er síðasti dagur umhverfisvikunnar og þá er ætlunin að búa til veggspjöld sem fjalla um umhverfismál og minna okkur á mikilvægi þess að við temjum okkur lífsmáta sem skilur eftir sig sem minnst vistspor.

Að sjálfsögðu hvetjum við alla til að taka þátt í umhverfisvikunni og leggja sitt af mörkum. Það er bæði okkar hagur og umhverfisisns.

 

 

Húsfundur um umhverfismál

Í dag var haldinn fundur þar sem umhverfismál sem varða íbúa Nýheima voru í brennidepli. Annars vegar var verið að fjalla um rusl og flokkun á því en á stórum vinnustað eins og í Nýheimum fellur til mikið af einnota matarumbúðum á degi hverjum. Það er brýnt að finna leiðir til að fækka slíkum umbúðum og eins að sem mest af úrgangi sé flokkaður rétt og sem mest fari í endurvinnslu. Hins vegar var verið að ræða samgöngur til og frá vinnustað og hvernig sé hægt að stuðla að umhverfisvænum ferðamáta. Bæði umfjöllunarefnin tengjast líka Grænum skrefum en FAS er að sjálfsögðu þátttakandi þar og fékk staðfestingu á því fyrir jól að hafa uppfyllt öll fimm skrefin sem ætlast er til að ríkisstofnanir geri.

Fundurinn var rafrænn og var þátttakendum skipt í minni hópa til að umræðan yrði sem markvissust og allir fengju tækifæri til að láta sínar skoðanir í ljós. Fundarstjórar og ritarar komu úr nemendahópnum. Í lokin var svo stutt kynning á því hvað hafði verði rætt í hópunum.

Niðurstöður fundarins verða svo notaðar til að ná sem mestum úrbætum í umhverfismálum bæði innan Nýheima og utan. Í annarri viku febrúar verður niðurstaðan af fundinum nýtt í umhverfisviku og er það liður í umhverfisstjórnunarkerfi skólans. Þá er vert að nefna að annan febrúar hefst Lífshlaupið þar sem fólk er hvatt til að stunda reglulega hreyfingu.

Síðast en ekki síst er brýnt að ræða umhverfismál reglulega og mikilvægi þess að umgangast jörðina eins skynsamlega og hægt er.