Nám í hestamennsku í FAS

Hefur þú áhuga á að læra meira og fá góða undirstöðu fyrir þína hestamennsku? Hvað veist þú um fóðrun, járningar, reiðtygi, holdafar, sjúkdómagreiningu eða sögu íslenska hestsins? Hvernig gengur þér að þjálfa, skilja og vinna með hestinn þinn? FAS býður uppá fimm anna nám í hestamennsku, fyrir byrjendur og lengra komna.

Hestamennskunám undirbýr nemendur til að vera aðstoðarmenn í hvers konar hestatengdri starfsemi, svo sem á hestabúgörðum, við hestatengda ferðaþjónustu eða hjá öðrum sambærilegum fyrirtækjum. Að nemendur geti sinnt helstu verkþáttum í hirðingu hesta og aðstoðað við þjálfun þeirra. Geti aðstoðað viðskiptavini í hestaferðum hjá hestatengdum ferðaþjónustufyrirtækjum og leiðbeint um grunnþætti hestamennsku.

Nemendur í hestamennskunámi FAS þurfa að vera með eiginn hest og allan búnað. Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að hesthúsplássi, mun Hestamannafélagið Hornfirðingur aðstoða við að útvega það. Verklega kennslan fer fram í reiðhöll og á svæði Hestamannafélagsins Hornfirðings við Stekkhól og hestar nemenda þurfa að vera í þar á kennslutíma. Nemendur bera allan kostnað af hesthúsi og fóðri fyrir hestinn.

Reynsla í hestamennsku er metin til eininga í verklega náminu. Bóklegir áfangar eru skipulagðir sem fjarnám en verklegt nám er kennt í lotum.

 

Umhverfisdagur í Nýheimum og ráðhúsinu

Í dag hittust allir íbúar Nýheima og ráðhússins um stund til að huga að umhverfinu en það er orðin venja að gera slíkt í sumarbyrjun. Veður vetrarins fara ekki alltaf blíðlega með umhverfið og ýmislegt þarf að laga þegar veturinn lætur undan.

Nemendum í FAS var skipt í hópa og það átti að snurfusa bæði utan dyra og innan. Meðal þess sem var gert var að sópa stéttir, tína rusl og hreinsa beð. Þá fengu tveir hópar það hlutverk að taka tyggjóklessur. Annar hópurinn skóf upp klessur utan dyra en hinn hópurinn fékk það hlutverk að skoða undir öll borð í kennslustofum og á lesstofu. Það kom sannarlega á óvart að sjá hversu mikið var af tyggjóklessum undir borðum, ekki síst í ljósi þess að öll borð voru tekin og hreinsuð fyrir tveimur árum. Þá þótti hópnum sem hreinsaði innan dyra ekki gott að sjá að munntóbakstuggum virðist oft vera hent upp á hillur á bókasafni í stað þess að henda þeim í ruslið. Það er svo sannarlega hægt að taka sig á og bæta umgengni.

Það er oft sagt að margar hendur vinni létt verk og það á svo sannarlega við í dag. Eftir tiltektina var boðið upp á grillaða hamborgara og voru þeim gerð góð skil.

[modula id=“14272″]

Snjóflóðanámskeið á Siglufirði

Fjórir leiðbeinendur við Fjallamennskunám FAS luku vikulöngu snjóflóðanámskeiði á Siglufirði um páskana. Námskeiðið er frá Kanadíska Snjóflóðafélaginu (CAA) og kallast Avalanche Operations Level 1. Félag Íslenskra Fjallaleiðsögumanna (AIMG) hafði milligöngu um að fá námskeiðið til Íslands en það er hluti af menntunarstiga félagsins auk þess að vera alþjóðlega viðurkennd vottun.

Þau Daniel Saulite, Íris R. Pedersen, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson hafa nú hlotið Level 1 réttindi og geta miðlað þekkingu sinni áfram inn í kennslu við FAS.

[modula id=“14252″]

Páskafrí og kennsla eftir páska

Eftir kennslu í dag, föstudag er komið páskafrí. Það er eflaust kærkomið hjá flestum að fá frí í nokkra daga og fást við eitthvað annað en námið.

Breyting hefur orðið á skóladagatalinu. Þar sem við byrjum kennslu eftir páska þriðjudaginn 19. apríl en ekki á miðvikudegi eins og áður tíðkaðist þá fellum við í staðinn niður kennslu föstudaginn 22. apríl sem er dagurinn eftir sumardaginn fyrsta.

