Í morgun hófust svokallaðir vísindadagar í FAS en þá eru námsbækurnar lagðar til hliðar það sem eftir er vikunnar og nemendur fást við annars konar verkefni. Þeir kynnast um leið vísindalegum vinnubrögðum þar sem þarf að afla gagna, vinna úr upplýsingum og setja fram gögn á skýran og skilmerkilegan máta.
Að þessu sinni eru fjórir hópar starfandi og eru þeir allir að skoða nærumhverfið. Einn hópur er að skoða atvinnuhætti í sveitarfélaginu, annar hópur er að skoða hvernig menning hefur þróast, þriðji hópurinn skoðar munnmælasögur tengdar sveitarfélaginu og fjórði og síðasti hópurinn er að skoða þau hús á Höfn sem bæði hafa götuheiti og einnig sérheiti. Heimildir eru bæði munnlegar og ritaðar og það er gaman að geta nýtt sér fróðleik eldri Hornfirðinga í vinnu sem þessari. Á meðfylgjandi mynd eru Guðný Svararsdóttir og Kristbjörg Guðmundsdóttir að aðstoða nemendur við að finna sérnöfn á húsum á Höfn.
Í dag og á morgun felst vinnan í því að afla upplýsinga og eins að ákveða framsetningu gagnanna. Á föstudag munu hóparnir síðan kynna vinnuna sína og verður sú kynning á Nýtorgi og hefst klukkan 12. Þar er foreldrum og eldri borgurum sérstaklega boðið og verður boðið upp á súpu og brauð. Við vonumst til að sjá sem flesta.
Það voru aldeilis góðir gestir sem komu í dag til okkar í FAS. Það voru aðilar á vegum Geðlestarinnar en Geðlestin er geðfræðsla fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla sem byggir á þeirri staðreynd að við búum öll við geð rétt eins og við erum með hjarta. Á lífsleiðinni er mjög líklegt að við lendum í mótvindi og þurfum jafnvel að leita okkur aðstoðar. Öflug geðrækt frá unga aldri út lífið er besta ráðið til að takast á við þær áskoranir sem lífið færir okkur. Geðlestin er samstarfsverkefni Geðhjálpar og Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er verkefnið er styrkt af félagsmála- og heilbrigðisráðuneytunum.
Það var víða komið við í fræðslunni í dag. Gestirnir deildu reynslu sinni og hvaða leið þeir fóru til að takast á við lífið þegar á móti blæs. Og það eru svo sannarlega til leiðir til að takast á við vandamál. En það þurfa ekki heldur að vera vandamál til staðar, við þurfum alltaf að rækta geðheilsuna til að okkur líði sem best.
Með Geðlestinni í dag var rapparinn Flóni og tók hann nokkur lög við góðar undirtektir. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og viljum benda öllum á að muna eftir að rækta bæði sál og líkama.
Fyrir nokkrum árum skiptust íbúar Nýheima á að sjá um sameiginlega kaffitíma fyrir húsið. Þetta var gert til að allir þeir fjölmörgu sem í húsinu starfa hefðu færi á að hittast og spjalla yfir kaffibolla og maula á góðgæti. Vegna Covid lögðust þessi sameiginlegu kaffitímar af en það hefur þó alltaf af og til rætt um að það endurvekja þá.
Í morgun var svo komið að fyrsta sameiginlega kaffinu og var það starfsfólk FAS sem sá um að koma með meðlæti. Það er skemmst frá því að segja að íbúar hússins tóku tilbreytingunni vel og fjölmenntu á Nýtorg í löngu frímínútunum. Veitingarnar runnu ljúflega niður og íbúar hússins spjölluðu um daginn og veginn.
Við erum strax farin að hlakka til næsta sameiginlega kaffitíma.
Áfanginn jöklaferðir var kenndur í tveimur hópum í lok september og byrjun október. Markmið áfangans er að kynna nemendur fyrir skriðjöklum og kveikja áhuga þeirra á ferðalögum á þeim. Nemendur lærðu að byggja akkeri í ís, síga og júmma og búa til hífingu. Að þessu sinni heimsóttum við Svínafellsjökul, Virkisjökul, Falljökul og Kvíárjökul. Veðrið var með eindæmum gott að frátöldum síðasta degi fyrra námskeiðs þar sem óveður geisaði á öllu landinu og hættum við því degi fyrr.
Við erum hæst ánægð með frammistöðu nemendahópsins og vonum að þau haldi áfram að auka þekkingu sína á skriðjöklum og ferðalögum á þeim.
Árni Stefán, Elín Lóa og Íris Ragnarsdóttir
Á síðasta ári safnaði NemFAS fyrir nýju billjardborði sem er staðsett í miðrými skólans á efri hæð þar sem nemendur hafa aðstöðu. Þetta borð ásamt fótboltaspili er mikið notað sem er frábært.
Vegna mikillar notkunar voru billjardkjuðarnir orðnir lúnir og til lítils gagns. Einn nemandi úr nemendaráði FAS hafði samband við Rafhorn og bað um styrk til kaupa á nýjum kjuðum. Erindinu var vel tekið og í vikunni komu nýir kjuðar í hús nemendum til mikillar gleði.
Við þökkum Rafhorni kærlega fyrir stuðninginn.
Vikan sem rann sitt skeið var tileinkuð íþróttum bæði á Íslandi og í Evrópu. Það var fjölbreytt dagskrá í FAS í vikunni af þessu tilefni og voru bæði nemendur og kennarar sem tóku þátt.
Vikan hófst með að skólinn ákvað að bjóða nemendum og starfsfólki FAS upp á frían hafragraut í morgunpásunni og var því vel tekið. Í hádegishléum var keppt í fótboltaspili og hafa bæði nemendur og kennarar átt lið. Á miðvikudagskvöldið var „snjóboltastríð“ í íþróttahúsinu þar sem bæði nemendur og kennarar sýndu snilli sína.
Á fimmtudagsmorgun var Viðar Halldórsson félagsfræðingur með fyrirlestur um hvernig félagsleg samskipti hafa áhrif á líðan og árangur. Í kjölfarið á fyrirlestri Viðars var blásið til badmintonsmóts í íþróttahúsinu sem gekk ljómandi vel.
Íþróttavikunni lauk síðan eftir kennslu á föstudag þar sem keppt var til úrslita í fótboltaspilinu. Þar urðu sigurvegarar þær Amylee og Selma Ýr og fengu að launum viðurkenningarskjal og kökubita frá Agnesi.
Þetta var skemmtileg vika og gefandi vika.