Afreksíþróttasvið FAS á fleygiferð með nýjar áherslur

Afreksíþróttasvið Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) hefur farið vel af stað eftir breytingar sem tóku gildi í upphafi skólaársins. Með nýju fyrirkomulagi hefur verið lögð rík áhersla á að efla nemendur með fjölbreyttum æfingum og fræðslu sem styðja við þroska þeirra og framfarir, bæði innan  vallar sem utan.

Nú eru tækniæfingar í boði fyrir þær íþróttagreinar sem eru kenndar á sviðinu, sem og styrktaræfingar til að bæta líkamlegt atgervi nemenda. Á þessari önn hafa nemendur einnig fengið fræðslu frá Haus hugarþjálfun, þar sem markmiðasetning hefur verið í brennidepli. Þessi nýju atriði hafa vakið mikla ánægju meðal nemenda, og segja margir þeirra að þau hafi hjálpað þeim að verða markvissari í sínum íþróttum.

Fjölgun nemenda á sviðinu hefur einnig verið jákvæð þróun og gefur til kynna að breytingarnar séu vel metnar. Eins og stendur eru iðkendur á sviðinu einungis í körfubolta og fótbolta, en framtíðarmarkmið sviðsins eru skýr; fjölga iðkendum og víkka úrval íþróttagreina.

Til að styrkja samstöðu og auðkenni sviðsins fengu allir iðkendur boli merka afreksíþróttasviðinu afhenta um miðjan nóvember, sem var einstaklega vel tekið. Á meðfylgjandi mynd má sjá nemendur á afreksíþróttasviði FAS en þess má geta að tveir voru fjarverandi þegar myndin var tekin.

Á næstu önn er fyrirhugað að fara í heimsóknir og bæta við nýjum tækifærum fyrir nemendur til að efla sig enn frekar. Með skýra sýn og markvissa stefnu stefnir afreksíþróttasvið FAS á að bjóða nemendum tækifæri sem nýtast þeim í sinni íþrótt í heimabyggðinni.

Fylgist með – framtíðin hjá afreksíþróttasviði FAS er björt!

Styttist í lok annar

Undanfarna daga og vikur höfum við sífellt verið minnt á að það sé farið að styttast til jóla. Á sama tíma sjáum við að margir eru farnir að skreyta hús sín bæði að innan og utan með marglitum ljósum. Það er notalegt þegar daginn er tekið að stytta að hafa ljósin sem gleðja auga og anda. Nú er mánuður í vetrarsólstöður og þá fyrst fer daginn að lengja aftur.

Íbúar Nýheima vorum með „skreytingartíma“ fyrir húsið í gær. Þá lögðust allir á eitt með að setja upp seríur og skraut. Að venju var jólatré hússins sett upp á Nýtorgi.

Nám í landvörslu við FAS

Í síðustu viku sögðum við frá því að það hefði náðst samkomulag um að halda áfram námi í fjallamennsku út skólaárið og fögnum við þeim áfanga.

Á næstu vorönn verður í boði í fjallanáminu valáfangi sem heitir „Landvarsla“. FAS fékk fyrir stuttu staðfest leyfi Umhverfisstofnunar til að kenna þennan áfanga. Umgjörð námsins verður með svipuðu sniði og hjá Umhverfisstofnun og þeir sem ljúka náminu öðlast starfsréttindi sem landverðir. Staðsetning skólans er mikilvæg fyrir námið, ekki síst nábýlið við Vatnajökulsþjóðgarð sem er hluti af „kennslustofu“ fjallamennskunámsins.

Nemendur í framhaldsnámi í fjallamennskunámi FAS ganga fyrir þegar kemur að innritun en allir þeir sem eru orðnir 18 ára geta sótt um námið. Umsjón með landvörslunáminu er í höndum Írisar Ragnarsdóttur Pedersen kennari í fjallamennskunámi FAS og hún mun veita nánari upplýsingar um námið fyrir þá sem vilja. Íris hefur netfangið irispedersen@fas.is.

Fréttir af fjallamennskunámi FAS

Síðustu vikur og mánuði hefur mikið verið í gangi varðandi fjallamennskunámið í FAS. Í upphafi skólaárs var staðan sú að námið var tryggt fram að áramótum en framhaldið óljóst. Mikil vinna hefur átt sér stað undanfarið sem margir hafa komið að, ekki síst fulltrúar sveitarfélagsins. Fyrsta markmiðið í þeirri vinnu var að hægt yrði að ljúka yfirstandandi skólaári með útskrift. Annað markmið og ekki síðra er að finna náminu farveg til lengri tíma þar sem hægt er að tryggja að námið verði áfram undir hatti Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu.

