Vetrarferð FAS dagana 25. febrúar – 2. mars og 5. – 10. mars 2022

28.mar.2022

Áfanginn Vetrarferð er kenndur á vorönn fyrsta árs nema hjá FAS og er grunnáfangi í vetrarfjallamennsku þar sem nemendur eru undirbúnir fyrir þær áskoranir sem fylgja því að ferðast og tjalda í snjó, þar á meðal á snjóþöktum jöklum.  

Fyrri vetrarferð tók á móti tólf nemendum með spennandi litríkri veðurspá sem lofaði góðri skemmtun. Áfanginn hófst í fyrirlestrasal Nýheima þar sem farið var yfir komandi daga og kennarar námskeiðsins, Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir og Michael Walker fóru yfir grunn í vetrarfjallamennsku og búnaði dreift til nemenda.  

Næst var haldið í Öræfin þar sem hópurinn eyddi næstu dögum í að æfa allt það sem þau gátu á milli lægða. Dögunum var meðal annars varið í að læra að byggja snjóhús sem gæti nýst sem neyðarskýli, farið var yfir hvernig bera ætti sig að í fjalllendi að vetri til og rifjað upp hvernig meta á snjóflóðaaðstæður, en nemendurnir höfðu nýlokið við námskeið í skíðum og snjóflóðum á Austurlandi. Einnig var farið yfir hvernig hægt er að stoppa sig með ísaxarbremsu, byggingu akkera í snjó sem og línuvinnu sem þörf er á í þessum aðstæðum.  

Áfanginn heppnaðist því ákaflega vel, enda frábær hópur og þótt veðrið hafi leikið þau heldur grátt fóru allir heim með bros á vör.  

Í seinni hóp áfangans voru 14 nemendur og voru þau heldur heppnari með veður en urðu hins vegar fyrir nokkrum skakkaföllum af völdum covid. Þau gengu Sandfellsleið upp í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli og tjölduðu þar undir hlíðum jökulgarðsins. Þar var farið yfir ýmis ráð sem ýmist gott eða nauðsynlegt er að kunna þegar tjaldað er í snjó. Þar voru byggðir skjólveggir og snjór bræddur, bæði til eldamennsku og fyrir drykkjarvatn næsta dag. Daginn eftir var gengið upp á jökul í þremur línuteymum þar sem nemendur fengu að spreyta sig á að skipuleggja og stjórna línu. Einnig var farið yfir gerð snjóakkera og ísaxarbremsa æfð. Vegna veikinda tók hópurinn sameiginlega ákvörðun um að gista ekki aðra nótt heldur ganga niður Sandfell þá um kvöldið. Nemendur fengu því óvænta æfingu í næturrötun. Næstu dagar fóru í ýmsar æfingar á tæknilegum atriðum og m.a. var farið á skriðjökul til að æfa sprungubjörgun en hún er sambærileg á hörðum ís og í snjó þó að akkerið sé öðruvísi.  

Líkt og í fyrri áfanga gátu kennarar námskeiðsins, Daniel W. Saulite, Íris R. Pedersen, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson, með útsjónarsemi farið yfir alla námsþætti á kennsluáætlun þrátt fyrir áskoranir sem m.a. veðrátta þessa árstíma bíður upp á.  

Fyrir hönd kennara í Vetrarferð 2022, Elín Lóa Baldursdóttir og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.

[modula id=“14199″]

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...