Fjallamennskunám FAS

24.ágú.2022

Skólaárið í FAS hófst með skólasetningu þann 18. ágúst þegar Lind Völundardóttir skólameistari setti sitt fyrsta skólaár.

Fjallamennskunemendur mættu einnig á skólasetninguna og í framhaldinu hófst fyrsti áfangi haustsins, Klettaklifur og línuvinna. Í ár eru 23 nemendur skráðir á fyrsta ár í fjallamennsku. Fyrsti dagur ferðarinnar var óhefðbundinn að því leyti að við vorum heilan dag innan dyra, en þá rigndi töluvert. Að kennslu lokinni var ekið í Svínafell í Öræfum þar sem nemendur slóu upp tjaldbúðum.

Á öðrum degi héldum við á Hnappavelli. Hnappavallahamrar eru stærsta klifursvæði landsins og eru okkar helsta kennslusvæði í klettaklifri. Þar lærðu nemendur rétta notkun sigtóla við sig og við að tryggja klifrara. Eftir hádegi klifruðu allir nemendurnir af kappi í Þorgilsrétt sem er svæði á Hnappavöllum sem hentar vel fyrir byrjendur.

Næstu dagar buðu upp á meira klifur, fleiri hnúta og fleiri verkfæri til að ná lengra í klifuríþróttinni og línuvinnu. Í lok vikunnar höfðu flestir nemendur leitt klifurleið og tryggt leiðsluklifrara sem gerir nemendunum kleift að fara á klifursvæði og klifra sjálf.

Á næst síðasta degi áfangans settu nemendur upp sín eigin akkeri og sigu af þeim fram af hömrunum í Miðskjóli á Hnappavöllum. Áfanganum lauk með línuklifri á Skeiðarárbrú en hún er hinn fullkomni staður til að æfa línuklifur. Áður en nemendurnir héldu til síns heima buðum við þeim að prófa klifurveginn í Káraskjóli í Freysnesi við góðar undirtektir.

Það er ljóst að nemendahópurinn sem hefur hafið nám við Fjallamennskunám FAS er öflugur þennan vetur. Við hlökkum mikið til komandi ævintýra með nýnemunum okkar. Í næstu viku mæta þau aftur í skólann og hefja þá áfangann Gönguferðir.

Aðrar fréttir

Jólafrí og upphaf vorannar

Jólafrí og upphaf vorannar

Í dag lýkur starfi haustannar formlega og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá er líka komið jólafrí í skólanum sem er örugglega kærkomið hjá flestum. Skólastarf vorannar hefst mánudaginn 6. janúar klukkan 8:30 en þá eiga nemendur að mæta hjá...

Námskeið í landvörslu í FAS

Námskeið í landvörslu í FAS

Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) býður upp á námskeið í landvörslu á vorönn 2025 og hljóta þau sem standast áfangann réttindi í landvörslu. Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir. FAS fékk hefur leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þetta námskeið. Námið...

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Hilmar Óli valinn í æfingahóp U18 drengja

Þjálfarar yngri landsliða Íslands hafa tilkynnt fyrstu æfingahópa sína fyrir komandi verkefni. Meðal þeirra sem fengu kallið í æfingahóp U18 drengja er Hilmar Óli Jóhannsson, nemandi á afreksíþróttasviði Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS). Hilmar Óli er...