Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum hjalla undanfarið sem nú hefur fengist tímabundin lending á.

Flest erum við vel meðvituð um mikilvægi námsins, ekki síst hér á suðausturhorninu þar sem stór hluti ferðaþjónustu tengist ferðum á jökli og á fjöllum. Það er mikilvægt að fagfólk sé leiðandi í ferðum þar sem mikilvægt er að öryggi sé tryggt og lesið í veður og aðstæður metnar. Það er ekki síður mikilvægt fyrir skólann og samfélagið að FAS muni áfram geta boðið upp á fjallamennskunámið.

Í meðfylgjandi grein eftir Erlu Guðnýju Helgadóttur má lesa um mikilvægi menntunar í fjallaleiðsögn á Íslandi.

Undanfarnar vikur og mánuði hafa margir lagst á árar með að standa vörð um námið og þökkum við öllum viðkomandi fyrir stuðninginn.

Á leið til Noregs

Við höfum áður sagt frá nemendaskiptaverkefni sem fjallar um náttúrulegar auðlindir og nýtingu þeirra en það verkefni hófst síðastliðið haust. Þetta er tveggja ára verkefni undir merkjum Nordplus og þátttökulöndin eru Finnland, Noregur og Ísland. Í verkefninu er gert ráð fyrir heimsókn til eins af þátttökulöndunum á hverri önn. Við hér í FAS fengum gesti til okkar í október og áttum góðar stundir saman.

Nú er komið að næstu heimsókn sem að þessu sinni verður til Noregs. Íslenski hópurinn leggur af stað til Keflavíkur á morgun, laugardag og flýgur utan á sunnudag og við verðum komin til Brønnøysund um kvöldmat. Það er þétt og mikil dagskrá í næstu viku þar sem bæði er verið að kynnast landi og þjóð og eins að vinna að verkefnavinnu. Hægt verður að fylgjast með ferðum hópsins á https://nr.fas.is/

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar íslenski hópurinn kvaddi gestina í haust.

Vetrarferðamennska

Vetrarferðamennskuáfanginn í fjallamennskunáminu hófst með vinnustofu í Reykjavík þar sem nemendur fóru yfir leiðaval, hvernig á að ferðast án ummerkja og notkun á viðleigubúnaði í vetraraðstæðum. Daginn eftir var förinni heitir norður í fjögurra nátta tjaldferðalag með ferðaskíði og púlkur: Stefnan var tekin í Fjörður austur af Grenivík. Tjöldum var slegið upp eftir nokkra klukkutíma á skíðunum fyrsta daginn. Næsta morgun skíðaði hópurinn alla leið í skálann á Gili sem er á miðjum Flateyjarskaganum norðanverðum. Áhersla var lögð á rötun, leiðarval ásamt hóp- og hraðastjórnun á þessum ferðadögum. Hópurinn tjaldaði við skálann og nýtti sér frábæra aðstöðu sem þar var til að hita vatn, borða og funda innandyra.

Daginn eftir var farið yfir tæknilegri atriði í vetrarferðamennsku s.s. hvernig á að ganga í línu þegar ferðast er um á snjóhuldum jöklum, mismunandi gerðir snjóakkera, ísaxarbremsu og göngutækni í snjó. Hóparnir völdu sér landslag í fjalllendi nærri skálanum til að æfa þessi atriði, en þennan dag eins og aðra var hópnum skipt upp í fjóra minni hópa sem ferðuðust hver í sínu lagi.

Eftir aðra nótt við skálann hélt hópurinn áleiðis heim á leið í átt að upphafsstað. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að ferðast í hring og skíða inn Trölladal og koma niður á Grenivík rétt austan Kaldbaks en þar sem færið var mjög hart og ísað tók hópurinn ákvörðun um að fara frekar sömu leið til baka. Það er eitt af því sem áhersla er lögð á að kenna í Fjallamennskunámi FAS, að breyta skipulagi þegar aðstæður kalla á slíkt og taka til greina vægi nýrra upplýsinga sem gætu stangast á við fyrri plön. Hópurinn tjaldaði fjórðu nóttina um þremur kílómetrum frá bílunum og gerði góða tilraun til að grafa snjóhús inn í bakka sem skafið hafði í, en ekki var nægileg snjódýpt til að það gengi vel eftir. Á síðasta og fimmta degi ferðarinnar skíðaði hópurinn niður á veg með púlkurnar í eftirdragi, sem er ákveðin áskorun á gönguskíðum. Ferðin endaði svo í sundlauginni á Grenivík með dásamlegt útsýni yfir Kaldbak og fjalllendið sem hópurinn hafði ferðast um.

Við þökkum Ferðafélaginu Fjörðungi fyrir góðar móttökur og stuðning og einnig Sundlauginni á Grenivík sem opnaði snemma til að hleypa ferðalöngum í bað.

Kennarar í áfanganum voru Tómas Eldjárn Vilhjálmsson, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir, Michael Robert Walker, Daníel William Saulite og Ólafur Þór Kristinsson.

