Í dag lauk formlega starfi í nemendafélagi FAS á yfirstandandi skólaári. Starfsemi nemendafélagsins hefur gengið þokkalega þó sérstaklega á vorönninni eftir að takmörkunum tengdum covid var aflétt. Fimm klúbbar voru starfandi á skólaárinu og stóðu þeir fyrir fjölbreyttum viðburðum ásamt stjórn nemendafélagsins. Hápunktur í starfsemi vetrarins er þó einstaklega vel lukkuð árshátíð í mars.
Aðalfundur nemendafélagsins var haldinn í síðustu viku og var mæting hin ágætasta. Fyrir fundinn hafði verið auglýst eftir áhugasömum nemendum til að leiða starf nemendafélagsins á komandi skólaári og komu nokkrar umsóknir. Eftir kosningar er það ljóst að Dagmar Lilja verður forseti nemendafélagsins og Júlíana Rós varaforaseti. Filip er fulltrúi FAS í SÍF (Sambandi íslenskra framhaldsskólanema). Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að fylgjast með störfum þeirra í haust.
Á þessum tímamótum viljum við líka þakka fráfarandi stjórn frábær störf í vetur. Þau hafa svo sannarlega staðið sig við oft krefjandi aðstæður. Meðfylgjandi mynd sýnir þau Tómas Nóa, Sævar Rafn og Selmu Ýri og var myndin tekin þegar stjórnin skilaði af sér.
Í gær var síðasti kennsludagur annarinnar í FAS. Þá var líka kynning á lokaverkefnum væntanlegra útskriftarnemenda en frá því að núverandi námskrá skólans tók gildi hafa allir útskriftarnemendur þurft að vinna slík verkefni. Þar er lögð áhersla á að nemendur kynni sér aðferðir til að vinna skipulega og koma upplýsingum á framfæri á skýran og greinargóðan hátt.
Kynningarnar í gær voru fjölbreyttar. Margir nemendur höfðu lagt fyrir kannanir og skrifað skýrslu tengda niðurstöðunum. Þá voru líka kynningar þar frá nemendum sem höfðu unnið verkefni tengd áherslum sínum í námi, t.d. á lista- og menningarsviði skólans.
Lokamatsviðtöl hefjast í dag og standa fram í næstu viku. Allir nemendur þurfa að ræða við kennara sína um námið og önnina. Sá fundur getur verið í skólastofu eða í gegnum Teams eftir aðstæðum. Lokamatsviðtölum á að vera lokið 19. maí og því styttist að nemendur komist út í sumarið.
Það má með sanni segja að Nýheimar hafi iðað af lífi og sál í morgun en þá hélt Sinfóníuhljómsveit Suðurlands tónleika fyrir nemendur í grunnskólanum og FAS. Hljómsveitin fagnar sumri með tónleikum á nokkrum stöðum á Suðausturlandi.
Tónleikarnir hófust á því að stjórnandi hljómsveitarinnar Guðmundur Óli Gunnarsson kynnti hvaða hljóðfæri er að finna í hljómsveitinni og hvert hljóðfæri gaf tóndæmi. Aðalefni tónleikanna var þó tónverkið „Lykillinn“ eftir þá Tryggva Má Baldvinsson og Sveinbjörn I Baldvinsson og er verkið eins konar „Pétur og úlfurinn“ úr íslenskum sagnveruleika. Sögumaður í tónverkinu var Stefán Sturla.
Það er skemmst frá því að segja að tónleikarnir tókust ljómandi vel og ekki að sjá annað en allir nytu þessa menningarviðburðar í Nýheimum á mánudagsmorgni.
Það var nóg að gera í lok apríl í Fjallamennskunáminu. Að þessu sinni voru það alpaferðin og AIMG Jöklaleiðsögn 1. Námskeiðin voru haldin í Öræfum, enda býður svæðið upp á einstakt aðgengi að sprungnum skriðjöklum, bröttum fjöllum og hájöklum. Vegna stærðar hópsins var hvort námskeið haldið í tvígang. Veðrið lék við okkur allan tímann og ljóst að sumarið kom snemma í Öræfin.
Alpaferðin leggur áherslu á að undirbúa nemendur fyrir ferðalög á hájöklum. Áhersluatriði eru rötun, ferðaskipulagning, notkun línu til að tryggja gönguhóp og sprungubjörgun. Farið var upp á Hrútsfjallstinda og tjaldbúðir reistar í tæplega 1600m hæð í skjóli Vesturtinds. Þaðan voru Vesturtindur, Hátindur og Miðtindur heimsóttir auk þess sem stórar jökulsprungur milli tindanna voru nýttar í björgunaræfingar.
AIMG Jöklaleiðsögn 1 er staðlað námskeið sem haldið var í samvinnu við Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Námskeiðið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir að vinna á skriðjöklum við leiðsögn. Farið er í sprungubjörgun og ísklifur, en megináherslan er á leiðsöguhliðina; samskipti við gesti, leiðaval, leiðsögutækni og áhættustýringu.
Öll námskeiðin tókust vel og stóðu nemendur sig með prýði. Næstu skref hjá hópnum verða valnámskeið í klettaklifri og svo hæfniferð, en það er vikulöng ferð sem nemendur skipuleggja.
Fyrir nokkrum árum gaf Kiwanisklúbburinn Ós nemendum FAS fótboltaspil sem er staðsett í aðstöðu nemenda á efri hæð. Það hefur verið mikið notað. Núverandi nemendaráði fannst vanta meiri afþreyingu fyrir nemendur og fyrir stuttu var ráðist í að festa kaup á nýju billjardborði. Nemendafélagið notaði hluta af sjóði sínum til að fjárfesta í borðinu.
Billjardborðið hefur heldur betur vakið lukku á meðal nemenda og nánast í hverjum frímínútum eru einhverjir að nýta aðstöðuna, hvort sem er í billjard eða í fótboltaspilinu. Það hefur jafnvel verið sett upp keppni fyrir lið.
Þetta er frábært framtak hjá nemendaráði og þetta framtak þeirra mun nýtast bæði núverandi og væntanlegum nemendum FAS til langs tíma.
Síðustu daga hafa verið hér góðir gestir frá framhaldsskóla í Ledziny í Suður-Póllandi. Tildrög þess að hópurinn er kominn hingað eru þau að hann vildi kynnast skóla á Íslandi sem býður upp á áhugavert nám tengt heilsu.
Hér í FAS hafa þau hitt kennara sem koma að kennslu í heilsutengdum greinum og þá sem halda utan um félagslíf nemenda. Þau hittu einnig nemendaráð til að fræðast um félagslífið og skipulag þess. Auk þess fræddust þau um íslenska skólakerfið og hvernig námið er byggt upp í FAS með áherslu á starfsnám og stuðningskerfið. Þá hafa þau í heimsókn sinni hitt bæjarstjóra, skoðað Vöruhúsið og fræðst um starfsemi í Nýheimum.
Gestirnir eru mjög ánægðir með móttökurnar og þann möguleika að geta kynnst öðru skólaumhverfi og eru sammála um að hér hjá okkur sé mun meiri sveigjanleiki í námi en hjá þeim. Það er áhugi á áframhaldandi samstarfi. Þar er t.d. verið að skoða samstarf tengt íþróttum og eins varðandi nemendur af erlendum uppruna. Það verður spennandi að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.