Föstudaginn 4. nóvember breyttist FAS í draugahús um stund. Það voru nemendur í FAS sem gerðu þar í samstarfi við Þrykkjuráð. Tilgangurinn var að leyfa nemendum í Heppuskóla og FAS að koma og hræðast ógnarlegar furðuverur sem voru á kreiki. Krökkunum var skipt í hópa og hver hópur var leiddur í gegnum „hryllingshúsið“ ógnarlega.
Viðburðurinn var vel sóttur og allir skemmtu sér vel þó einhverjir viðurkenndu að þeir væru hálfsmeykir. Í lokin gæddu allir sér á pizzu og fóru saddir og sælir heim.
Það er ánægjulegt að sjá þetta samstarf hjá FAS og Þrykkjunni og hversu vel það tókst.