Heildstæð námskrá í ferðaþjónustu

Í janúar á síðasta ári fékk FAS það verkefni að móta og skrifa heildstæða námskrá í ferðaþjónustu. Þetta verkefni var unnið náið með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Um er að ræða nám með námslokum á öðru þrepi, þriðja þrepi og stúdentsprófi. Í hverjum námslokum er sameiginlegur kjarni og sérhæfing. Sérhæfingarnar á öðru þrepi eru móttaka, veitingar og fjallamennska. Á þriðja þrepi og í stúdentsprófinu er sérhæfingin fjallamennska. Námið er skipulagt þannig að hægt verði að bæta við sérhæfingu á fleiri sviðum.

Námskráin var send í morgun, 4. febrúar inn til Menntamálastofnunar til samþykktar og vonir standa til að hægt verði að kenna samkvæmt námskránni strax á næsta skólaári. Af þessu tilefni var boðið upp á góðgjörðir á kennarastofunni í morgun.

Umhverfisvika í FAS og Nýheimum

Næsta vika, 7. – 11 febrúar verður helguð umhverfinu í Nýheimum. Á hverjum degi verður eitthvað gert til minna okkur á og benda á mikilvægi þess að við umgöngumst umhverfið af virðingu og með velferð þess í huga.

Á mánudag verður bíllaus dagur og eru allir hvattir til að mæta gangandi eða hjólandi í Nýheima. Allir íbúar hússins þurfa að skrá og segja frá því hvernig þeir koma í húsið þennan dag.

Á þriðjudag verður fulltrúi frá Íslenska gámafélaginu með um hálftíma fyrirlestur um sorp, flokkun og stöðuna í Nýheimum. Eftir fyrirlesturinn sem verður á Teams verða umræður.

Á miðvikudag er svo komið að næringunni. Þann dag eru allir hvattir til borða í veitingasölunni eða taka með sér nesti. Þeir sem versla í Nettó og aðrir sem koma með matvælaumbúðir verða að taka þær með sér heim. Óskað verður eftir upplýsingum um neysluvenjur og þær skráðar niður.

Á fimmtudag er ætlunin að reikna út kostnað við mismunandi samgöngumáta í ferðalögum til og frá skóla. Þá á einnig að reikna út mismunandi kostnað varðandi mat og næringu eftir því hvort það er borðað í veitingasölunni, tekið með nesti eða farið í Nettó. Þá er líka ætlunin að finna heppilegar fjölnota umbúðir sem nýtast bæði í ferðalögum á vegum skólans og ekki síður fyrir þá sem velja að taka með sér nesti.

Föstudagurinn 11. febrúar er síðasti dagur umhverfisvikunnar og þá er ætlunin að búa til veggspjöld sem fjalla um umhverfismál og minna okkur á mikilvægi þess að við temjum okkur lífsmáta sem skilur eftir sig sem minnst vistspor.

Að sjálfsögðu hvetjum við alla til að taka þátt í umhverfisvikunni og leggja sitt af mörkum. Það er bæði okkar hagur og umhverfisisns.

 

 

Húsfundur um umhverfismál

Í dag var haldinn fundur þar sem umhverfismál sem varða íbúa Nýheima voru í brennidepli. Annars vegar var verið að fjalla um rusl og flokkun á því en á stórum vinnustað eins og í Nýheimum fellur til mikið af einnota matarumbúðum á degi hverjum. Það er brýnt að finna leiðir til að fækka slíkum umbúðum og eins að sem mest af úrgangi sé flokkaður rétt og sem mest fari í endurvinnslu. Hins vegar var verið að ræða samgöngur til og frá vinnustað og hvernig sé hægt að stuðla að umhverfisvænum ferðamáta. Bæði umfjöllunarefnin tengjast líka Grænum skrefum en FAS er að sjálfsögðu þátttakandi þar og fékk staðfestingu á því fyrir jól að hafa uppfyllt öll fimm skrefin sem ætlast er til að ríkisstofnanir geri.

Fundurinn var rafrænn og var þátttakendum skipt í minni hópa til að umræðan yrði sem markvissust og allir fengju tækifæri til að láta sínar skoðanir í ljós. Fundarstjórar og ritarar komu úr nemendahópnum. Í lokin var svo stutt kynning á því hvað hafði verði rætt í hópunum.

Niðurstöður fundarins verða svo notaðar til að ná sem mestum úrbætum í umhverfismálum bæði innan Nýheima og utan. Í annarri viku febrúar verður niðurstaðan af fundinum nýtt í umhverfisviku og er það liður í umhverfisstjórnunarkerfi skólans. Þá er vert að nefna að annan febrúar hefst Lífshlaupið þar sem fólk er hvatt til að stunda reglulega hreyfingu.

Síðast en ekki síst er brýnt að ræða umhverfismál reglulega og mikilvægi þess að umgangast jörðina eins skynsamlega og hægt er.

Þorramatur á bóndadegi

Í dag er bóndadagur en það er fyrsti dagurinn í Þorra sem er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Bóndadagur er alltaf í 13. viku vetrar og ber ætíð upp á föstudag og eins og nafnið ber með sér er dagurinn helgaður körlum landsins á öllum aldri. Í gegnum tíðina hafa skapast ýmis konar hefðir tengdar bóndadegi og ein þeirra er  að borða þjóðlegan íslenskan mat sem var algengur á borðum landsmanna í gegnum aldirnar.

Af þessu tilefni bauð FAS nemendum sínum og starfsfólki í þorramat í hádeginu og þar mátti svo sannarlega sjá ýmislegt sem æ sjaldnar sést á borðum margra landsmanna en er engu að síður ljómandi góður matur. Matnum voru gerð góð skil og allir gengu saddir og sælir frá borði.

Uppsetning á Silfurtúnglinu

FAS ætlar í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar að setja upp leikverkið Silfurtúnglið eftir Halldór Laxness á þessari önn. Mánudaginn 17. janúar boðar leikfélagið til kynningarfundar í Hlöðunni sem er á Fiskhól 5. Þar ætlar leikstjórinn Stefán Sturla að fara yfir uppsetninguna.

Við hvetjum alla sem hafa áhuga á leiklist til að mæta. Fundurinn hefst klukkan 20 og við minnum á að það er grímuskylda á fundinum og hvetjum alla til að gæta sóttvarna.

FAS keppir í Gettu betur á fimmtudag

Enn og aftur er spurningkeppnin Gettu betur farin af stað og að sjálfsögðu tekur FAS þátt. Í ár taka 29 skólar þátt í keppninni. Þegar lið voru dregin saman kom í ljós að mótherji FAS í fyrstu umferð er MH.

Lið FAS skipa þau Anna Lára Grétarsdóttir, Selma Ýr Ívarsdóttir og Sævar Rafn Gunnlaugsson. Til vara eru Almar Páll Lárusson, Aníta Aðalsteinsdóttir og Stígur Aðalsteinsson. Það er fyrrum keppandi í Gettu betur fyrir FAS sem þjálfar liðið en við erum auðvitað að tala um Sigurð Óskar Jónsson.

Viðureign FAS og MH verður fimmtudaginn 13. janúar. Hægt er að fylgjast með viðureigninni í beinu hljóðstreymi frá RÚV á þessari slóð og hefst viðureignin um 19:40. Að þessu sinni eru engir áhorfendur leyfðir og það er auðvitað vegna COVID.

Við óskum okkar fólki góðs gengis og hvetjum alla til að hlusta á viðureignina.