Snjóflóðagrunnur og skíðamennska

19.feb.2025

Nemendur í grunnnámi Fjallamennskunáms FAS lögðu leið sína norður í land til Dalvíkur dagana 13.-18. febrúar. Markmiðið var að skíða eins og við gátum en einnig auðvitað að fara yfir helstu snjóflóðafræði á fimm dögum. Fyrirlestrar og innikennsla fóru fram í Menntaskólanum á Tröllaskaga en þar er glæsileg aðstaða til kennslu. Útiæfingar og skíðamennska fóru fram á Dalvík, Siglufirði og í Hlíðarfjalli.  

Þrátt fyrir óvenjulega lítinn snjó miðað við árstíma þá gekk námskeiðið vel og kom snjóleysið ekki niður á skíðamennsku og lærdómi og farið var yfir allt námsefnið. Dagskráin var þétt enda þarf alltaf að koma miklu námsefni að á þessu námskeiði. Farið var yfir grunninn að snjóflóðafræðum, notkun snjóflóðaspáa, grunn að leiðarvali og landslagslestri í snjóflóðalandslagi, kynning á snjóflóða- og skíðabúnaði, mannlega þætti og ákvarðanatöku, áhættumat, snjóvísindi og snjóprófanir og að sjálfsögðu var farið ítarlega í félagabjörgun úr snjóflóði.  

Hópurinn náði að skíða þrjá daga af fimm sem er meira en oft áður enda var veðrið með besta móti alla dagana (sem telst ótrúlegt í febrúar) og brekkurnar í góðu standi þó að lítið væri utan leiða. Allir þátttakendur fengu persónulega endurgjöf á skíðatækni og fengu því góðan tíma til þess að æfa hana. Vissulega hefði meiri snjór hjálpað til við félagabjörgunaræfingar og snjógryfjugerð en sem betur fer eru mörg námskeið fram undan í vetur þar sem tækifæri verða til þess að fara enn betur yfir þessi fræði.  

Snjóflóðanámskeiðið er undirbúningur fyrir öll komandi námskeið á önninni, enda er þekking á snjóflóðafræðum og færni í björgun grunnþáttur í fjallamennsku að vetrarlagi. Þannig er snjóflóðahluta Fjallamennskunámsins ekki lokið, þar sem þekking á þessu námskeiði nýtist á flestum námskeiðum vorsins. Skíðahluti námskeiðsins sker að auki úr um hvort nemendur geti tekið þátt á fjallaskíðanámskeiði, en grunnskíðafærni er skilyrði. 

Eins og alltaf þá stýra aðstæður og veður förinni og hefur því dagskráin á þessu námskeiði alltaf verið sveigjanleg. Þannig er eðli náms sem fer fram úti I náttúrunni en alltaf þarf að vinna með náttúruöflunum sem hafa úrslitavald þegar upp er staðið.  

Skólinn þakkar kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í Menntaskólanum á Tröllaskaga og við hlökkum til frekara samstarfs í framtíðinni!  

Við kennararnir erum spennt að fá fjallaskíðahópinn til okkar eftir rúmar tvær vikur og bíðum spennt eftir snjónum. 

Kennarar voru: Erla Guðný Helgadóttir, Daniel Saulite, Smári Stefánsson og Ívar Finnbogason 

Aðrar fréttir

Starfsbrautarnemendur á ferð og flugi

Starfsbrautarnemendur á ferð og flugi

Fyrir nokkru sögðum við frá því að nemendur á starfsbraut í FAS hefðu farið í heimsókn í rafmagnsdeild Skinneyjar-Þinganess. Síðustu vikur hafa tveir vinnustaðir bæst í hópinn. Farið var í heimsókn til Gísla í Beinlínis en hann rekur byggingarfyrirtæki sem tekur að...

Fréttir frá NemFAS

Fréttir frá NemFAS

Það hefur verið nóg um að vera hjá nemendafélagi skólans undanfarið. Líkt og áður byggist félagslífið upp á klúbbastarfi þar sem nemendur skipuleggja viðburði og dagskrá. Það er góð mæting á fundi hjá nemendaráði, við náum góðum umræðum og skipuleggjum okkur vel. Í...

Fjarkennsla á morgun vegna veðurs

Fjarkennsla á morgun vegna veðurs

Eftir hádegi í dag voru viðvaranir vegna vonskuveðurs sem nú gengur yfir færðar upp á rautt stig fyrir stóran hluta landsins. Samkvæmt veðurspám verða rauðar og appelsínugular viðvaranir í gildi fyrir okkar svæði á morgun. Því er búið er að ákveða að kennsla á morgun,...