Í dag var komið að uppbroti í tengslum við HeimaHöfn en það er verkefni sem tekur á fjölþættum áskorunum sem ungt fólk og landsbyggðarsamfélög standa frammi fyrir. Að þessu sinni var umfjöllunarefnið ferðaþjónusta og tækifæri sem tengjast henni í heimabyggð. Nokkrir aðilar sem tengjast mikið ferðaþjónustu á svæðinu komu og sögðu frá starfsemi sem er á þeirra vegum.
Fyrst sagði Steinunn Hödd þjóðgarðsvörður á Suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs frá starfsemi í kringum þjóðgarðinn og hvaða störf eru innt þar af hendi. Þessi stofnun heyrir nú undir Náttúruverndarstofnun. Haukur Ingi hjá Glacier Adventure sem er fjölskyldufyrirtæki í afþreyingarferðaþjónustu sagði frá starfsemi síns fyrirtækis og Una sem er hótelstjóri á Hótel Jökli sagði frá starfsemi í kringum hótelrekstur. Öll sögðu þau frá hversu fjölbreytt störf eru í tengslum við ferðaþjónustu og hversu mikilvægt er að fara og afla sér þeirrar menntunar sem hugurinn stefnir til. Og líka að vita af því að það er hægt að koma aftur á heimaslóðirnar og finna starf sem er bæði skemmtilegt og gefandi. Mörg þeirra sem tóku á móti okkur á Heppunni í dag eru fyrrum nemendur okkar í FAS sem hafa farið og aflað sér menntunar en ákveðið að snúa aftur heim því hér er bæði gott að búa og starfa.
Á meðan á kynningunum stóð var boðið upp á veitingar í anda Heppu og voru þeim gerð góð skil, ekki síst gladdi gestina að sjá „dólga“ á borðum. Eftir kynningarnar var svo Kahoot-keppni þar sem spurningar tengdust umfjöllunarefni dagsins. Að sjálfsögðu voru verðlaun fyrir þá sem stóðu sig best.
Við þökkum kærlega fyrir skemmtilegar og fræðandi kynningar og ekki síður fyrir veitingarnar.
-
Eyrún Fríða tók á móti hópnum og stjórnaði dagskránni.
-
Steinunn Hödd sagði frá störfum í Vatnajökulsþjóðgarði og hjá Náttúruverndarstofnun.
-
Haukur Ingi segir frá sínu fjölskyldufyrirtæki.
-
Una hótelstjóri á Hótel Jökli lærði hönnun sem nýtist vel í hennar starfi.
-
Veitingarnar voru gómsætar og þeim voru gerð góð skil.
-
-
-
-
-
-
Kahoot-spurningakeppnin.
-
Kahoot-spurningakeppnin.
-
Þessar stóðu sig best í spurningakeppninni og fengu gjafabréf að launum.