Í dag var komið að árlegri ferð að Heinabergsjökli og eru það nemendur í Inngangsáfanga að náttúruvísindum sem fara í þessa ferð. Þegar var farið í sambærilega ferð fyrir ári síðan var orðið ljóst að miklar breytingar höfðu orðið á jökulsporðinum á Heinabergsjökli og fremsti hlutinn sem eitt sinn var hluti af jöklinum er nú stærðarinnar jaki sem er þakinn seti. Það er því ekki hægt að mæla stöðu jökulsins eins og gert var um árabil en þess í stað er áhersla á að fræða nemendur um landmótun jökla og hvernig hægt sé að rýna í landslag og sjá þær breytingar sem hafa orðið eða „lesa í landslagið“ eins og við segjum stundum.
Það voru tíu nemendur sem fóru í ferðina í dag. Auk kennara var Snævarr frá Náttúrustofunni með í ferðinni en hann er allra manna fróðastur um jökla hér um slóðir og frábært að hann skuli gefa sér tíma til að miðla af þekkingu sinni.
Veðrið skartaði sínu fegursta, hiti var rétt yfir frostmarki, logn og heiðríkja. Líkt og undanfarin ár hefur verið gengið frá brúnni þar sem Heinabergsvötn áður runnu og þaðan yfir jökulöldurnar að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Gönguferðin endar svo á bílastæðinu við Heinabergsjökul. Á leiðinni er oft staldrað við og ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði skoðuð. Inni við Heinabergslón var notaður fjarlægðarkíkir til að sjá hversu langt er í stóra jakann sem var áður hluti af jöklinum.
Ferðin okkar í dag var ljómandi góð. Það nærir bæði líkama og sál að njóta útiveru og ekki spillti veðrið fyrir. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.