Í janúar á síðasta ári fékk FAS það verkefni að móta og skrifa heildstæða námskrá í ferðaþjónustu. Þetta verkefni var unnið náið með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Um er að ræða nám með námslokum á öðru þrepi, þriðja þrepi og stúdentsprófi. Í hverjum námslokum er sameiginlegur kjarni og sérhæfing. Sérhæfingarnar á öðru þrepi eru móttaka, veitingar og fjallamennska. Á þriðja þrepi og í stúdentsprófinu er sérhæfingin fjallamennska. Námið er skipulagt þannig að hægt verði að bæta við sérhæfingu á fleiri sviðum.
Námskráin var send í morgun, 4. febrúar inn til Menntamálastofnunar til samþykktar og vonir standa til að hægt verði að kenna samkvæmt námskránni strax á næsta skólaári. Af þessu tilefni var boðið upp á góðgjörðir á kennarastofunni í morgun.