FAS er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu PEAK sem á ensku ber nafnið New Heights for Youth Entrepreneurship . Verkefnið tengist eins og nafnið ber með sé, ungu fólki og nýsköpunarmenntun og vinnu og beinist að þeim sem búa í fjallahéruðum og á einangruðum svæðum. Verkefnið leitast við að efla aðgerðir sem geta stuðlað að styrkingu og sjálfbærri þróun fyrrnefndra svæða. Kveikjan að verkefninu er sú staða sem þessi svæði hafa verið að fást við víða í Evrópu, þ.e. brottflutningur ungs fólks, almenn fólksfækkun og áhrif þess á félagslega og efnahagslega stöðu svæðanna.
Markmið PEAK eru að:
- Valdefla ungt fólk í gegnum frumkvöðlastarf og nýsköpun með það að leiðarljósi að efla atvinnuuppbyggingu í heimabyggð.
- Vinna gegn, og snúa við fólksfækkun (þar sem það á við) með því að efla frumkvöðlafærni og starf meðal ungs fólks.
Á morgun, föstudaginn 3. febrúar er boðað til vinnufundar á Zoom þar sem afurðir verkefnisins verða kynntar og ræddar með það að leiðarljósi að fá álit og endurgjöf frá þátttakendum. Þetta er gert til að vinnuhópur PEAK fái fleiri að borðinu við að útbúa gott og gagnlegt efni sem nýtist ungum frumkvöðlum og kennurum/leiðbeinendum þeirra.
Eftirfarandi þættir verða kynntir og ræddir:
IO1: PEAK verkefnið í hnotskurn
IO2: Myndbönd og kynning ungra frumkvöðla
IO3: Námsefnispakkar fyrir leiðbeinendur ungra frumkvöðla
IO4: Gagnvirkt fjarnámsumhverfi
Allir áhugasamir um uppbyggingu og eflingu atvinnutækifæra ungs fólks eru hvattir til þátttöku. Hér er aðgangur að vinnustofunni.