Páskafrí og kennsla eftir páska

Eftir kennslu í dag, föstudag er komið páskafrí. Það er eflaust kærkomið hjá flestum að fá frí í nokkra daga og fást við eitthvað annað en námið.

Breyting hefur orðið á skóladagatalinu. Þar sem við byrjum kennslu eftir páska þriðjudaginn 19. apríl en ekki á miðvikudegi eins og áður tíðkaðist þá fellum við í staðinn niður kennslu föstudaginn 22. apríl sem er dagurinn eftir sumardaginn fyrsta.

Við óskum öllum gleðilegra páska og vonum að allir hafi það sem best í fríinu.

 

Kajakferð grunnur 2022

Valáfanginn Kajakferð grunnur var kenndur hjá FAS dagana 1. – 4. og 5. – 8. apríl. Að þessu sinni var áhersla lögð á sit-on-top kajak en slíkir bátar eru auðveldir til að læra á og góður inngangur inn í aðrar greinar kajak íþróttarinnar svo sem straumvatnskajak eða sjókajak. Lagt var upp með sömu dagskrá fyrir báða hópana en vegna veðurs þurfti að víxla dögum innan seinni ferðarinnar.  

Báðir hópar lærðu grunnatriði varðandi búnað og öryggisbúnað sem nauðsynlegur er í kajakferðum og hvernig fara skal með slíkan búnað svo hann endist sem lengst. Farið var í ýmsa tækni við að beita árinni til að hreyfa bátinn fram, aftur og til hliðar sem og rétta líkamsbeitingu við róðurinn. Leiðsögn var fléttuð inn í áfangann, en nemendur skiptust á að kenna hverju öðru tækniatriði sem þeir höfðu lært daginn áður. Þau aðstoðuðu hvert annað við að komast frá landi auk þess að æfa bæði að bjarga sjálfum sér og einnig félaga upp í bátinn aftur. Rætt var um þær hættur sem fylgja siglingum á jökullónum, ísjökum og kelfandi jöklum. Einnig var farið yfir hvernig lesa má í strauma í ám og hvernig best sé að beita bátnum upp eða niður í straum, á móti öldu eða til að komast inn í iður (e. eddy) í ánni. Síðast en ekki síst var farið í hvernig best væri að festa kajakana vel á kerruna, en bátarnir eru stórir og þungir og það er nokkuð mikil vinna að festa þá vel.  

Fyrri hópurinn byrjaði á að róa í Hornafirði en vegna veðurs fór seinni hópurinn ekki út á sjó. Sá hópur æfði hins vegar að velta straumvatnskajak í sundlaug Hafnar. Báðir hópar reru á Jökulsárlóni og niður hluta Jökulsár í Lóni þar sem ofantalin tækniatriði voru æfð og notuð.  

Kennarar í áfanganum voru Michael Robert Walker, Sigfús Ragnar Sigfússon og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.  

[modula id=“14235″]

Góðir gestir í FAS

Það hefur heldur betur verið líf í Nýheimum þessa vikuna. Sveitarfélagið stendur fyrir hinsegin viku og á miðvikudag voru Samtökin ’78 með fræðslu fyrir bæði nemendur og starfsfólk í FAS og sveitarfélagins í fyrirlestrasal Nýheima.

Þá komu hingað seinni partinn á þriðjudag gestir frá Finnlandi og Noregi í Nordplus samstarfsverkefni. Íslensku þátttakendurnir í verkefninu fóru síðasta laugardag til að taka á móti hópnum. Sunnudagurinn var notaður til að skoða sig um í Reykjavík. Á mánudag hófst svo vinna í tengslum við verkefnið en þá var þátttakendum skipt í 6 hópa. Hver hópur átti að heimsækja fyrirtæki í Vík og afla þar upplýsinga í tengslum við heimsmarkmið 8 en við erum einmitt að vinna með það á þessari önn. Hópurinn hélt svo áfram á þriðjudag og heimsótti nokkra staði í kringum Kirkjubæjarklaustur og á Hala og hélt áfram að safna upplýsingum.

