Vettvangsferð í Lón

24.mar.2022

Í gær fóru staðnemendur í umhverfis- og auðlindafræði í vettvangsferð upp í Lón. Tilgangurinn var fyrst og fremst að athuga hvort álftir séu farnar að koma til landsins. Undanfarin ár höfum við líka komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í landi Syðri Fjarðar og er það liður í að efla umhverfisvitund nemenda og hvetja til sem mestrar flokkunar á sorpi.

Stefán Aspar verkefnisstjóri umhverfismála hjá sveitarfélaginu tók á móti hópnum og sagði frá því hvaða rusl er sent í urðun. Það var greinilegt að það hefði mátt vanda betur flokkun á því sem var að berast í urðun undanfarið. Það mátti greinilega sjá töluvert af plasti og öðrum flokkanlegum úrgangi. Það er mjög mikilvægt að þessi urðunarstaður endist sveitarfélaginu sem lengst og þá þarf að flokka eins vel og mögulegt er.

Eftir heimsókn á urðunarsvæðið var haldi austur að Hvalnesi en þar er fyrsti talningastaðurinn af þremur. Um leið og komið var út úr bílnum heyrðist vel að töluvert af álft er komið til landsins. En þær koma gjarnan fyrst á Lónsfjörð og dvelja þar í nokkra daga áður en þær halda á varpstöðvarnar. Það var greinilegt á tilburðum fuglsins að það er nóg um æti í firðinum. Útsýnispallurinn á milli Hvalness og Víkur er jafnan sá staður þar sem mest er af álft og það var einnig svo í gær. Eftir að hafa talið þar var gengið fram með strandlengjunni áleiðis að Vík og á leiðinni var tínt rusl og horft eftir dauðum fuglum. Við höfum oft séð meira rusl á þessari leið en það sem við fundum var að langstærstum hluta plast og svo einnota drykkjarílát. Síðasti talningarstaðurinn er svo við Svínhóla. Í ferðinni í gær voru 4787 álftir taldar. Það var Björn Gísli sem stjórnaði talningunni eins og svo oft áður.

Eftir ferðina þurfa nemendur svo að vinna samantekt um lífshætti álftarinnar og einnig að skrifa skýrslu um talningarnar.

[modula id=“14160″]

Aðrar fréttir

Útskrift frá FAS

Útskrift frá FAS

Í dag fór fram útskrift frá FAS. Að þessu sinni útskrifast 10 stúdentar og 16 nemendur úr gunnnámi fjallamennsku. Nýstúdentar eru; Almar Páll Lárusson, Amylee Vitoria Da Silva Trindade, Anna Lára Grétarsdóttir, Atli Steinar Siggeirsson, Filip Orzedowski, Guðjón Arnar...

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Lokaferð grunnnema í Fjallamennskunámi FAS

Síðasti áfangi í grunnnámi Fjalla-FAS, Lokaferð, kláraðist í vikunni. Í þeim áfanga skipuleggja nemendur í sameiningu sína eigin ferð og leiða hana og kennarar eru þeim innan handar. Nemendur fá tækifæri til að sýna fram á þá færni sem þau hafa öðlast í náminu í...

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Vetrarleiðangur á Vatnajökli

Níu annars árs nemendur fóru með þeim Dan Saulite og Ívari F. Finnboga í átta daga vetrarleiðangur á Vatnajökul 15. til 22. maí. Hópurinn fór upp Skáfallsjökul og náði í Grímsvötn á fjórða degi í frábæru veðri. Daginn eftir var brostið á með stormi sem stóð í tvo daga...