Kayakróður í fjallanáminu

Kayak áfangi Fjallamennskunámsins fór fram í apríl. Áfanginn var tvískiptur og fengu báðir hópar að kljást við krefjandi en skemmtilegt umhverfi á sjó milli Hafnar og Berufjarðar. Í heildina voru þetta fjórir verklegir dagar þar sem gist var eina nótt í tjaldi út í feltinu.

Í áfanganum voru tekin fyrir fjölbreytt verkefni sem snéru að því að veita nemendum þá grunnþekkingu og reynslu sem þarf til að geta ferðast með öðrum á sjó og skipulagt ferðir á eigin vegum. Nemendur spreyttu sig meðal annars í félagabjörgun, leiðavali, hópastjórnun og skipulagningu lengri ferða ásamt því að róa í mismunandi straumum og öldum.

Kayakróður verður sífellt vinsælli afþreying á Íslandi og atvinnutengdir möguleikar margir, bæði í kringum Höfn sem og annars staðar. Mikilvægt er að leggja grunninn að faglegri uppbyggingu á þessari vaxandi atvinnugrein og er þetta liður í þeirri vegferð. Kennarar voru: Guðni Páll Viktorsson, Anula Jochym og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.

Hreint umhverfi – fagurt umhverfi

Seinni hluta apríl eru margir sem huga að því að fegra umhverfið og snurfusa fyrir sumarið með því að tína drasl í nánasta umhverfi. Í dag fyrir hádegi var komið að árlegum umhverfisdegi Nýheima og ráðhúss þar sem allir íbúar húsanna leggja sitt af mörkum til að fegra umhverfið. Það er alls konar rusl sem þarf að tína, þá eru einhverjir að skafa upp tyggjóklessur þeirra sem enn viðhafa þann leiða sið að spýta herlegheitunum út úr sér þar sem þeir standa. Og svo voru einhverjir í því að sópa stéttir og hreinsa mosa á milli gangstéttarhellna. Það má svo sannarlega segja að margar hendur vinni létt verk.

Í hádeginu verður svo efnt til mikillar hamborgaraveislu fyrir alla þá sem hafa lagt sitt af mörkum á umhverfisdeginum.

Við viljum líka minna á að á sunnudaginn, 30. apríl er stóri plokkdagurinn þar sem allir eru hvattir til að líta í kringum sig og tína rusl. Saman getum við gert svo margt og flestir eru sammála um að okkur líði betur þar sem er hreint og fínt.

Við viljum líka minna á að á sunnudaginn, 30. apríl er stóri plokkdagurinn þar sem allir eru hvattir til að líta í kringum sig og tína rusl.

Nemendur á ferð og flugi

Það má sannarlega segja að margir nemendur FAS séu á ferð og flugi þessa dagana. Í þessari viku eru 10 nemendur í Vaala í Finnlandi. Þeir taka þátt í verkefninu Geoheritage, culture and sustainable communities in rural areas in Finland, Iceland and Norway. Þetta er síðasta heimsóknin í þriggja ára verkefni þar sem er verið að vinna með ákveðin heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Að þessu sinni er unnið með heimsmarkmið 7 sem fjallar um sjálfbæra orku. Hægt er að fylgjast með heimsókninni á https://geoheritage.fas.is/. Í dag og á morgun vinna nemendur úr þeim upplýsingum sem hefur verið safnað fyrri hluta vikunnar.

Í næstu viku verða svo þrír nemendur í Tyrklandi en þeir taka þátt í Erasmus+ verkefninu Rare routes. Þá eru nemendur í fjallamennsku að ferðast um jökla Íslands þessa dagana. Við vonum að allar þessar ferðir gangi sem best og allir komi heim reynslunni ríkari.

Gleðilegt sumar öll. Það er ekki kennsla í FAS á morgun, föstudag. Við hvetjum því alla til að njóta langrar helgar og safna kröftum fyrir lokasprettinn á önninni.

 

AIMG Jöklaleiðsögn 1

Það er alltaf nóg að gera á vormánuðum í Fjallamennskunáminu. Í síðustu viku luku nemendur námskeiðinu Jöklaleiðsögn 1 sem haldið var á skriðjöklum í Öræfum. 

AIMG Jöklaleiðsögn 1 er staðlað námskeið sem haldið er í samvinnu við Félag Fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG). Námskeiðið miðar að því að undirbúa nemendur fyrir að vinna á skriðjöklum við leiðsögn. Farið er í sprungubjörgun og ísklifur, en megináherslan er á leiðsöguhliðina; samskipti við gesti, leiðaval, leiðsögutækni og áhættustýringu. 

Námskeiðið tókst vel og stóðu nemendur sig með prýði. Næstu skref hjá hópnum verða alpaferð, valnámskeið í klettaklifri og kayak og svo hæfniferð, en það er vikulöng lokaferð sem nemendur skipuleggja sjálfir með kennurum. 

 Íris Ragnarsdóttir Pedersen 

Listasvið FAS á Svavarssafni

Listasvið FAS heimsótti Svavarsafn þar sem sýningin Blámi eftir Þorvarð Árnason stendur yfir. Nemendur fengu að njóta listaverkanna sem eru í formi myndbanda, ljósmynda og hljóðverks. Þorvarður hitti nemendur og ræddi við þá um aðferðir sínar, innblástur og útfærslu á innsetningunni.

Innsetning Þorvarðar er óður til jöklanna sem eru ríkjandi í umhverfinu hér á Hornafirði. Ekki var komist hjá því að ræða loftslagsbreytingar og hopun jökla í því samhengi. Þorvarður hefur unnið við rannsóknir síðan í byrjun þessarar aldrar og spannar myndefnið hans feril hér í sveitarfélaginu.

Nemendur fengu nýja innsýn í listræna vinnu þar sem náttúruvísindum og listrannsóknum er skeytt saman. Útkoman er svo til sýnis inni í Svavarssafni og hvetjum við á Listasviði FAS alla til að kíkja við á Svavarssafni og sökkva sér ofan í litadýrð jöklanna.

Fjallamennskunemar í Frakklandi

Síðustu daga hafa framhaldsnemendur í fjallamennskunámi FAS verið í heimsókn hjá Íþrótta- og útivistarskóla (CREPS) í Valle Pont’Arc í Suður-Frakklandi en þar útskrifast nemendur t.d sem kayak-, hella-, fjallahjóla- og gljúfraleiðsögumenn. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni skólanna í gegnum Erasmus+ en tilgangurinn er meðal annars að deila reynslu og þekkingu svo hægt sé að læra hvert af öðru og að skoða hvernig náttúruvernd er háttað milli landanna.

Núna í april koma nemendur frá CREPS skólanum til Íslands til að kynnast starfsumhverfinu hér heima. Nemendurnir sem fóru til Frakklands voru: Arna Hrund, Ásta Kristín, Courtney Brooks, Guðný Gígja, Guðný Ósk og Maríanna Óskars. Það var Tómas Eldjárn Vilhjálmsson kennari í fjallamennskunáminu sem fylgdi hópnum.