Í dag var komið að sameiginlegu kaffi íbúa Nýheima á Nýtorgi. Það voru íbúar á Vesturgangi sem sáu um veitingar að þessu sinni og þær voru ekki af verri endanum.
Það er bæði gaman og gagnlegt fyrir íbúa hússins að hittast og skrafa yfir kaffibolla og kræsingum. Bæði til að sjá hversu stór vinnustaðurinn er og ekki síður að kynnast nýju fólki og hvað það er að gera. Við erum strax farin að hlakka til næsta hittings.
Í dag kom til okkar Margrét H. Blöndal myndlistarkennari og listamaður. Hún er hingað komin til að vera með námskeið í listsköpun fyrir nemendur í grunnskólanum en það fékkst styrkur úr Barnamenningarsjóði til að kosta ferð hennar hingað. Að auki á Margrét verk á sýningunni – Tilraun æðarrækt – sjálfbært samfélag sem er í Svavarssafni og kemur hún að tveimur verkum á sýningunni. Annars vegar á hún hljóðverk í Gömlubúð og hins vegar er hægt að sjá myndir í sundlauginni á Höfn sem börn í Landakotsskóla gerðu undir hennar handleiðslu.
Margét byrjaði á því að segja frá bakgrunni sínum og hvað gerði hana að þeim listamanni sem hún er í dag. Hún er mest að mála og gera skúlptúra og sækir efnivið víða, jafnvel í eitthvað sem öðrum finnst drasl. Henni finnst best að vinna ein við listsköpun sína. Hún sagði okkur líka frá því að henni hefði boðist að sýna á Listasafni Íslands. Hún fékk leyfi til að breyta sýningarrýminu til að það myndi henta hennar hugmyndum sem best en hún vinnur gjarnan með innsetningu þar sem rýmið er hluti af sýningunni og verkin ná að tala hvert við annað.
Nemendum var gefinn kostur á að spyrja og nokkrir nýttu sér það. Meðal annars var spurt hvenær listamaður viti að verk hans er tilbúið og hvernig hægt sé að komast í Listaháskólann.
Við þökkum Margréti kærlega fyrir komuna og að miðla af reynslu sinni.
Að loknum fundahöldum síðasta föstudag hjá kennurum í FAS var farið á Svavarssafn til að skoða sýninguna um æðarrækt á Íslandi. Snæbjörn Brynjarsson safnvörður tók á móti hópnum og sagði frá tildrögum þess að sýningin er hingað komin. Sýningin var opnuð um miðjan september og tengjast nokkur verk hennar út fyrir safnið. Þau er m.a. að finna í Nýheimum, Nettó og Gömlubúð.
Það var mjög gaman að sjá þessa sýningu og það var enn skemmtilegra að sjá hvað heimurinn er oft lítill. Tveir listamannanna sem eiga verk á sýningunni eiga tengingar til okkar á suðausturhorninu. Signý Jónsdóttir er nemandi í fjallamennskunáminu í FAS. Hún hefur lært hönnun og líka komið að æðarrækt austur á fjörðum. Hún hannaði kápu til að safna æðardún, hanska til að tína dún og höfðufat í kórónulíki sem er líka hentugt til að fæla burtu kríur en oft verpa kríur og æðarfugl á sama svæði. Hanna Jónsdóttir sem á ættir að rekja í Suðursveit hannaði blómavasa sem eru á sýningunni. Vasarnir eru eftirlíking af æðarfugli sem styngur sér eftir æti.
Þá komumst við að því að sýninging sem er farandsýning fer næst til eyjarinnar Vega í Noregi. Eyjan er á Heimsminjaskrá UNESCO. Fyrir rúmlega mánuði var hópur nemenda í FAS í heimsókn í Brønnøysund í Noregi og fór til Vega, gisti þar og vann að verkefnum. Meðal þess sem hópurinn kynntist á Vega er nýting æðardúns á svæðinu.
Það er sannarlega gott að líta upp úr amstri hversdagsins og kynnast einhverju nýju og sú var raunin á Svavarssafni síðasta föstudag. Við hvetjum alla til að skoða þessa skemmtilegu sýningu – hvort sem er á Svavarsafni eða öðrum stöðum þar sem hluta sýningarinnar er að finna. Og kærar þakkir fyrir góðar móttökur.