Við óskum öllum gleðilegra páska og vonum að allir hafi það sem best í fríinu.

 

Kajakferð grunnur 2022

Valáfanginn Kajakferð grunnur var kenndur hjá FAS dagana 1. – 4. og 5. – 8. apríl. Að þessu sinni var áhersla lögð á sit-on-top kajak en slíkir bátar eru auðveldir til að læra á og góður inngangur inn í aðrar greinar kajak íþróttarinnar svo sem straumvatnskajak eða sjókajak. Lagt var upp með sömu dagskrá fyrir báða hópana en vegna veðurs þurfti að víxla dögum innan seinni ferðarinnar.  

Báðir hópar lærðu grunnatriði varðandi búnað og öryggisbúnað sem nauðsynlegur er í kajakferðum og hvernig fara skal með slíkan búnað svo hann endist sem lengst. Farið var í ýmsa tækni við að beita árinni til að hreyfa bátinn fram, aftur og til hliðar sem og rétta líkamsbeitingu við róðurinn. Leiðsögn var fléttuð inn í áfangann, en nemendur skiptust á að kenna hverju öðru tækniatriði sem þeir höfðu lært daginn áður. Þau aðstoðuðu hvert annað við að komast frá landi auk þess að æfa bæði að bjarga sjálfum sér og einnig félaga upp í bátinn aftur. Rætt var um þær hættur sem fylgja siglingum á jökullónum, ísjökum og kelfandi jöklum. Einnig var farið yfir hvernig lesa má í strauma í ám og hvernig best sé að beita bátnum upp eða niður í straum, á móti öldu eða til að komast inn í iður (e. eddy) í ánni. Síðast en ekki síst var farið í hvernig best væri að festa kajakana vel á kerruna, en bátarnir eru stórir og þungir og það er nokkuð mikil vinna að festa þá vel.  

Fyrri hópurinn byrjaði á að róa í Hornafirði en vegna veðurs fór seinni hópurinn ekki út á sjó. Sá hópur æfði hins vegar að velta straumvatnskajak í sundlaug Hafnar. Báðir hópar reru á Jökulsárlóni og niður hluta Jökulsár í Lóni þar sem ofantalin tækniatriði voru æfð og notuð.  

Kennarar í áfanganum voru Michael Robert Walker, Sigfús Ragnar Sigfússon og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.  

[modula id=“14235″]

Góðir gestir í FAS

Það hefur heldur betur verið líf í Nýheimum þessa vikuna. Sveitarfélagið stendur fyrir hinsegin viku og á miðvikudag voru Samtökin ’78 með fræðslu fyrir bæði nemendur og starfsfólk í FAS og sveitarfélagins í fyrirlestrasal Nýheima.

Þá komu hingað seinni partinn á þriðjudag gestir frá Finnlandi og Noregi í Nordplus samstarfsverkefni. Íslensku þátttakendurnir í verkefninu fóru síðasta laugardag til að taka á móti hópnum. Sunnudagurinn var notaður til að skoða sig um í Reykjavík. Á mánudag hófst svo vinna í tengslum við verkefnið en þá var þátttakendum skipt í 6 hópa. Hver hópur átti að heimsækja fyrirtæki í Vík og afla þar upplýsinga í tengslum við heimsmarkmið 8 en við erum einmitt að vinna með það á þessari önn. Hópurinn hélt svo áfram á þriðjudag og heimsótti nokkra staði í kringum Kirkjubæjarklaustur og á Hala og hélt áfram að safna upplýsingum.

Í gær og í dag hafa krakkarnir unnið úr upplýsingum og útbúa bæði veggspjöld og kynningar tengdar heimsóknunum og munu þau verkefni birtast á vefsíðu verkefnisins fljótlega https://geoheritage.fas.is/  – en það hefur ekki bara verið unnið í verkefnum. Hópurinn fór t.d. í gær út á Stokksnes og í Almannaskarð og í dag fengum við fræðslu um þjóðgarðinn í Gömlubúð. Við viljum þakka öllum sem hafa tekið á móti okkur.

Í kvöld er gestunum boðið á leiksýningu og svo heldur hópurinn af stað til Keflavíkur í fyrramálið og flýgur utan á laugardagsmorgun.