Samstarf FAS og Fenris

Í dag var undirritaður samstarfsamningur á milli FAS og Fenris. Þessi samningur kveður á um að efla afreksíþróttastarf í Sveitarfélaginu Hornafirði. Markmiðið er að gefa þeim sem stunda skipulagðar æfingar hjá Fenri tækifæri til að tvinna saman íþróttir og nám. Fenrir heldur utan um æfingar viðkomandi nemenda en FAS um námið.

Þessi samstarfssamningur er mikið gleðiefni því hjá okkur í FAS eru nemendur sem hafa mikinn metnað í íþróttum og vilja standa sig.

Lind Draumland Völundardóttir skólameistari FAS og Erlendur Rafnkell Svansson eigandi og þjálfari hjá Fenrir – Elite Fitness skrifa undir samstarfs samning 

Afmælishátíð Nýheima

Fyrir tuttugu árum síðan var starfsfólk FAS í óða önn að flytja skólann og öllu sem honum fylgir í Nýheima hér á Höfn. Skólinn hafði áður verið í hluta af húsnæði Nesjaskóla og það húsnæði var bæði óhentugt og allt of lítið fyrir skólann. Það voru því spennandi tímar framundan með flutningi í nýtt húsnæði. Það er ótrúlegt en satt að það séu orðnir tveir áratugir síðan að skólinn flutti.

Nú er komið að því að minnast þessara tímamóta. Laugardaginn 27. ágúst verður efnt til afmælishátíðar í Nýheimum á milli 13 og 16. Það er ýmislegt á dagskrá, s.s. hátíðarerindi, tónlistaratriði og þá munu nokkrar stofnanir innan Nýheima standa fyrir skemmtilegum viðburðum. Síðast en ekki síst verður boðið upp á hátíðarkaffi á Nýtorgi.

Við hvetjum alla sem geta að mæta í Nýheima á laugardag á afmælishátíðina og kynna sér þá fjölbreyttu starfsemi sem hér fer fram.

Fjallamennskunám FAS

Skólaárið í FAS hófst með skólasetningu þann 18. ágúst þegar Lind Völundardóttir skólameistari setti sitt fyrsta skólaár.

Fjallamennskunemendur mættu einnig á skólasetninguna og í framhaldinu hófst fyrsti áfangi haustsins, Klettaklifur og línuvinna. Í ár eru 23 nemendur skráðir á fyrsta ár í fjallamennsku. Fyrsti dagur ferðarinnar var óhefðbundinn að því leyti að við vorum heilan dag innan dyra, en þá rigndi töluvert. Að kennslu lokinni var ekið í Svínafell í Öræfum þar sem nemendur slóu upp tjaldbúðum.

Á öðrum degi héldum við á Hnappavelli. Hnappavallahamrar eru stærsta klifursvæði landsins og eru okkar helsta kennslusvæði í klettaklifri. Þar lærðu nemendur rétta notkun sigtóla við sig og við að tryggja klifrara. Eftir hádegi klifruðu allir nemendurnir af kappi í Þorgilsrétt sem er svæði á Hnappavöllum sem hentar vel fyrir byrjendur.

Næstu dagar buðu upp á meira klifur, fleiri hnúta og fleiri verkfæri til að ná lengra í klifuríþróttinni og línuvinnu. Í lok vikunnar höfðu flestir nemendur leitt klifurleið og tryggt leiðsluklifrara sem gerir nemendunum kleift að fara á klifursvæði og klifra sjálf.

Á næst síðasta degi áfangans settu nemendur upp sín eigin akkeri og sigu af þeim fram af hömrunum í Miðskjóli á Hnappavöllum. Áfanganum lauk með línuklifri á Skeiðarárbrú en hún er hinn fullkomni staður til að æfa línuklifur. Áður en nemendurnir héldu til síns heima buðum við þeim að prófa klifurveginn í Káraskjóli í Freysnesi við góðar undirtektir.

Það er ljóst að nemendahópurinn sem hefur hafið nám við Fjallamennskunám FAS er öflugur þennan vetur. Við hlökkum mikið til komandi ævintýra með nýnemunum okkar. Í næstu viku mæta þau aftur í skólann og hefja þá áfangann Gönguferðir.

Nýnemahátíð í FAS

Það er mikið af nýju fólki á nýju skólaári í FAS og dagurinn í dag er sérstaklega tileinkaður nýnemum. Að þessu sinni var staðnemendum skipt í nokkra hópa þar sem nýnemum og eldri  nemendum var blandað saman. Í byrjun þurfti að gefa hópnum nafn og finna lukkudýr fyrir hópinn. Það hafði verið komið fyrir nokkrum stöðvum um Nýheima og þurfti hver hópur að fara á allar stöðvarnar og leysa mismunandi þrautir. Eftir hverja leysta þraut fékk hópurinn bókstaf og í lokin átti að finna lausnarorðið. Það var hópurinn „Stjáni blái“ sem fékk flest stig og bar því sigur úr býtum.

Allt gekk þetta ljómandi vel og var ekki annað að sjá en öllum þætti gaman að sprella og leika sér um stund. Tilgangurinn er þó fyrst og fremst að bjóða nýja nemendur velkomna. Að leik loknum var efnt til hamborgaraveislu sem hún Dísa okkar töfraði fram og var matnum gerð góð skil.

Á einni stöðinni fengu hóparnir það hlutverk að semja ljóð – á meðfylgjandi mynd má sjá meðlimi „Stjána bláa“ semja ljóð með tilþrifum.

Skólastarf haustannarinnar hafið

Það var margt um manninn í fyrirlestrasal Nýheima í morgun þegar skólastarf haustannarinnar hófst formlega með skólasetningu. Lind nýskipaður skólameistari bauð alla velkomna og fór yfir helstu áherslur á önninni. Að lokinni skólasetningu hittu nemendur svo umsjónarkennara sína þar sem stundatöflur voru skoðaðar og athugað hvort einhverju þurfi að breyta í skráningu á námi.

Kennsla hjá staðnemendum hefst samkvæmt stundaskrá í fyrramálið klukkan 8 en nemendur í fjallamennsku halda síðar í dag í Öræfin þar sem fyrsti áfanginn í náminu verður haldinn.

Við bjóðum alla velkomna og vonum að námið á önninni verði bæði gaman og gefandi.

Skiptibókamarkaður hjá Menningarmiðstöðinni

Það getur verið nokkur kostnaður í því að kaupa bækur og margir eiga námsbækur sem þeir þurfa ekki að nota lengur. Menningarmiðstöð Hornafjarðar stendur fyrir skiptibókamarkaði á bókasafninu þar sem hægt er að koma með slíkar bækur. Nánari upplýsingar er að finna á fésbókarsíðu Menningarmiðstöðvarinnar .

Við hvetjum nemendur til að skoða þennan möguleika. Það er bæði umhverfisvænt og sparar líka töluvert að endurnýta bækur. Skiptibókamarkaðurinn hefur þegar opnað og verður opinn næstu vikur. Við viljum þó vekja athygli á því að ekki er hægt að endurselja vinnubækur eða þær lesbækur sem hefur verið skrifað í, t.d. bækur í erlendum tungumálum.