Enn og aftur sameina Leikfélag Hornafjarðar og FAS krafta sína. Nú hefur verið ákveðið að setja upp leikritið Galdrakarlinn í Oz eftir L. Frank Baum sem er þekkt fjölskylduleikrit og er alltaf jafn vinsælt.
Um nýliðna helgi stóðu leikfélagið og FAS að sameiginlegri vinnustofu með leikstjóranum Völu Höskuldsdóttur. Hún er sviðshöfundur og hefur unnið m.a. með Leikfélagi Akureyrar ásamt ýmsum öðrum verkefnum. Í vinnustofunni sameinaðist væntanlegur leikhópur og vann ýmsar æfingar til að hrista hópinn saman. Þá var leikstjórinn að kynna sínar vinnuaðferðir og hvers leikhópurinn má vænta á næstunni.
Það eru fjölmargir sem munu koma að sýningunni. Þar má nefna; félaga í leikfélaginu, nemendur á listasviði FAS og nemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar. Ef það eru einhverjir sem vilja taka þátt í hinum ýmsu störfum leikhússins að þá er þeim bent á að hafa samband við leikfélagið í gegnum fésabókarsíðu félagins.
Það verður spennandi að fylgast með gangi mála á næstu vikum. Stefnt er að frumsýningu föstudaginn 24. mars.