Í dag var haldinn fundur þar sem umhverfismál sem varða íbúa Nýheima voru í brennidepli. Annars vegar var verið að fjalla um rusl og flokkun á því en á stórum vinnustað eins og í Nýheimum fellur til mikið af einnota matarumbúðum á degi hverjum. Það er brýnt að finna leiðir til að fækka slíkum umbúðum og eins að sem mest af úrgangi sé flokkaður rétt og sem mest fari í endurvinnslu. Hins vegar var verið að ræða samgöngur til og frá vinnustað og hvernig sé hægt að stuðla að umhverfisvænum ferðamáta. Bæði umfjöllunarefnin tengjast líka Grænum skrefum en FAS er að sjálfsögðu þátttakandi þar og fékk staðfestingu á því fyrir jól að hafa uppfyllt öll fimm skrefin sem ætlast er til að ríkisstofnanir geri.
Fundurinn var rafrænn og var þátttakendum skipt í minni hópa til að umræðan yrði sem markvissust og allir fengju tækifæri til að láta sínar skoðanir í ljós. Fundarstjórar og ritarar komu úr nemendahópnum. Í lokin var svo stutt kynning á því hvað hafði verði rætt í hópunum.
Niðurstöður fundarins verða svo notaðar til að ná sem mestum úrbætum í umhverfismálum bæði innan Nýheima og utan. Í annarri viku febrúar verður niðurstaðan af fundinum nýtt í umhverfisviku og er það liður í umhverfisstjórnunarkerfi skólans. Þá er vert að nefna að annan febrúar hefst Lífshlaupið þar sem fólk er hvatt til að stunda reglulega hreyfingu.
Síðast en ekki síst er brýnt að ræða umhverfismál reglulega og mikilvægi þess að umgangast jörðina eins skynsamlega og hægt er.