„Hvert örstutt spor“ frumsýnt á föstudag

Leikverkefnið „Hvert örstutt spor“ verður frumsýnt í Mánagarði föstudaginn 18. mars. Verkið er byggt á „Silfurtúngli“ Halldórs Laxness en það verk var skrifað árið 1954 og var þess tíma þjóðfélagsádeila. Það er Stefán Sturla sem hefur fært verkið í leikbúning og er jafnframt leikstjóri. Stefán Sturla notar grunnþætti upprunalega verksins en hefur aðlagað þá að nútímanum.

Eins og svo oft áður er FAS í samstarfi við Leikfélag Hornafjarðar sem á þessu ári fagnar 60 ára afmæli sínu. Undanfarið hafa verið miklar æfingar og nú er allt að smella saman fyrir frumsýninguna. Sjö sýningar eru fyrirhugaðar  á verkinu og hægt er að panta miða í síma 892 97 07.

Við hvetjum alla til að láta þennan menningarviðburð ekki framhjá sér fara. Sjáumst í leikhúsinu.

Fræðsla um heilbrigðan lífsstíl

Í síðustu viku fengu nemendur í heilsufræðiáföngum skólans heimsókn frá Lyfjaeftirliti Íslands. Það var Birgir Sverrisson sem kom til okkar og var með fræðslu um hlutverk og skyldur Lyfjaeftirlitsins. Hann fór almennt yfir stöðuna en beindi svo sjónum sínum sérstaklega að ólöglegum lyfjum innan íþróttagreina og afleiðinga af notkun þeirra. Þá talaði hann sérstaklega um orkudrykki og hversu fljótt þeir geta orðið ávanabindandi. Enn er lítið vitað um langtímaáhrif af inntöku orkudrykkja.

Í dag hélt svo Erla Björnsdóttir fyrirlestur um mikilvægi svefns og talaði sérstaklega um mikilvægi þess að ungt fólk sofi nægilega. Í máli sínu fór Erla yfir fjögur stig svefns og mikilvægi þess að öllum stigunum fjórum sé náð. Þá kom fram að skjátímanotkun stuttu fyrir svefn getur haft áhrif á gæði svefnsins. Því hvetjum við alla til að huga að eigin svefnvenjum og hvernig megi auðveldlega bæta þær. Erla er með heimasíðuna Betri svefn og hvetjum við alla til að skoða hana því þar er margar góðar ráðleggingar að finna.

Við þökkum gestunum kærlega fyrir þeirra innlegg og vonum að það hvetji til heilbrigðari lífsstíls því heilsan er eitt það mikilvægasta sem við eigum.

Vel heppnuð árshátíð

Árshátíð FAS var haldin í gærkveldi og fór vel fram. Hún hafði að mestu verið undirbúin á opnum dögum fyrr í þessum mánuði. Það eru einkum þrír hópar sem bera hitann og þungann af skipulagningu árshátíðarinnar en það eru; nemendaráð, skemmtinefnd og skreytinganefnd. Afrakstur vinnunnar fengum við hin svo að sjá í Sindrabæ í gær þar sem salurinn var vel skreyttur og öll umgjörð til fyrirmyndar.

Mörg skemmtiatriði voru heimatilbúin en Auddi Blö og Steindi Jr voru fengnir til að vera veislustjórar og þeim fórst það ljómandi vel úr hendi. Að lokinni dagskrá var ball og þar skemmtu sér allir hið besta.

[modula id=“14071″]

Snjóflóð og skíði

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína austur á firði til Eskifjarðar dagana 11. – 15. febrúar og 18. – 22. febrúar. Þar var ætlunin að njóta blíðunnar í Oddsskarði á skíðum og læra allt sem hægt er að læra um snjóflóð á fimm dögum. Námskeiðin gengu bæði frábærlega og sýndu nemendur mikinn áhuga á fræðunum, færni í snjóflóðabjörgun og auðvitað magnaða skíða- og brettatakta.

