PEAK, https://www.peakentrepreneurs.eu/ er verkefni sem styrkt er af Erasmus+ og miðar að því að auka möguleika ungmenna í frumkvöðlastarfi til að skapa sér ný tækifæri á atvinnumarkaði í fjallahéruðum og fámennum byggðum. Ungir frumkvöðlar og fyrirtækjaeigendur hafa lagt verkefninu lið með því að greina frá vegferð sinni við hugmyndavinnu, undirbúning og rekstur fyrirtækja sinna á myndbandsformi. Þessi myndbönd verða fljótlega tilbúin til birtingar. Einnig er búið að vinna námsefni fyrir leiðbeinendur og kennara ungs fólks sem nýta má til að efla færni unga fólksins við að vinna að nýjum hugmyndum og kynnast leiðum til að koma hugmynd í framkvæmd eða afurð.
Nokkrir kennarar og leiðbeinendur í nærsamfélaginu, sem unnið hafa með ungum frumkvöðlum hafa lagt verkefninu lið með því að rýna námsefnispakkana. Fá þeir bestu þakkir fyrir því það mikilvægt fyrir PEAK verkefnið að fá mat þeirra á námsefninu.
Nú í nóvember var haldinn samstarfsfundur þátttökustofnananna sex í fjallabænum Metsovo í Grikklandi. Þátttakendur verkefnisins eru tækniháskólinn NTUA í Grikklandi, markaðs- og ráðgjafafyrirtækið MMS á Írlandi, framhaldsskólinn FAS á Íslandi, þróunarstofnunin GAL Meridaunia á Ítalíu, ráðgjafafyrirtækið CCL á Norður-Írlandi/Danmörku og háskólinn UHI í Skotlandi.
Vinnufundurinn var árangursríkur og voru þar m.a. lagðar línurnar fyrir síðustu mánuði verkefnisins, en því lýkur formlega í júní 2023.