Hvert örstutt spor

Í tilefni af 60 ára afmæli Leikfélags Hornafjarðar er nú verið að æfa nýtt íslenskt leikrit sem ber nafnið „Hvert örstutt spor“. Stefán Sturla skrifaði handritið sem byggir á leikritinu „Silfurtunglið“ eftir Halldór Laxness. Áætluð frumsýning er þann 18. mars. Að uppsetningunni standa Leikfélag Hornafjarðar og sviðslistanemar FAS.

Æfingar hófust í janúar við afar erfiðar aðstæður í kaffiteríu Nýheima, Nýtorgi. Nú eru hins vegar æfingar hafnar í Mánagarði og er öll tæknivinna, leikmyndasmíði og önnur undirbúningsvinna unnin jöfnum höndum í menningarhluta Mánagarðs. Vonandi verður hugað sem fyrst að framtíðarhúsnæði fyrir menningu í sveitarfélaginu til lengri tíma.

Verkið fjallar um unga fólkið sem dreymir um frægð og frama og er tilbúið að leggja á sig „hvað sem er“ til að ná þeim árangri. Leikritið gerist í nútímanum og er með söngvum og dassi af samfélagsrýni, Twitter- og Instagram færslum og skemmtilegum hversdagsuppákomum.

Listrænir stjórnendur eru Stefán Sturla leikstjóri og höfundur, Heiðar Sigurðsson tónlistarstjóri, Lind Draumland búningar og grímur, Skrýmir Árnason kvikmyndaverkefni, Hólmfríður Bryndís Þrúðmarsdóttir dans, Tim Junge hönnun, Þorsteinn Sigurbergsson ljósahönnun og Birna J. Magnúsdóttir förðun.

Járninganámskeið í hestamennskunámi FAS

Skagfirðingurinn og járningameistarinn Stefán Steinþórsson kom til Hafnar síðastliðinn fimmtudag og hélt járninganámskeið fyrir nemendur FAS í hestamennsku. Stefán hefur um árabil búið í Noregi og járnað hesta um alla Skandinavíu. Hann er járningakennari við hestamennskunám Háskólans á Hólum í Hjaltadal.

Seinnipart fimmtudagsins hélt Stefán fyrirlestur í Nýheimum um heilbrigði hófa, járningu og áhrif fóðurs á hófa. Þá fór hann jafnframt yfir hversu mikilvægt sé að járna hesta reglulega til að styrkja jafnvægi hestsins, og forðast vöðva og sinabólgur. Á föstudeginum var síðan verkleg kennsla í reiðhöll hestamannafélagsins Hornfirðings þar sem nemendur lærðu rétt handtök við járningu hesta sinna. Um helgina var síðan járninganámskeið fyrir félagsfólk Hornfirðings en FAS og hestamannafélagið hefur verið í samstarfi í vetur vegna þessa nýja náms framhaldsskólans.

FAS minnir á að í vor verður tekið við skráningu nýnema og nema í framhaldsnám í hestamennsku fyrir næsta skólaár.

[modula id=“13899″]

Að lokinni umhverfisviku

Eins og við höfum áður sagt frá var síðasta vika helguð umhverfismálum í Nýheimum. Við skoðuðum matar- og ferðavenjur íbúanna, reiknuðum út kostnað og veltum líka fyrir okkur hvað væri best fyrir umhverfið. Sorpið var skoðað sérstaklega þessa vikuna og það flokkað. Heildarmagn úrgangs í Nýheimum í síðustu viku var 34,3 kíló og um 10% þess fellur undir óflokkað. Þegar nánar er rýnt í tölurnar sést að töluvert af því sem fellur í lífrænan úrgang mætti flokka sem matarsóun. Þar þurfum við að taka okkur á.

Við fengum fínan fyrirlestur frá Íslenska Gámafélaginu um flokkun sorps og stöðuna á því í Nýheimum. Það var sérstaklega gaman að sjá og heyra fyrirspurnir þátttakenda.

Í lok umhverfisvikunnar unnu svo nemendur alls kyns veggspjöld og hvatningar til að minna okkur á mikilvægi þess að vanda okkur sem mest í okkar daglega lífi umhverfinu til heilla. Góð vísa er sannarlega aldrei of oft kveðin. Hér fyrir neðan má sjá nokkur af hugverkum nemenda í umhverfisviku.

