Í morgun hófust svokallaðir vísindadagar í FAS en þá eru námsbækurnar lagðar til hliðar það sem eftir er vikunnar og nemendur fást við annars konar verkefni. Þeir kynnast um leið vísindalegum vinnubrögðum þar sem þarf að afla gagna, vinna úr upplýsingum og setja fram gögn á skýran og skilmerkilegan máta.
Að þessu sinni eru fjórir hópar starfandi og eru þeir allir að skoða nærumhverfið. Einn hópur er að skoða atvinnuhætti í sveitarfélaginu, annar hópur er að skoða hvernig menning hefur þróast, þriðji hópurinn skoðar munnmælasögur tengdar sveitarfélaginu og fjórði og síðasti hópurinn er að skoða þau hús á Höfn sem bæði hafa götuheiti og einnig sérheiti. Heimildir eru bæði munnlegar og ritaðar og það er gaman að geta nýtt sér fróðleik eldri Hornfirðinga í vinnu sem þessari. Á meðfylgjandi mynd eru Guðný Svararsdóttir og Kristbjörg Guðmundsdóttir að aðstoða nemendur við að finna sérnöfn á húsum á Höfn.
Í dag og á morgun felst vinnan í því að afla upplýsinga og eins að ákveða framsetningu gagnanna. Á föstudag munu hóparnir síðan kynna vinnuna sína og verður sú kynning á Nýtorgi og hefst klukkan 12. Þar er foreldrum og eldri borgurum sérstaklega boðið og verður boðið upp á súpu og brauð. Við vonumst til að sjá sem flesta.