Framhald í Fjallaskíðamennsku FAS

Þá var komið að síðasta fjallaskíðanámskeiði vetrarins. Framhaldsnemar héldu enn á ný norður í land til þess að auka færni sína á fjallaskíðum. Hópurinn hittist í bakaríi á Akureyri þar sem morgunfundur var haldinn að venju og farið var yfir búnaðinn. Í þetta sinn var förinni heitið á Flateyjarskaga þar sem gist yrði í skálanum að Gili í tvær nætur. Pokinn yrði því aðeins þyngri en venjulega og gangan þangað inn eftir ekki stutt. Eftir morgunfund var haldið að bílastæðinu við Kaldbak. Þaðan gekk hópurinn upp á topp á mettíma í litlu skyggni en annars fallegu veðri. Þegar upp var komið þurfti að ákveða niðurleið en þar sem skyggni var lítið var ákveðið að skíða beinustu leið niður í Trölladal og þvera flatan og langan dalinn niður að skálanum sem tók sinn tíma í allri lausamjöllinni. Skálinn tók loks vel á móti hópnum, vel búinn og flottur og því hófst strax vinna að kveikja á hitanum, bræða vatn og elda. Flottur dagur, en langur!

Á degi tvö var veðrið eins og best verður á kosið. Ákveðið var að skíða beint upp til vesturs frá skálanum í brekkurnar þar undir Fossvaðsskálarhnjúki. Sól og logn og útsýni til allra átta og dásamlegt skíðafæri. Verðskuldað eftir brasið daginn áður.

Veðurspáin fyrir næsta dag var ekki góð, hvöss norðaustanátt og él en niðurstaðan var sú að dagurinn yrði hin fínasta rötunaræfing í krefjandi skilyrðum. Eftir aðra nótt í Gili vaknaði hópurinn í lélegu skyggni og éljagangi, en þó var veðrið nógu gott til að vinna með og vindurinn í bakið. Hópurinn tók sig til og gekk af stað. Dagurinn gekk vel fyrir sig og fengu nemendur góða rötunar- og áttavitaæfingu út úr deginum sem kemur sér vel fyrir leiðangursnámskeið vorsins á jöklinum stóra. Gengið var upp í skarðið neðan Kaldbaks og skíðað niður meðfram gilinu við upphaf gönguleiðar.

Síðasti námskeiðsdagur átti að vera toppadagur á Tröllaskaga en þar sem veðurspáin var ekki með okkur í liði og komin svolítil þreyta í hópinn var ákveðið að nota morguninn í börubjörgunaræfingu og akkerisæfingar með skíði og sig á skíðum. Því næst var námskeiðið klárað að venju á kaffihúsi Bakkabræðra á Dalvík.

Nemendur voru mjög áhugasamir og duglegir á námskeiðinu. Það var ekki mikið kennsluefni og námskeiðið snerist að mestu leyti um að auka færni þeirra enn frekar á fjallaskíðum, mat á aðstæðum, leiðarval og þvíumlíkt. Þau stóðu sig vel í þeirri vinnu og það var aukin áskorun að gista í skála með þyngri fjallaskíðapoka.

Kennarar á námskeiðinu voru Erla Guðný Helgadóttir (sem skrifar fréttina) og Ívar Finnbogason.

Alexandra syngur fyrir FAS

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin 6. apríl næstkomandi. Keppnin verður haldin í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Að þessu sinni taka 23 keppendur þátt. Söngkeppin hefst kukkan 19:45 og verður einnig í beinni útsendingu á RÚV.

Einn keppenda er Alexandra Hernandez og hún er að að sjálfsögðu að keppa fyrir FAS. Hún ætlar að flytja frumsamið lag sem heitir Hjá mér. Alexandra hefur verið þessa vikuna syðra til að undirbúa keppnina. Hún er t.d. búin að vera í upptöku á innslögum hjá RÚV, velja fatnaðinn fyrir laugardagskvöldið og á föstudag mun hún æfa með hljómsveitinni. Hún segist vera spennt og hlakkar til að taka þátt.

Við hvetjum alla til að fylgjast með söngkeppninni í RÚV á laugardaginn og ekki síður til að kjósa Alexöndru. Til að kjósa hana þarf að velja númerið 900-9105.

Kaffiboð á Nýtorgi

Fyrir Covid voru nokkrum sinnum á ári sameiginlegir kaffitímar á Nýtorgi. Þá skiptust íbúar hússins á að koma með veitingar. Aðaltilgangurinn var að íbúar hússins myndu koma saman og sjá hversu margir starfa alla jafnan í húsinu. En auðvitað líka að eiga góða stund yfir kaffi og meðlæti.

Eftir Covid hefur nokkrum sinnum verið imprað á því að gaman væri að endurvekja þessa sameiginlegu kaffitíma. Og í dag var komið að fyrsta sameiginlega kaffiboðinu á Nýtorgi og það voru kennarar og starfsfólk FAS sem riðu á vaðið. Það var gaman að sjá hversu margir gáfu sér tíma til að kíkja við og ekki annað að sjá en gómsætar veitingarnar rynnu ljúflega niður. Við erum strax farin að hlakka til næsta kaffiboðs.