[modula id=“13876″]

Slagorð og veggspjöld umhverfinu til heilla

Þessa vikuna höfum við í Nýheimum helgað umhverfinu athygli okkar. Það hefur verið fjallað um mikilvægi flokkunar, við höfum velt fyrir okkur ferðavenjum okkar og næringu og reiknað út kostnað.

Í dag var komið að því að draga saman það sem hefur verið skoðað. Nemendur hittust og útbjuggu slagorð og veggspjöld sem miða að því að vekja athygli og fá okkur til að hugsa. Á samfélagsmiðlum skólans má sjá afrakstur vinnunnar og hvetjum við alla til að vera virkir í umhverfismálum.

Ísklifur í fjallamennskunáminu

Fjallamennskuárið 2022 er hafið og það af fullum krafti. Dagana 28. – 31. janúar kenndum við Árni Stefán og Íris Ragnarsdóttir tíu nemendum á öðru ári ísfossaklifur. Áfanginn var að þessu sinni kenndur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins en erfitt reyndist að finna ísklifuraðstæður á landinu þessa vikuna sökum hlýinda. Allt fór þó á besta veg og við náðum að klifra á þremur mismunandi stöðum í Hvalfirði, í Múlafjalli, Brynjudal og við Meðalfellsvatn.

Ísfossaklifur er tækniíþrótt, góð tækni skiptir meira máli en líkamlegur styrkur. Við lögðum því mikla áherslu á að nemendur öðluðust góða klifurtækni, en það næst með því að klifra mikið og fá endurgjöf og ábendingar jafnóðum. Eins er mikilvægt að leggja mat á áhættur, gæði íssins og að þekkja sín mörk. Vegna aðstæðna klifruðum við að mestu í ofanvaði en það er mjög góð leið til að bæta ísklifurtæknina og öðlast traust á búnaðinum.

Það var ánægjulegt að hitta hópinn aftur eftir dimmustu mánuði ársins en nú taka skíða- og leiðangursáfangar við hjá þeim fram að útskrift í vor. Við óskum hópnum góðs gengis og vonumst til að sjá þau á fjöllum.

[modula id=“13855″]

Flokkum og spörum – allir græða

Eitt þeirra atriða sem við ætlum að skoða í umhverfisviku er hvað verður um ruslið sem við skiljum eftir okkur. Elín Ásgeirsdóttir umhverfisstjóri hjá Íslenska Gámafélaginu var í dag með fyrirlestur um sorp og flokkun. Hún kom inn á mikilvægi þess að allir kynni sér og tileinki hugtakið „hringrásarhagkerfi“ sem snýst um að nýta hlutina sem best. Flokkun og endurvinnsla er liður í hringrásarhagkerfinu en auk þess sparar hringrásarhagkerfið auðlindir, orku og dregur úr mengun.

Ýmsar auðlindir sem við erum að nýta eru takmarkaðar og því ber okkur skylda til að endurnýta þær sem mest. Þar má t.d. nefna ýmis konar málma sem ekki er mikið af á jörðinni. Það þarf líka minni orku þegar er verið að endurvinna efni heldur en þegar er verið að vinna það úr jörðu í fyrsta skipti. Á þann hátt er hægt að koma í veg fyrir mikla losun á koltvíoxíði sem er mjög mikilvægt.

Elín fór einnig yfir það hverjir helstu flokkar í endurvinnslu eru og hvernig efnið/umbúðirnar þurfa að vera áður en þær eru settar í endurvinnslu. Þá fór hún yfir ferlið allt frá því að við skilum umbúðum í grænu tunnuna og þangað til að efnið hefur verið endurunnið. Á sama hátt útskýrði hún ferlið fyrir lífræna úrganginn.

Staðan á flokkun hér í Nýheimum var skoðuð sérstaklega. Það er ánægjulegt að magn sorps í húsinu hefur minnkað en við þurfum að bæta flokkun og minnka þar með hlut þess sem fer í almennt sorp. Hún minnti á mikilvægi þess að allir verði meðvitaðir og virkir í flokkun til að bæta árangurinn enn frekar. Eftir fyrirlestur Elínar gafst þátttakendum kostur á að spyrja og nýttu margir sér það.

Við þökkum kærlega fyrir áhugaverðan fyrirlestur og nú þurfum við öll að sameinast um að standa okkur enn betur í flokkun.