Að loknum fundahöldum síðasta föstudag hjá kennurum í FAS var farið á Svavarssafn til að skoða sýninguna um æðarrækt á Íslandi. Snæbjörn Brynjarsson safnvörður tók á móti hópnum og sagði frá tildrögum þess að sýningin er hingað komin. Sýningin var opnuð um miðjan september og tengjast nokkur verk hennar út fyrir safnið. Þau er m.a. að finna í Nýheimum, Nettó og Gömlubúð.
Það var mjög gaman að sjá þessa sýningu og það var enn skemmtilegra að sjá hvað heimurinn er oft lítill. Tveir listamannanna sem eiga verk á sýningunni eiga tengingar til okkar á suðausturhorninu. Signý Jónsdóttir er nemandi í fjallamennskunáminu í FAS. Hún hefur lært hönnun og líka komið að æðarrækt austur á fjörðum. Hún hannaði kápu til að safna æðardún, hanska til að tína dún og höfðufat í kórónulíki sem er líka hentugt til að fæla burtu kríur en oft verpa kríur og æðarfugl á sama svæði. Hanna Jónsdóttir sem á ættir að rekja í Suðursveit hannaði blómavasa sem eru á sýningunni. Vasarnir eru eftirlíking af æðarfugli sem styngur sér eftir æti.
Þá komumst við að því að sýninging sem er farandsýning fer næst til eyjarinnar Vega í Noregi. Eyjan er á Heimsminjaskrá UNESCO. Fyrir rúmlega mánuði var hópur nemenda í FAS í heimsókn í Brønnøysund í Noregi og fór til Vega, gisti þar og vann að verkefnum. Meðal þess sem hópurinn kynntist á Vega er nýting æðardúns á svæðinu.
Það er sannarlega gott að líta upp úr amstri hversdagsins og kynnast einhverju nýju og sú var raunin á Svavarssafni síðasta föstudag. Við hvetjum alla til að skoða þessa skemmtilegu sýningu – hvort sem er á Svavarsafni eða öðrum stöðum þar sem hluta sýningarinnar er að finna. Og kærar þakkir fyrir góðar móttökur.