Dagskrá námskeiðanna var þétt enda þurfti að koma miklu námsefni að og af nógu að taka þegar kemur að snjóflóðafræðum. Helst var farið yfir snjóflóðabjörgun, eðli snjóflóða, snjóflóða- og veðurspár, skipulagningu ferða, landslagslestur, snjóathuganir og aðferðir til að meta snjóflóðaaðstæður á staðnum og auðvitað skíða- og brettatækni sem er grunnur að því að ferðast af öryggi á skíðum/bretti í fjalllendi. Snjóflóðanámskeiðið er jafnframt undirbúningur fyrir komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi.

Lægðagangurinn í febrúar var sem fyrr látlaus og setti örlítið strik í reikninginn fyrir bæði námskeiðin, þá er mikilvægt að dagskráin sé sveigjanleg og öll móttækileg fyrir veðri og vindum og breyttum áformum. Þannig er eðli náms sem fer fram úti í náttúrunni, alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum. Þrátt fyrir smávægilegan mótvind, var farið yfir allt námsefnið og allir komust heilu og höldnu heim til sín eftir áfangann.

Kennarar og nemendur dvöldu á hinni dásamlegu Mjóeyri, þar sem aðstaðan er frábær. Við innikennslu og bíókvöld var notast við sjálft Randulffssjóhús sem stendur á ströndinni í jaðri bæjarins en húsið er í umsjá staðarhaldara á Mjóeyri. Það er ekki annað hægt að segja en að Eskifjörður og Oddsskarð taki alltaf vel á móti FAS og erum við kennararnir spenntir að taka á móti fjallaskíðahópum nú í mars, í Austfirsku Alpana!

[modula id=“14032″]

Styttist í árshátíð

Það hefur aldeilis verið nóg um að vera í FAS það sem af er þessari viku. Stór hluti nemenda hefur verið að undirbúa árshátíð sem verður í næstu viku. Þar er að mörgu að hyggja. Það þarf að útbúa skreytingar, panta mat og sjá til þess að allt verði til reiðu. Síðast en ekki síst þarf að undirbúa skemmtiatriði og þá er gjarnan litið til þess hvernig síðasta skólaár hefur verið. Oftar en ekki er gert góðlátlegt grín að samferðafólkinu, bæði nemendum og kennurum.
Tæknin er sífellt meira nýtt og í stað þess að leika atriði á sviði eru þau gjarnan tekin upp og svo klippt saman í eitt árshátíðarmyndband. Meðfylgjandi mynd var tekin í dag en þá var einmitt verið að vinna í myndbandinu.

Opnir dagar í FAS

Það er fyrir löngu orðin hefð að hafa „opna daga“ í FAS á vorönninni en þá er námið sett til hliðar í þrjá daga og nemendur fást við eitthvað allt annað. Að þessu sinni ætlaði stór hluti staðnemenda að fara í skíðaferð í Oddskarð en veðurguðirnir gripu í taumana og sáu til þess að ekkert varð úr ferðinni.

Að venju starfa nokkrir hópar á „opnum dögum“. Þrír hópar eru að undirbúa árshátíð sem verður haldin fimmtudaginn 10. mars. Það er að mörgu að hyggja þegar halda skal árshátíð. Einn hópurinn er að undirbúa skreytingar, annar hópurinn er að búa til skemmtiatriði og þriðji hópurinn ætlar að búa til texta og lög sem verða flutt á árshátíðinni.

Síðasti hópurinn sem starfar á „opnum dögum“ veltir fyrir sér skapandi skrifum og þegar litið var til þeirra rétt áðan voru þeim heimsmálin síðustu daga hugleikin.

Veikindi lita „opna daga“ nokkuð að þessu sinni, Covid hefur náð í skottið á mörgum. En þeir sem eru mættir vinna vel.

Meðfylgjandi mynd var tekin hjá skreytingahópi fyrr í dag, þar er búið að ákveða þema árshátíðarinnar að þessu sinni en það verður ekkert upplýst um það að svo stöddu.