Nýnemahátíð í FAS

Það er mikið af nýju fólki á nýju skólaári í FAS og dagurinn í dag er sérstaklega tileinkaður nýnemum. Að þessu sinni var staðnemendum skipt í nokkra hópa þar sem nýnemum og eldri  nemendum var blandað saman. Í byrjun þurfti að gefa hópnum nafn og finna lukkudýr fyrir hópinn. Það hafði verið komið fyrir nokkrum stöðvum um Nýheima og þurfti hver hópur að fara á allar stöðvarnar og leysa mismunandi þrautir. Eftir hverja leysta þraut fékk hópurinn bókstaf og í lokin átti að finna lausnarorðið. Það var hópurinn „Stjáni blái“ sem fékk flest stig og bar því sigur úr býtum.

Allt gekk þetta ljómandi vel og var ekki annað að sjá en öllum þætti gaman að sprella og leika sér um stund. Tilgangurinn er þó fyrst og fremst að bjóða nýja nemendur velkomna. Að leik loknum var efnt til hamborgaraveislu sem hún Dísa okkar töfraði fram og var matnum gerð góð skil.

Á einni stöðinni fengu hóparnir það hlutverk að semja ljóð – á meðfylgjandi mynd má sjá meðlimi „Stjána bláa“ semja ljóð með tilþrifum.

Skólastarf haustannarinnar hafið

Það var margt um manninn í fyrirlestrasal Nýheima í morgun þegar skólastarf haustannarinnar hófst formlega með skólasetningu. Lind nýskipaður skólameistari bauð alla velkomna og fór yfir helstu áherslur á önninni. Að lokinni skólasetningu hittu nemendur svo umsjónarkennara sína þar sem stundatöflur voru skoðaðar og athugað hvort einhverju þurfi að breyta í skráningu á námi.

Kennsla hjá staðnemendum hefst samkvæmt stundaskrá í fyrramálið klukkan 8 en nemendur í fjallamennsku halda síðar í dag í Öræfin þar sem fyrsti áfanginn í náminu verður haldinn.

Við bjóðum alla velkomna og vonum að námið á önninni verði bæði gaman og gefandi.

Skiptibókamarkaður hjá Menningarmiðstöðinni

Það getur verið nokkur kostnaður í því að kaupa bækur og margir eiga námsbækur sem þeir þurfa ekki að nota lengur. Menningarmiðstöð Hornafjarðar stendur fyrir skiptibókamarkaði á bókasafninu þar sem hægt er að koma með slíkar bækur. Nánari upplýsingar er að finna á fésbókarsíðu Menningarmiðstöðvarinnar .

Við hvetjum nemendur til að skoða þennan möguleika. Það er bæði umhverfisvænt og sparar líka töluvert að endurnýta bækur. Skiptibókamarkaðurinn hefur þegar opnað og verður opinn næstu vikur. Við viljum þó vekja athygli á því að ekki er hægt að endurselja vinnubækur eða þær lesbækur sem hefur verið skrifað í, t.d. bækur í erlendum tungumálum.

Skólabyrjun á haustönn

Nú er heldur betur farið að styttast í að skólastarf haustannarinnar hefjist. Skólinn verður settur fimmtudaginn 18. ágúst í fyrirlestrasal Nýheima klukkan 10. Í kjölfarið verða svo fundir með umsjónarkennurum. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá föstudaginn 19. ágúst. Stundatöflur verða vonandi aðgengilegar fljótlega í næstu viku inni á Innu og þar verður líka hægt að finna bókalista.

Eins og oft áður verða breytingar í starfsliði skólans frá ári til árs. Við höfum fyrr sagt frá að Lind Draumland Völundardóttir er nýr skólameistari og Herdís Ingólfsdóttir Waage er nýr áfangastjóri. Að auki eru einhverjar breytingar í kennaraliði skólans. Við bjóðum allt nýtt starfsfólk sem og nemendur velkomin til starfa.

Ef það eru einhverjir sem eru að velta fyrir sér að fara í nám hvetjum við þá til að skoða námsframboð skólans og hægt er að sækja um nám hér. Best er að sækja um nám sem fyrst.

 

Lind Draumland Völundardóttir er nýr skólameistari FAS

Nú er orðið ljóst að Lind okkar í FAS hefur verið skipuð skólameistari til næstu fimm ára. Það var orðið langþráð fyrir okkur starfsfólk og nemendur að fá að vita hver myndi gegna þessu embætti.

Við bjóðum Lind hjartanlega velkomna í starfið og hlökkum til samvinnu á komandi tímum.

Nánar er hægt að lesa um starfsferil Lindar í frétt frá Stjórnarráðinu.

Sumarfrí í FAS

Nú er störfum síðasta skólaárs lokið og starfsfólk farið í sumarfrí. Skrifstofa skólans opnar aftur miðvikudaginn 3. ágúst.

Ef einhverjir eru að velta fyrir sér að fara í nám í haust er hægt að skoða upplýsingar um námsframboð á vef skólans og þar er einnig hægt að sækja um nám.

Við vonum að sumarið verði öllum ánægjulegt.