Fyrir nokkrum árum gaf Kiwanisklúbburinn Ós nemendum FAS fótboltaspil sem er staðsett í aðstöðu nemenda á efri hæð. Það hefur verið mikið notað. Núverandi nemendaráði fannst vanta meiri afþreyingu fyrir nemendur og fyrir stuttu var ráðist í að festa kaup á nýju billjardborði. Nemendafélagið notaði hluta af sjóði sínum til að fjárfesta í borðinu.
Billjardborðið hefur heldur betur vakið lukku á meðal nemenda og nánast í hverjum frímínútum eru einhverjir að nýta aðstöðuna, hvort sem er í billjard eða í fótboltaspilinu. Það hefur jafnvel verið sett upp keppni fyrir lið.
Þetta er frábært framtak hjá nemendaráði og þetta framtak þeirra mun nýtast bæði núverandi og væntanlegum nemendum FAS til langs tíma.