Það má með sanni segja að Nýheimar hafi iðað af lífi og sál í morgun en þá hélt Sinfóníuhljómsveit Suðurlands tónleika fyrir nemendur í grunnskólanum og FAS. Hljómsveitin fagnar sumri með tónleikum á nokkrum stöðum á Suðausturlandi.
Tónleikarnir hófust á því að stjórnandi hljómsveitarinnar Guðmundur Óli Gunnarsson kynnti hvaða hljóðfæri er að finna í hljómsveitinni og hvert hljóðfæri gaf tóndæmi. Aðalefni tónleikanna var þó tónverkið „Lykillinn“ eftir þá Tryggva Má Baldvinsson og Sveinbjörn I Baldvinsson og er verkið eins konar „Pétur og úlfurinn“ úr íslenskum sagnveruleika. Sögumaður í tónverkinu var Stefán Sturla.
Það er skemmst frá því að segja að tónleikarnir tókust ljómandi vel og ekki að sjá annað en allir nytu þessa menningarviðburðar í Nýheimum á mánudagsmorgni.