Í dag lauk formlega starfi í nemendafélagi FAS á yfirstandandi skólaári. Starfsemi nemendafélagsins hefur gengið þokkalega þó sérstaklega á vorönninni eftir að takmörkunum tengdum covid var aflétt. Fimm klúbbar voru starfandi á skólaárinu og stóðu þeir fyrir fjölbreyttum viðburðum ásamt stjórn nemendafélagsins. Hápunktur í starfsemi vetrarins er þó einstaklega vel lukkuð árshátíð í mars.
Aðalfundur nemendafélagsins var haldinn í síðustu viku og var mæting hin ágætasta. Fyrir fundinn hafði verið auglýst eftir áhugasömum nemendum til að leiða starf nemendafélagsins á komandi skólaári og komu nokkrar umsóknir. Eftir kosningar er það ljóst að Dagmar Lilja verður forseti nemendafélagsins og Júlíana Rós varaforaseti. Filip er fulltrúi FAS í SÍF (Sambandi íslenskra framhaldsskólanema). Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að fylgjast með störfum þeirra í haust.
Á þessum tímamótum viljum við líka þakka fráfarandi stjórn frábær störf í vetur. Þau hafa svo sannarlega staðið sig við oft krefjandi aðstæður. Meðfylgjandi mynd sýnir þau Tómas Nóa, Sævar Rafn og Selmu Ýri og var myndin tekin þegar stjórnin skilaði af sér.