Áfanginn Vetrarferð er kenndur á vorönn fyrsta árs nema hjá FAS og er grunnáfangi í vetrarfjallamennsku þar sem nemendur eru undirbúnir fyrir þær áskoranir sem fylgja því að ferðast og tjalda í snjó, þar á meðal á snjóþöktum jöklum.
Fyrri vetrarferð tók á móti tólf nemendum með spennandi litríkri veðurspá sem lofaði góðri skemmtun. Áfanginn hófst í fyrirlestrasal Nýheima þar sem farið var yfir komandi daga og kennarar námskeiðsins, Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir og Michael Walker fóru yfir grunn í vetrarfjallamennsku og búnaði dreift til nemenda.
Næst var haldið í Öræfin þar sem hópurinn eyddi næstu dögum í að æfa allt það sem þau gátu á milli lægða. Dögunum var meðal annars varið í að læra að byggja snjóhús sem gæti nýst sem neyðarskýli, farið var yfir hvernig bera ætti sig að í fjalllendi að vetri til og rifjað upp hvernig meta á snjóflóðaaðstæður, en nemendurnir höfðu nýlokið við námskeið í skíðum og snjóflóðum á Austurlandi. Einnig var farið yfir hvernig hægt er að stoppa sig með ísaxarbremsu, byggingu akkera í snjó sem og línuvinnu sem þörf er á í þessum aðstæðum.
Áfanginn heppnaðist því ákaflega vel, enda frábær hópur og þótt veðrið hafi leikið þau heldur grátt fóru allir heim með bros á vör.
Í seinni hóp áfangans voru 14 nemendur og voru þau heldur heppnari með veður en urðu hins vegar fyrir nokkrum skakkaföllum af völdum covid. Þau gengu Sandfellsleið upp í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli og tjölduðu þar undir hlíðum jökulgarðsins. Þar var farið yfir ýmis ráð sem ýmist gott eða nauðsynlegt er að kunna þegar tjaldað er í snjó. Þar voru byggðir skjólveggir og snjór bræddur, bæði til eldamennsku og fyrir drykkjarvatn næsta dag. Daginn eftir var gengið upp á jökul í þremur línuteymum þar sem nemendur fengu að spreyta sig á að skipuleggja og stjórna línu. Einnig var farið yfir gerð snjóakkera og ísaxarbremsa æfð. Vegna veikinda tók hópurinn sameiginlega ákvörðun um að gista ekki aðra nótt heldur ganga niður Sandfell þá um kvöldið. Nemendur fengu því óvænta æfingu í næturrötun. Næstu dagar fóru í ýmsar æfingar á tæknilegum atriðum og m.a. var farið á skriðjökul til að æfa sprungubjörgun en hún er sambærileg á hörðum ís og í snjó þó að akkerið sé öðruvísi.
Líkt og í fyrri áfanga gátu kennarar námskeiðsins, Daniel W. Saulite, Íris R. Pedersen, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson, með útsjónarsemi farið yfir alla námsþætti á kennsluáætlun þrátt fyrir áskoranir sem m.a. veðrátta þessa árstíma bíður upp á.
Fyrir hönd kennara í Vetrarferð 2022, Elín Lóa Baldursdóttir og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.
[modula id=“14199″]
Í gær fóru staðnemendur í umhverfis- og auðlindafræði í vettvangsferð upp í Lón. Tilgangurinn var fyrst og fremst að athuga hvort álftir séu farnar að koma til landsins. Undanfarin ár höfum við líka komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í landi Syðri Fjarðar og er það liður í að efla umhverfisvitund nemenda og hvetja til sem mestrar flokkunar á sorpi.
Stefán Aspar verkefnisstjóri umhverfismála hjá sveitarfélaginu tók á móti hópnum og sagði frá því hvaða rusl er sent í urðun. Það var greinilegt að það hefði mátt vanda betur flokkun á því sem var að berast í urðun undanfarið. Það mátti greinilega sjá töluvert af plasti og öðrum flokkanlegum úrgangi. Það er mjög mikilvægt að þessi urðunarstaður endist sveitarfélaginu sem lengst og þá þarf að flokka eins vel og mögulegt er.
Eftir heimsókn á urðunarsvæðið var haldi austur að Hvalnesi en þar er fyrsti talningastaðurinn af þremur. Um leið og komið var út úr bílnum heyrðist vel að töluvert af álft er komið til landsins. En þær koma gjarnan fyrst á Lónsfjörð og dvelja þar í nokkra daga áður en þær halda á varpstöðvarnar. Það var greinilegt á tilburðum fuglsins að það er nóg um æti í firðinum. Útsýnispallurinn á milli Hvalness og Víkur er jafnan sá staður þar sem mest er af álft og það var einnig svo í gær. Eftir að hafa talið þar var gengið fram með strandlengjunni áleiðis að Vík og á leiðinni var tínt rusl og horft eftir dauðum fuglum. Við höfum oft séð meira rusl á þessari leið en það sem við fundum var að langstærstum hluta plast og svo einnota drykkjarílát. Síðasti talningarstaðurinn er svo við Svínhóla. Í ferðinni í gær voru 4787 álftir taldar. Það var Björn Gísli sem stjórnaði talningunni eins og svo oft áður.