Föstudaginn 4. nóvember breyttist FAS í draugahús um stund. Það voru nemendur í FAS sem gerðu þar í samstarfi við Þrykkjuráð. Tilgangurinn var að leyfa nemendum í Heppuskóla og FAS að koma og hræðast ógnarlegar furðuverur sem voru á kreiki. Krökkunum var skipt í hópa og hver hópur var leiddur í gegnum „hryllingshúsið“ ógnarlega.
Viðburðurinn var vel sóttur og allir skemmtu sér vel þó einhverjir viðurkenndu að þeir væru hálfsmeykir. Í lokin gæddu allir sér á pizzu og fóru saddir og sælir heim.
Það er ánægjulegt að sjá þetta samstarf hjá FAS og Þrykkjunni og hversu vel það tókst.
Í dag var komið að árlegri ferð að Heinabergsjökli og eru það nemendur í Inngangsáfanga að náttúruvísindum sem fara í þessa ferð. Þegar var farið í sambærilega ferð fyrir ári síðan var orðið ljóst að miklar breytingar höfðu orðið á jökulsporðinum á Heinabergsjökli og fremsti hlutinn sem eitt sinn var hluti af jöklinum er nú stærðarinnar jaki sem er þakinn seti. Það er því ekki hægt að mæla stöðu jökulsins eins og gert var um árabil en þess í stað er áhersla á að fræða nemendur um landmótun jökla og hvernig hægt sé að rýna í landslag og sjá þær breytingar sem hafa orðið eða „lesa í landslagið“ eins og við segjum stundum.
Það voru tíu nemendur sem fóru í ferðina í dag. Auk kennara var Snævarr frá Náttúrustofunni með í ferðinni en hann er allra manna fróðastur um jökla hér um slóðir og frábært að hann skuli gefa sér tíma til að miðla af þekkingu sinni.
Veðrið skartaði sínu fegursta, hiti var rétt yfir frostmarki, logn og heiðríkja. Líkt og undanfarin ár hefur verið gengið frá brúnni þar sem Heinabergsvötn áður runnu og þaðan yfir jökulöldurnar að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Gönguferðin endar svo á bílastæðinu við Heinabergsjökul. Á leiðinni er oft staldrað við og ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði skoðuð. Inni við Heinabergslón var notaður fjarlægðarkíkir til að sjá hversu langt er í stóra jakann sem var áður hluti af jöklinum.
Ferðin okkar í dag var ljómandi góð. Það nærir bæði líkama og sál að njóta útiveru og ekki spillti veðrið fyrir. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.
Í allmörg ár hafa svokallaðir vísindadagar verið haldnir í FAS þar sem nemendur leggjast í ýmis konar rannsóknarstörf. Undanfarin ár hefur nærsamfélagið verið skoðað annað hvert ár og hitt árið hefur verið farið í heimsókn í nærliggjandi sveitarfélög og verkefni unnin þar.
Að þessu sinni vorum við að skoða nærsamfélagið og voru vinnuhóparnir fjórir. Einn hópur var að skoða atvinnuhætti í sveitarfélaginu, annar hópur skoðaði hvernig menning svæðisins hefur þróast, þriðji hópurinn skoðaði munnmælasögur tengdar sveitarfélaginu og fjórði hópurinn var að skoða þau hús á Höfn sem bæði hafa götuheiti og sérheiti. Í upphafi var ákveðið að nýta bæði ritaðar heimildir og eins að leita til íbúa og afla upplýsinga hjá þeim.
Afrakstur vísindadaga var kynntur í hádeginu í dag og var foreldrum nemenda okkar og eldri Hornfirðingum sérstaklega boðið. Hún Hafdís okkar hafði eldað dýrindis súpu sem nemendur og gestir snæddu á meðan kynningarnar stóðu yfir. Að kynningum loknum gafst gestum síðan tækifæri á að fara í stofur og kynna sér vinnu nemenda nánar.
Það verður að segjast eins og er að við erum í skýjunum eftir daginn. Húsið iðaði af mannlífi og greinilegt var að fólk hafði gaman að því að koma og sjá hvað unga fólkið okkar er að gera. Það var heldur ekki verra að margir voru tilbúnir að bæta við upplýsingum til að gera góða vinnu enn betri.
Á næstunni munum við yfirfara og eftir þörfum betrumbæta þau gögn sem söfnuðust á vísindadögum. Þegar það hefur verið gert munu verkefni nemenda verða birt á http://stadur.is/ en það er vefur sem ætlaður er fyrir staðfræðiupplýsingar og þar eru mörg nemendaverkefni birt.
Takk öll – það var gaman í Nýheimum í dag.