Í gær og í dag hafa krakkarnir unnið úr upplýsingum og útbúa bæði veggspjöld og kynningar tengdar heimsóknunum og munu þau verkefni birtast á vefsíðu verkefnisins fljótlega https://geoheritage.fas.is/  – en það hefur ekki bara verið unnið í verkefnum. Hópurinn fór t.d. í gær út á Stokksnes og í Almannaskarð og í dag fengum við fræðslu um þjóðgarðinn í Gömlubúð. Við viljum þakka öllum sem hafa tekið á móti okkur.

Í kvöld er gestunum boðið á leiksýningu og svo heldur hópurinn af stað til Keflavíkur í fyrramálið og flýgur utan á laugardagsmorgun.

Vetrarferð FAS dagana 25. febrúar – 2. mars og 5. – 10. mars 2022

Áfanginn Vetrarferð er kenndur á vorönn fyrsta árs nema hjá FAS og er grunnáfangi í vetrarfjallamennsku þar sem nemendur eru undirbúnir fyrir þær áskoranir sem fylgja því að ferðast og tjalda í snjó, þar á meðal á snjóþöktum jöklum.  

Fyrri vetrarferð tók á móti tólf nemendum með spennandi litríkri veðurspá sem lofaði góðri skemmtun. Áfanginn hófst í fyrirlestrasal Nýheima þar sem farið var yfir komandi daga og kennarar námskeiðsins, Ástvaldur Helgi Gylfason, Elín Lóa Baldursdóttir og Michael Walker fóru yfir grunn í vetrarfjallamennsku og búnaði dreift til nemenda.  

Næst var haldið í Öræfin þar sem hópurinn eyddi næstu dögum í að æfa allt það sem þau gátu á milli lægða. Dögunum var meðal annars varið í að læra að byggja snjóhús sem gæti nýst sem neyðarskýli, farið var yfir hvernig bera ætti sig að í fjalllendi að vetri til og rifjað upp hvernig meta á snjóflóðaaðstæður, en nemendurnir höfðu nýlokið við námskeið í skíðum og snjóflóðum á Austurlandi. Einnig var farið yfir hvernig hægt er að stoppa sig með ísaxarbremsu, byggingu akkera í snjó sem og línuvinnu sem þörf er á í þessum aðstæðum.  

Áfanginn heppnaðist því ákaflega vel, enda frábær hópur og þótt veðrið hafi leikið þau heldur grátt fóru allir heim með bros á vör.  

Í seinni hóp áfangans voru 14 nemendur og voru þau heldur heppnari með veður en urðu hins vegar fyrir nokkrum skakkaföllum af völdum covid. Þau gengu Sandfellsleið upp í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli og tjölduðu þar undir hlíðum jökulgarðsins. Þar var farið yfir ýmis ráð sem ýmist gott eða nauðsynlegt er að kunna þegar tjaldað er í snjó. Þar voru byggðir skjólveggir og snjór bræddur, bæði til eldamennsku og fyrir drykkjarvatn næsta dag. Daginn eftir var gengið upp á jökul í þremur línuteymum þar sem nemendur fengu að spreyta sig á að skipuleggja og stjórna línu. Einnig var farið yfir gerð snjóakkera og ísaxarbremsa æfð. Vegna veikinda tók hópurinn sameiginlega ákvörðun um að gista ekki aðra nótt heldur ganga niður Sandfell þá um kvöldið. Nemendur fengu því óvænta æfingu í næturrötun. Næstu dagar fóru í ýmsar æfingar á tæknilegum atriðum og m.a. var farið á skriðjökul til að æfa sprungubjörgun en hún er sambærileg á hörðum ís og í snjó þó að akkerið sé öðruvísi.  