Eftir ferðina þurfa nemendur svo að vinna samantekt um lífshætti álftarinnar og einnig að skrifa skýrslu um talningarnar.
[modula id=“14160″]
Í síðustu viku komu til okkar góðir gestir en það voru væntanlegir útskriftarnemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar. Margir þeirra eru farnir að velta fyrir sér hvað eigi að gera að loknum grunnskóla.
Hér í FAS var tekið á móti hópnum á Nýtorgi og var byrjað á því að segja frá hvernig framhaldsskólakerfið er uppbyggt. Því næst var kynnt hvaða nám er í boði í FAS og hver námslok geta verið eftir því hvað er valið. Að loknum kynningum gátu gestirnir gengið um og rætt við kennara og nemendur sem veittu upplýsingar um fjölbreytt nám í FAS.
Það var gaman að sjá hversu áhugasamur hópurinn var og þeim kom greinilega á óvart hversu fjölbreytt námsframboð er í FAS. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta í FAS í haust.
Að lokum má geta þess að opnað hefur verið fyrir umsóknir í framhaldsskóla hjá Menntamálastofnun á þessari slóð.
Leikverkefnið „Hvert örstutt spor“ verður frumsýnt í Mánagarði föstudaginn 18. mars. Verkið er byggt á „Silfurtúngli“ Halldórs Laxness en það verk var skrifað árið 1954 og var þess tíma þjóðfélagsádeila. Það er Stefán Sturla sem hefur fært verkið í leikbúning og er jafnframt leikstjóri. Stefán Sturla notar grunnþætti upprunalega verksins en hefur aðlagað þá að nútímanum.
Eins og svo oft áður er FAS í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar sem á þessu ári fagnar 60 ára afmæli sínu. Undanfarið hafa verið miklar æfingar og nú er allt að smella saman fyrir frumsýninguna. Sjö sýningar eru fyrirhugaðar á verkinu og hægt er að panta miða í síma 892 97 07.
Við hvetjum alla til að láta þennan menningarviðburð ekki framhjá sér fara. Sjáumst í leikhúsinu.
Í síðustu viku fengu nemendur í heilsufræðiáföngum skólans heimsókn frá Lyfjaeftirliti Íslands. Það var Birgir Sverrisson sem kom til okkar og var með fræðslu um hlutverk og skyldur Lyfjaeftirlitsins. Hann fór almennt yfir stöðuna en beindi svo sjónum sínum sérstaklega að ólöglegum lyfjum innan íþróttagreina og afleiðinga af notkun þeirra. Þá talaði hann sérstaklega um orkudrykki og hversu fljótt þeir geta orðið ávanabindandi. Enn er lítið vitað um langtímaáhrif af inntöku orkudrykkja.
Í dag hélt svo Erla Björnsdóttir fyrirlestur um mikilvægi svefns og talaði sérstaklega um mikilvægi þess að ungt fólk sofi nægilega. Í máli sínu fór Erla yfir fjögur stig svefns og mikilvægi þess að öllum stigunum fjórum sé náð. Þá kom fram að skjátímanotkun stuttu fyrir svefn getur haft áhrif á gæði svefnsins. Því hvetjum við alla til að huga að eigin svefnvenjum og hvernig megi auðveldlega bæta þær. Erla er með heimasíðuna Betri svefn og hvetjum við alla til að skoða hana því þar er margar góðar ráðleggingar að finna.
Við þökkum gestunum kærlega fyrir þeirra innlegg og vonum að það hvetji til heilbrigðari lífsstíls því heilsan er eitt það mikilvægasta sem við eigum.
Árshátíð FAS var haldin í gærkveldi og fór vel fram. Hún hafði að mestu verið undirbúin á opnum dögum fyrr í þessum mánuði. Það eru einkum þrír hópar sem bera hitann og þungann af skipulagningu árshátíðarinnar en það eru; nemendaráð, skemmtinefnd og skreytinganefnd. Afrakstur vinnunnar fengum við hin svo að sjá í Sindrabæ í gær þar sem salurinn var vel skreyttur og öll umgjörð til fyrirmyndar.
Mörg skemmtiatriði voru heimatilbúin en Auddi Blö og Steindi Jr voru fengnir til að vera veislustjórar og þeim fórst það ljómandi vel úr hendi. Að lokinni dagskrá var ball og þar skemmtu sér allir hið besta.
[modula id=“14071″]