Flokkum og spörum – allir græða

08.feb.2022

Eitt þeirra atriða sem við ætlum að skoða í umhverfisviku er hvað verður um ruslið sem við skiljum eftir okkur. Elín Ásgeirsdóttir umhverfisstjóri hjá Íslenska Gámafélaginu var í dag með fyrirlestur um sorp og flokkun. Hún kom inn á mikilvægi þess að allir kynni sér og tileinki hugtakið „hringrásarhagkerfi“ sem snýst um að nýta hlutina sem best. Flokkun og endurvinnsla er liður í hringrásarhagkerfinu en auk þess sparar hringrásarhagkerfið auðlindir, orku og dregur úr mengun.

Ýmsar auðlindir sem við erum að nýta eru takmarkaðar og því ber okkur skylda til að endurnýta þær sem mest. Þar má t.d. nefna ýmis konar málma sem ekki er mikið af á jörðinni. Það þarf líka minni orku þegar er verið að endurvinna efni heldur en þegar er verið að vinna það úr jörðu í fyrsta skipti. Á þann hátt er hægt að koma í veg fyrir mikla losun á koltvíoxíði sem er mjög mikilvægt.

Elín fór einnig yfir það hverjir helstu flokkar í endurvinnslu eru og hvernig efnið/umbúðirnar þurfa að vera áður en þær eru settar í endurvinnslu. Þá fór hún yfir ferlið allt frá því að við skilum umbúðum í grænu tunnuna og þangað til að efnið hefur verið endurunnið. Á sama hátt útskýrði hún ferlið fyrir lífræna úrganginn.

Staðan á flokkun hér í Nýheimum var skoðuð sérstaklega. Það er ánægjulegt að magn sorps í húsinu hefur minnkað en við þurfum að bæta flokkun og minnka þar með hlut þess sem fer í almennt sorp. Hún minnti á mikilvægi þess að allir verði meðvitaðir og virkir í flokkun til að bæta árangurinn enn frekar. Eftir fyrirlestur Elínar gafst þátttakendum kostur á að spyrja og nýttu margir sér það.

Við þökkum kærlega fyrir áhugaverðan fyrirlestur og nú þurfum við öll að sameinast um að standa okkur enn betur í flokkun.

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...