Á leið til Noregs

Á morgun leggur af stað hópur nemenda áleiðis til Noregs en það eru þátttakendur í verkefninu Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway sem er styrkt af Nordplus Junior. Þetta er þriðja og síðasta árið í verkefninu og þar er verið að vinna með valin heimsmarkmið.
Frá skólabyrjun hefur hópurinn verið að undirbúa ferðina og mun þar bæði kynna land og þjóð og eins taka þátt í verkefnavinnu tengda heimsmarkmiði 14 sem fjallar um líf í vatni. Hópurinn flýgur til Oslóar á sunnudagsmorgun og hittir þar hóp frá samstarfsskólanum í Finnlandi. Þaðan bíður okkar langt ferðalag til Brønnøysund en þangað ætti hópurinn að vera kominn á sunnudagskvöld. Næsta vika verður síðan nýtt til ýmis konar vinnu.
Hægt verður að fylgjast með ferðum hópsins á https://geoheritage.fas.is/

Fjallamennskunemar í gönguferð

Annar áfangi þessa skólavetrar hjá Fjallamennskunámi FAS hófst 1. september þegar nemendur komu í áfangann Gönguferð á Höfn. Í áfanganum er megináhersla lögð á að kenna og æfa rötun og leiðaval og allt það helsta sem tengist göngu með allt á bakinu og tjaldbúðalífi.

Fyrsti dagurinn fór í kennslu á kort og áttavita og undirbúning fyrir gönguna. Á öðrum degi áfangans hélt hópurinn svo af stað í fimm daga göngu. Hópurinn, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar, lögðu af stað upp Hofsdal í Álftafirði, gengu inn á Lónsöræfi og enduðu á Illakambi. Gist var í fjórar nætur í tjöldum. Veðurskilyrði voru mjög góð en það rigndi tvö kvöld af fjórum en enginn vindur var.

Hópurinn gekk upp í svartaþoku þegar komið var upp úr Jökulgilinu, nærri Hofsjökli. Það gerði rötunaræfingar með korti, símaforritum og áttavita mun raunverulegri og nauðsynlegar. Þá var kærkomið útsýnið í átt að Jökulsá og Kömbum þegar rofaði til. Gangan yfir Morsá og í Víðidal var sólrík og þaðan hafði hópurinn útsýni inn á austanverðan Vatnajökul. Kíkt var ofan í Tröllakróka á leið í Múlaskála og bæði Axarfellsjökull og Snæfell blöstu við. Í ferðinni skiptust nemendur á að leiða hópinn og velja hentuga gönguleið á degi hverjum.

Áfanginn endaði svo þann 7. september á frágangi búnaðar og stuttri æfingu í þverun straumvatns í Laxá í Nesjum.

 

Möguleikar á námi eða starfi erlendis

Í dag var komið að fyrsta uppbroti vetrarins. Það var kynning frá Rannís um alla þá möguleika sem ungt fólk hefur í dag til að dvelja erlendis um tíma í námi eða starfi. Þar er svo sannarlega margt í boði. Það má t.d. nefna skiptinám & starfsnám á vegum Erasmus+, nám á eigin vegum, sjálfboðaliðastörf eða samfélagsverkefni.

Vefsíðan farabara.is var kynnt en þar er hægt að finna gagnlegar upplýsingar um lönd sem hægt er að sækja styrki til. Þá var líka sagt frá því hvernig hægt sé að búa til rafræna ferilskrá á europass.is á 30 mismunandi tungumálum.

Þá fengum við kynningu á öllum þeim möguleikum sem eru í boði varðandi sjálfboðaliðastarf. Þar er svo sannarlega margt í boði. Á vefsíðunni European Youth Portal er hægt að finna margs konar upplýsingar er varða sjálfboðaliðastörf. Instagram reikningurinn Eurodesk Iceland inniheldur líka mikið af gagnlegum upplýsingum fyrir þá sem vilja fara erlendis í nám eða starf.

Við þökkum þeim Óla Erni og Ara frá Rannís  kærlega fyrir skemmtilega og gagnlega kynningu og hvetjum okkar fólk til að kynna sér alla þá möguleika sem í boði eru.

 

 

Foreldrafundur í FAS

Fimmtudaginn 1. september var haldinn foreldrafundur fyrir foreldra og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára. Ákvörðun var tekin um að halda fundinn á Teams þar sem slíkt fyrirkomulag hafði reynst vel. Því miður fengum við upplýsingar eftir fundinn um að bæði foreldrar og kennarar hafi lent í erfiðleikum með að komast inn á fundinn.

Okkur þykir það mjög leitt að þessi tæknilegu erfiðleikar hafi átt sér stað og nú vinnum við í því að komast að orsökum þess svo þetta gerist ekki aftur. Af þessu tilefni viljum við benda á póst frá Fríði námsráðgjafa þar sem hún reifar umfjöllunarefni fundarins fyrir þá sem ekki komust inn. Við viljum minna á að það má alltaf hafa samband við skólann ef eitthvað er óljóst eða þarfnast nánari skýringar.

Námsferð á Skeiðarársand

Síðasta fimmtudag fóru nemendur í áfanganum Inngangur að náttúruvísindum í árlega námsferð á Skeiðarársand. Tilgangur ferðarinnar var annars vegar að skoða gróðurreiti sem skólinn hefur umsjón með og hins vegar að fræðast um svæðið og gróðurframvindu þess.

Fyrir ferðina er mikilvægt að fara í gegnum það sem á að gera til að allt gangi sem best. Nemendum er skipt í hópa og hafa allir ákveðið hlutverk. Eftir helgina munu nemendur svo vinna skýrslu um ferðina.

Það spillti ekki fyrir að það var sól og blíða á meðan hópurinn athafnaði sig á sandinum. Það var því sannarlega nærandi fyrir sál og líkama að fara í þessa ferð.

Fyrsta árs fjallamennskunemar í gönguferð

Síðustu daga hafa nemendur á fyrsta ári í fjallamennsku verið í FAS. Þar hafa þeir verið að undirbúa aðra ferð annarinnar sem er gönguferð um fjalllendi. Undirbúningur felst m.a. í því læra að nota áttavita og staðsetja sig á korti, undirbúa og velja bestu leiðina svo eitthvað sé nefnt.

í dag klukkan 15 var svo komið að því að halda af stað en þá sótti rúta hópinn til fara með hann á upphafsstað göngunnar. Hópurinn kemur til baka á þriðjudaginn og verður þá væntanlega reynslunni ríkari.

Þeir sem vilja fylgjast með ferðum hópsins geta smellt á þessa slóð og séð staðsetningu hverju sinni. Við óskum hópnum góðrar ferðar og vonum að allt gangi sem best.