Sam Rees er einn þeirra listamanna sem á verk á yfirstandandi sýningu Svavarssafns; Tilraun Æðarrækt, Sjálfbært samlífi. Sam Rees vinnur með gervigreind og nýtir hann þá tækni til listsköpunar. Verk hans hafa verið til sýnis í Miðbæ frá því að sýningin opnaði síðasta haust.
Nú er Sam Rees hingað kominn aftur og nú í samvinnu við Svavarssafn til að halda listasmiðju með nemendum á lista- og menningarsviði FAS. Síðustu daga hefur hann verið með námskeið fyrir krakkana og hafa þau svo sannarlega lært margt nýtt. Það spillir ekki fyrir að krökkunum sem tóku þátt fannst það bæði lærdómsríkt og skemmtilegt að taka þátt.
Í dag var komið að því að kynna afraksturinn af vinnu nemenda. Sam Rees ætlar að skipta út sínum verkum fyrir verk nemenda FAS og mun þau standa uppi nú um helgina. Þemað í vinnu nemenda var framtíðarsýn fyrir Hornafjörð. Verkefnin eru stórskemmtileg og við hvetjum alla til að gefa sér tíma til þess að stilla sér upp fyrir framan sjónvarpsskjáinn í Miðbæ og fikta í tökkunum á stóra kassanum.
Í dag var komið að fyrstu fuglatalningu ársins í umhverfis- og auðlindafræðinni. Að venju var farið í Ósland. Talningasvæðið afmarkast frá Bræðslunni í austri og í vesturátt meðfram Óslandinu. Það var fremur napurt á svæðinu í dag og stór hluti talningasvæðsins ísi lagður. Eins og áður er þetta verkefni í samstarfi við Fuglaathugunarstöð Suðausturlands. Við munum ekki eftir að hafa séð svona mikinn ís á talningasvæðinu áður.
Auk þess að telja fugla þá er umhverfinu veitt athygli. Við tökum veðrið, reynum að meta stöðu sjávar og hvernig skilyrðin eru til talningar. Þá skoðum við hugsanlega mengunarvalda í umhverfinu og tökum með okkur rusl sem annars myndi enda á sjó úti.
Þó það væri kalt gekk talningin ljómandi vel. Við höfum oft séð fleiri fugla en þó sáust 11 fuglategundir í dag. Og útiveran bætir og nærir bæði líkama og sál.
Enn og aftur sameina Leikfélag Hornafjarðar og FAS krafta sína. Nú hefur verið ákveðið að setja upp leikritið Galdrakarlinn í Oz eftir L. Frank Baum sem er þekkt fjölskylduleikrit og er alltaf jafn vinsælt.
Um nýliðna helgi stóðu leikfélagið og FAS að sameiginlegri vinnustofu með leikstjóranum Völu Höskuldsdóttur. Hún er sviðshöfundur og hefur unnið m.a. með Leikfélagi Akureyrar ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Í vinnustofunni sameinaðist væntanlegur leikhópur og vann ýmsar æfingar til að hrista hópinn saman. Þá var leikstjórinn að kynna sínar vinnuaðferðir og hvers leikhópurinn má vænta á næstunni.
Það eru fjölmargir sem munu koma að sýningunni. Þar má nefna; félaga í leikfélaginu, nemendur á listasviði FAS og nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar. Ef það eru einhverjir sem vilja taka þátt í hinum ýmsu störfum leikhússins að þá er þeim bent á að hafa samband við leikfélagið í gegnum fésabókarsíðu félagins.
Það verður spennandi að fylgast með gangi mála á næstu vikum. Stefnt er að frumsýningu föstudaginn 24. mars.
Við vitum öll að góð næring skiptir miklu máli til að stuðla að vellíðan. Og það er mun líklegra að það sé auðveldara að einbeita sér með mettan maga fremur en að sitja með gaulandi garnir og bíða eftir því að tíminn líði. Góð og holl næring er einmitt einn þáttur í stefnu heilsueflandi framhaldsskóla.
FAS ætlar nú á vorönninni að bjóða nemendum og starfsfólki upp á frían hafragraut í morgunhléinu og stuðla þar með að því að allir eigi kost á hollri næringu. Við hvetjum alla til að nýta sér þetta góða tilboð.
Skólastarf vorannarinnar hófst formlega eftir hádegi í dag þegar skólinn var settur. Það var gaman að sjá nemendur mæta og tilbúna til að takast á við nýjar áskoranir á nýrri önn með hækkandi sól.
Nú er verið að taka upp nýtt skipulag í FAS sem má segja að sé tvíþætt. Kennsla hefst á þessari önn klukkan 8:30 á morgnana og kennt er til 16:30. Kennslustundir eru styttar niður í 45 mínútur. Eins og áður eru kenndar fjórir tímar í viku í flestum fimm eininga áföngum. En til að vega upp á móti styttri kennslustundum hafa bæst við vinnustundir þar sem allir nemendur eiga að mæta. Vinnustundirnar nýtast bæði til sjálfstæðrar verkefnavinnu og eins til að ljúka þeim verkefnum sem ekki náðist að vinna í kennslustundum. Það er mætingaskylda í bæði kennslustundir og vinnustundir.
FAS er heilsueflandi framhaldsskóli þar sem vellíðan nemenda er í fyrirrúmi. Breytt fyrirkomulag á kennslustundum samræmist nýjustu rannsóknum á svefntíma ungmenna og viljum við að okkar nemendur njóti þeirra.
Fyrsti umsjónartími annarinnar verður í fyrramálið, fimmtudag 5. janúar á milli 8:30 og 9:00. Þar verður nánar farið yfir nýtt skipulag. Í kjölfarið verður kennt eftir svokallaðir „hraðtöflu“ en þá hitta kennarar í hverjum áfanga nemendahópa sína í 20 mínútur og þá verður farið yfir skipulag annarinnar.
Kennsla hefst svo samkvæmt stundatöflu föstudaginn 6. janúar.
Nú er starfi haustannar lokið og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá eru líka allir komnir í jólafrí og er það orðið langþráð hjá mörgum að geta tekið því aðeins rólegar eftir annir síðustu vikna.
Skólastarf vorannar hefst miðvikudaginn 4. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 13. Eftir skólasetningu verður boðið upp á aðstoð við að komast inn í tölvukerfi skólans. Fimmtudaginn 5. janúar verður umsjónarfundur klukkan 8:30. Það er mjög mikilvægt að allir mæti á þann fund því þar á að kynna nýtt skipulag á skólastarfi vorannarinnar. Eftir þann fund hefst kennsla.
Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum gott og gefandi.