Í síðustu viku bárust þau ánægjulegu tíðindi að það hefur verið gengið frá því að fjallamennskunámið heldur áfram á næstu vorönn og þeir nemendur sem hófu námið í haust munu útskrifast.

Framundan er vinna til að tryggja náminu farveg til framtíðar. Sú vinna byggir á því mikla og góða starfi sem kennarar námsins hafa unnið og mótað til að koma sem best til móts við þarfir og öryggi ferðamanna í krefjandi umhverfi.

Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn til að tryggja námið á þessu skólaári og vonumst eftir áframhaldandi stuðningi til að halda náminu til framtíðar innan FAS.

Lesið í landið

Það hefur lengi verið lögð áhersla á ýmis konar náttúruskoðun í FAS. Í marga áratugi var sérstaklega fylgst með skriðjöklum og reynt að mæla hvort þeir væru að ganga fram eða hopa. Flestar ferðirnar með nemendur voru að Heinabergsjökli. Þá var mæld fjarlægð frá ákveðnum punktum á landi að jökuljaðrinum sem lá í lóninu og þegar heim var komið var notast við aðferðir stærðfræðinnar til að reikna út fjarlægðir. Það voru tveir mælipunktar á jökulruðningunum fyrir framan Heinabergsjökul sem var stuðst við.

Við höfum ekki farið varhluta af breytingum á náttúrunni undanfarin ár sem má að stórum hluta rekja til loftslagsbreytinga. Þær breytingar sjást mjög greinilega á Heinabergsjökli. Árið 2017 höfðu orðið svo miklar breytingar að ekki var lengur hægt að styðjast við nyrðri mælipunktinn en enn var hægt að mæla við syðri mælipunktinn en þar hafði jökullinn virst fremur stöðugur.

Árið 2020 hlaut Náttúrustofa Suðausturlands styrk frá Loftslagssjóði til þess að fljúga yfir jökla landsins og taka myndir af þeim, í því skyni að nýta til ýmissa rannsókna. Það var Snævarr Guðmundsson sem þekkir hvað best til jöklanna hér um slóðir sem fékk það hlutverk að taka myndirnar. Í flugi yfir Heinabergsjökul kom í ljós að syðri hluti Heinabergsjökuls var ekki lengur virkur hluti skriðjökulsins heldur risavaxinn ísjaki.

Þessar miklu breytingar á umhverfinu hafa kallað á breytingar á ferðinni með nemendur FAS. Nú tölum við ekki lengur um jöklamælingaferð heldur náttúruskoðunarferð þar sem við erum sérstaklega að skoða landmótun jökla og hvernig megi „lesa“ í landið og sjá hvar jökullinn hefur verið og hvernig hann hefur mótað fjöllin í grennd við jökulinn. Það er líka margt annað að skoða, t.d. hvernig landið mótast af völdum veðrunar, hvaða bergtegundir eru á svæðinu og eins veltum við fyrir okkur gróðurframvindu á svæðinu og rifjum upp í leiðinni hugtök úr ferðinni okkar á Skeiðarársand í upphafi annar.

Ferðin í gær hófst við brúna yfir Heinabergsvötn. Auk nemenda í áfanganum INGA1NR05 voru nokkrir nemendur og kennarar af starfsbraut. Það eru alltaf nokkrir í hópnum sem hafa ekki komið á þetta svæði og vita því ekki af þessari brú eða að þarna hafi þjóðvegurinn legið eitt sinn. Frá brúnni gekk hópurinn inn að lóninu fyrir framan Heinabergsjökul. Á leiðinni er staldrað alloft við og lesið í landið. Snævarr Guðmundsson frá Náttúrustofu Suðausturlands var með í ferðinni en hann er manna fróðastur um jöklana á svæðinu. Hann fræddi hópinn um það sem fyrir augu bar.  Við vorum t.d. að skoða árfarvegi, jökulruðninga, jökulkembu, landmótun jökla uppi í fjöllum, gróðurframvindu, veðrun og mismunandi grjót og hversu vel eða illa það veðrast. Frá lóninu lá síðan leiðin fram hjá gömlu mælingarpunktunum og á bílaplanið fyrir framan Heinabergslónið þar sem rútan beið eftir okkur.

Ferðin gekk ljómandi vel. Veður var eindæma gott og allir nutu útverunnar. Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina.

Rafræn lokaráðstefna í ForestWell

Rafræn ráðstefna ForestWell verkefnisins sem FAS er þátttakandi í verður haldin fimmtudaginn 7. nóvember kl. 11:00 – 12:30. Á ráðstefnunni verður fjallað um opið aðgengi að rafrænu námsefni, ferðaþjónustu, heilsueflingu og síðast en ekki síst skóga.

Ráðstefnan er öllum opin og er um að gera fyrir áhugafólk að skrá sig til þátttöku HÉR.