Í morgun komu margir starfsmenn FAS niður á Nýtorg og drukku kaffibollann sinn þar. Það var þó ákveðið tilefni og það var að kveðja hana Dísu okkar sem hefur séð um veitingasöluna síðustu fimm árin.
Nú er komið að starfslokum hjá henni og vildum við sýna smá þakklætisvott sem Lind skólameistari afhenti. Við eigum örugglega eftir að sakna hennar og allra kræsinganna sem hún hefur töfrað fram. Við óskum henni alls hins besta um ókomin ár.
Í dag 8. desember er síðasti kennsludagur annarinnar í FAS og eru nemendur í óða önn að leggja lokahönd á síðustu verkefni annarinnar og skila námsmöppum.
Framundan er svo lokamat en þá hitta nemendur kennara sína til gera upp áfangann. Allir nemendur eiga að hafa fengið úthlutaðan tíma fyrir lokamatsviðtalið og er mikilvægt að nemendur mæti á réttum tíma og vel undirbúnir í lokamatið. Staðnemendur eiga að mæta í sína kennslustofu og fjarnemendur fá fundarboð á Teams. Til að forðast árekstra fylgja tímasetningar fyrir lokamat stundatöflu annarinnar. Lokamat í FAS stendur yfir frá 9. – 19. desember.
Við vonum að öllum gangi sem best á þessum síðustu dögum annarinnar.
Á þessu hausti stóð Vöruhúsið fyrir námskeiði sem kallast Fab Stelpur & Tækni. Markhópurinn voru stelpur á aldrinum 14-20 ára og var markmiðið að kynna tækninám sérstaklega fyrir stelpum og alla þá möguleika sem tækninám býður upp á,
Það voru sex stelpur sem allar eru nemendur í FAS sem kláruðu námskeiðið. Þær hönnuðu allar lampa þar sem þær lærðu m.a. lærðu að vinna með þrívíddargögn og prenta út í þrívíddarprentara, teikna í vektor teikniforritinu Inscape og skera út í laserskera. Þá fengu þær fræðslu um Arduino iðntölvur, lærðu um RGB LED borða og hvernig má stýra þeim með iðntölvu, lærðu að lóða og tengja Led borða við iðntölvu. Þá lærðu þær að setja upp Arduino IDE forritið og hvernig er hægt að breyta forriti til að geta sett upp mismunandi lýsingu á lampana og síðast en ekki síst hvernig hægt er að setja upp app fyrir snjallsíma til að geta stýrt lampanum í gegnum appið.
Fyrir utan þessa fræðslu fengu þátttakendur kynningar um kvenkyns fyrirmyndir í þessum geira, bæði íslenskar og erlendar. Í FAS fá þátttakendur einingar fyrir námskeiðið sem nýtist inn í námsferilinn. Vöruhúsið ætlar að vinna áfram að því að kynna tækninám fyrir stelpum og stefnir að námskeiði fyrir stelpur á grunnskólaaldri.
Á meðfylgjandi mynd má sjá stelpurnar okkar með lampana sína. En þær voru sammála um að námskeiðið hefði verið skemmtilegt og gagnlegt.

Í nóvember fór fram síðasti verklegi áfanginn hjá nemendum í fjallamennskunáminu. Nemendur voru í fjóra daga að æfa fyrstu hjálp þar sem tekið var á ýmsum þáttum hvað varðar slys og veikindi í óbyggðum. Mikil áhersla var á verklega kennslu en meðal námsþátta voru fyrstu viðbrögð við bráðum veikindum og slysum, móttaka þyrlu, teipa/vefja stoðkerfisáverka, hópslys og umræður um hvað við viljum hafa í fyrstu hjálpar töskunni.
Reynt var að hafa kennslustofuna sem mest úti en haustlægðirnar settu ákveðið strik í reikninginn.
PEAK, https://www.peakentrepreneurs.eu/ er verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og miðar að því að auka möguleika ungmenna í frumkvöðlastarfi til að skapa sér ný tækifæri á atvinnumarkaði í fjallahéruðum og fámennum byggðum. Ungir frumkvöðlar og fyrirtækjaeigendur hafa lagt verkefninu lið með því að greina frá vegferð sinni við hugmyndavinnu, undirbúning og rekstur fyrirtækja sinna á myndbandsformi. Þessi myndbönd verða fljótlega tilbúin til birtingar. Einnig er búið að vinna námsefni fyrir leiðbeinendur og kennara ungs fólks sem nýta má til að efla færni unga fólksins við að vinna að nýjum hugmyndum og kynnast leiðum til að koma hugmynd í framkvæmd eða afurð.
Nokkrir kennarar og leiðbeinendur í nærsamfélaginu, sem unnið hafa með ungum frumkvöðlum hafa lagt verkefninu lið með því að rýna námsefnispakkana. Fá þeir bestu þakkir fyrir því það mikilvægt fyrir PEAK verkefnið að fá mat þeirra á námsefninu.
Nú í nóvember var haldinn samstarfsfundur þátttökustofnananna sex í fjallabænum Metsovo í Grikklandi. Þátttakendur verkefnisins eru tækniháskólinn NTUA í Grikklandi, markaðs- og ráðgjafafyrirtækið MMS á Írlandi, framhaldsskólinn FAS á Íslandi, þróunarstofnunin GAL Meridaunia á Ítalíu, ráðgjafafyrirtækið CCL á Norður-Írlandi/Danmörku og háskólinn UHI í Skotlandi.
Vinnufundurinn var árangursríkur og voru þar m.a. lagðar línurnar fyrir síðustu mánuði verkefnisins, en því lýkur formlega í júní 2023.
Það er mikilvægt hafa gott yfirlit yfir nám sitt og hvaða áfanga á að taka hverju sinni. Nemendur í FAS eiga nú allir að vera búnir að staðfesta val sitt fyrir næstu önn í Innu.
Það eru alltaf einhverjir sem vilja hefja aftur nám eða bæta við sig. Við viljum vekja athygli á því að nú er opið fyrir skráningar í nám í FAS á næstu önn. Hér er yfirlit yfir námsframboð skólans. Og hér er hægt að lesa kennsluáætlanir fyrir þá áfanga sem eru í boði. Langflestir áfangar sem eru í boði í hefðbundu námi er einnig hægt að taka í fjarnámi. Hægt er að sækja um nám hér.
Það er best að skrá sig sem fyrst en það er opið fyrir skráningar til 10. janúar.