Fjallamennskunemar í gönguferð

20.sep.2022

Annar áfangi þessa skólavetrar hjá Fjallamennskunámi FAS hófst 1. september þegar nemendur komu í áfangann Gönguferð á Höfn. Í áfanganum er megináhersla lögð á að kenna og æfa rötun og leiðaval og allt það helsta sem tengist göngu með allt á bakinu og tjaldbúðalífi.

Fyrsti dagurinn fór í kennslu á kort og áttavita og undirbúning fyrir gönguna. Á öðrum degi áfangans hélt hópurinn svo af stað í fimm daga göngu. Hópurinn, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar, lögðu af stað upp Hofsdal í Álftafirði, gengu inn á Lónsöræfi og enduðu á Illakambi. Gist var í fjórar nætur í tjöldum. Veðurskilyrði voru mjög góð en það rigndi tvö kvöld af fjórum en enginn vindur var.

Hópurinn gekk upp í svartaþoku þegar komið var upp úr Jökulgilinu, nærri Hofsjökli. Það gerði rötunaræfingar með korti, símaforritum og áttavita mun raunverulegri og nauðsynlegar. Þá var kærkomið útsýnið í átt að Jökulsá og Kömbum þegar rofaði til. Gangan yfir Morsá og í Víðidal var sólrík og þaðan hafði hópurinn útsýni inn á austanverðan Vatnajökul. Kíkt var ofan í Tröllakróka á leið í Múlaskála og bæði Axarfellsjökull og Snæfell blöstu við. Í ferðinni skiptust nemendur á að leiða hópinn og velja hentuga gönguleið á degi hverjum.

Áfanginn endaði svo þann 7. september á frágangi búnaðar og stuttri æfingu í þverun straumvatns í Laxá í Nesjum.

 

Aðrar fréttir

Lokamat framundan

Lokamat framundan

Þessa dagana eru nemendur á fullu að leggja lokahönd á verkefni annarinnar en síðasti kennsludagur er fimmtudagurinn 7. desember. Strax á föstudag hefst síðan lokamat þar sem hver nemandi og kennari hittast og fara yfir það sem hefur áunnist á síðustu mánuðum. Lokamat...

Fyrsta hjálp í fjallamennskunáminu

Fyrsta hjálp í fjallamennskunáminu

Kennsla í fyrstu hjálpar áfanga var haldin á Höfn helgina 17. - 20. nóvember. Það voru fjórir dagar af verklegri kennslu, umræðum, æfingum, fyrirlestrum og fleiru sem nýst getur verðandi leiðsögumönnum í fjallamennskunámi FAS. Meðal áhersluatriða voru slys, ofkæling,...

Nýheimar fá jólaupplyftingu

Nýheimar fá jólaupplyftingu

Nú er að ganga í hönd sá tími ársins þegar dagar eru hvað stystir og myrkur sem mest. Því er upplagt að finna til það sem kætir og léttir lund. Öll getum við verið sammála um það að litlu ljósin marglitu og skær geti verið gleðiauki. Á efri hæðinni í Nýheimum var...