Líkt og í fyrri áfanga gátu kennarar námskeiðsins, Daniel W. Saulite, Íris R. Pedersen, Svanhvít H. Jóhannsdóttir og Tómas E. Vilhjálmsson, með útsjónarsemi farið yfir alla námsþætti á kennsluáætlun þrátt fyrir áskoranir sem m.a. veðrátta þessa árstíma bíður upp á.  

Fyrir hönd kennara í Vetrarferð 2022, Elín Lóa Baldursdóttir og Svanhvít Helga Jóhannsdóttir.

[modula id=“14199″]

Vettvangsferð í Lón

Í gær fóru staðnemendur í umhverfis- og auðlindafræði í vettvangsferð upp í Lón. Tilgangurinn var fyrst og fremst að athuga hvort álftir séu farnar að koma til landsins. Undanfarin ár höfum við líka komið við á urðunarstað sveitarfélagsins í landi Syðri Fjarðar og er það liður í að efla umhverfisvitund nemenda og hvetja til sem mestrar flokkunar á sorpi.

Stefán Aspar verkefnisstjóri umhverfismála hjá sveitarfélaginu tók á móti hópnum og sagði frá því hvaða rusl er sent í urðun. Það var greinilegt að það hefði mátt vanda betur flokkun á því sem var að berast í urðun undanfarið. Það mátti greinilega sjá töluvert af plasti og öðrum flokkanlegum úrgangi. Það er mjög mikilvægt að þessi urðunarstaður endist sveitarfélaginu sem lengst og þá þarf að flokka eins vel og mögulegt er.

Eftir heimsókn á urðunarsvæðið var haldi austur að Hvalnesi en þar er fyrsti talningastaðurinn af þremur. Um leið og komið var út úr bílnum heyrðist vel að töluvert af álft er komið til landsins. En þær koma gjarnan fyrst á Lónsfjörð og dvelja þar í nokkra daga áður en þær halda á varpstöðvarnar. Það var greinilegt á tilburðum fuglsins að það er nóg um æti í firðinum. Útsýnispallurinn á milli Hvalness og Víkur er jafnan sá staður þar sem mest er af álft og það var einnig svo í gær. Eftir að hafa talið þar var gengið fram með strandlengjunni áleiðis að Vík og á leiðinni var tínt rusl og horft eftir dauðum fuglum. Við höfum oft séð meira rusl á þessari leið en það sem við fundum var að langstærstum hluta plast og svo einnota drykkjarílát. Síðasti talningarstaðurinn er svo við Svínhóla. Í ferðinni í gær voru 4787 álftir taldar. Það var Björn Gísli sem stjórnaði talningunni eins og svo oft áður.

Eftir ferðina þurfa nemendur svo að vinna samantekt um lífshætti álftarinnar og einnig að skrifa skýrslu um talningarnar.

[modula id=“14160″]

10. bekkur heimsækir FAS

Í síðustu viku komu til okkar góðir gestir en það voru væntanlegir útskriftarnemendur úr Grunnskóla Hornafjarðar. Margir þeirra eru farnir að velta fyrir sér hvað eigi að gera að loknum grunnskóla.

Hér í FAS var tekið á móti hópnum á Nýtorgi og var byrjað á því að segja frá hvernig framhaldsskólakerfið er uppbyggt. Því næst var kynnt hvaða nám er í boði í FAS og hver námslok geta verið eftir því hvað er valið. Að loknum kynningum gátu gestirnir gengið um og rætt við kennara og nemendur sem veittu upplýsingar um fjölbreytt nám í FAS.

Það var gaman að sjá hversu áhugasamur hópurinn var og þeim kom greinilega á óvart hversu fjölbreytt námsframboð er í FAS. Við þökkum gestunum kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá sem flesta í FAS í haust.

Að lokum má geta þess að opnað hefur verið fyrir umsóknir í framhaldsskóla hjá Menntamálastofnun á þessari slóð.