Kayak áfangi Fjallamennskunámsins fór fram í apríl. Áfanginn var tvískiptur og fengu báðir hópar að kljást við krefjandi en skemmtilegt umhverfi á sjó milli Hafnar og Berufjarðar. Í heildina voru þetta fjórir verklegir dagar þar sem gist var eina nótt í tjaldi út í feltinu.
Í áfanganum voru tekin fyrir fjölbreytt verkefni sem snéru að því að veita nemendum þá grunnþekkingu og reynslu sem þarf til að geta ferðast með öðrum á sjó og skipulagt ferðir á eigin vegum. Nemendur spreyttu sig meðal annars í félagabjörgun, leiðavali, hópastjórnun og skipulagningu lengri ferða ásamt því að róa í mismunandi straumum og öldum.
Kayakróður verður sífellt vinsælli afþreying á Íslandi og atvinnutengdir möguleikar margir, bæði í kringum Höfn sem og annars staðar. Mikilvægt er að leggja grunninn að faglegri uppbyggingu á þessari vaxandi atvinnugrein og er þetta liður í þeirri vegferð. Kennarar voru: Guðni Páll Viktorsson, Anula Jochym og Tómas Eldjárn Vilhjálmsson.