Í gær var komið að annarri fuglatalningu vetrarins í Óslandi en þær talningar eru eitt af vöktunarverkefnum skólans. Það eru staðnemendur í umhverfis- og auðlindafræði sem fara í talningar hér á Höfn. Fjarnemendur í áfanganum finna sér sambærilegt svæði þar sem þeir fylgjast með fuglum nokkrum sinnum á önninni.
Það voru óvenju fáir fuglar í Óslandinu í gær, það var að flæða að og því lítið um æti fyrir þá fugla sem helst hafast við í fjöruborðinu. Oftast er mikið af mávum í Óslandi en svo var ekki í gær – líklega hafa þeir komist í æti utan fjarðar. Það vakti hins vegar athygli að mikið var af stokköndum á Óslandstjörninni og minnist Björn Gísli, okkar helsti fuglasérfræðingur í FAS, þess ekki að hafa séð svo margar á tjörninni á þessum árstíma. Alls voru taldar 46 stokkendur á tjörninni.