Svínfellingarnir Dan og Íris ásamt Ólafi Þór kenndu áfangann Klifurval í maí. Nemendurnir voru spenntir að komast út að klifra á ný eftir veturinn.
Að þessu sinni hófst áfanginn á Höfn og svo var haldið út í klifurparadísina á Vestrahorni þar sem við fórum yfir ferli fjölspannaklifurs í leiðinni Námsbraut. Þann dag rigndi mikið og því var virkilega gott að komast í vöfflur og kaffi á kaffhúsinu í Vestrahorni.
Næsti dagur var í Svínafelli í Skjólgili en þar eru dótaklifurleiðir í stuðlabergi. Hér klifruðum við í sprungum og settum inn dótatryggingar. Í Káraskjóli í Freysnesi er klifurveggur sem Klifurfélag Öræfa á en hann nýtist okkur vel í fjallamennskunáminu. Þar er hægt að æfa klifurhreyfingar og línuvinnu sem er einstaklega gagnlegt á rigningardögum. Síðasta daginn var loksins þurrt á Hnappavöllum, stærsta klifursvæði landsins. Þar leiddu hér um bil allir nemendurnir klifurleiðir og komust vel af stað inn í klifursumarið.
Takk kærlega fyrir samveruna kæru nemendur.
Það er orðin hefð í FAS að nýtt nemendaráð sé kosið á aðalfundi nemendafélagsins að vori. Sá fundur var haldinn 4. maí. Mæting á fundinn var ágæt og allt fór vel fram. Frambjóðendur til embætta voru; Anna Lára sem bauð sig fram sem forseta, Siggerður Egla bauð sig fram sem varaforseta og Helga Kristey bauð sig fram sem hagsmunafulltrúa skólans en sá fulltrúi er jafnframt tengiliður við SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema). Ekkert mótframboð barst og því voru frambjóðendur sjálfkjörnir.
Í dag var komið að valdaskiptum nemendaráða. Það voru þau Dagmar, Júlíana og Filip sem afhentu völdin til nýs nemendaráðs og var það gert á táknrænan hátt með lyklaskiptum að herbergi nemendaráðs í skólanum.
Við þökkum fráfarandi ráði fyrir vinnuna í vetur og bjóðum nýtt nemendaráð velkomið. Jafnframt hlökkum við til að sjá starfið á komandi skólaári.
Það var sannarlega mikið um að vera í FAS í dag og má segja að það hafi verið nokkurs konar uppskeruhátíð. Eftir hádegi kynntu væntanleg útskriftarefni lokaverkefni sín. Þær kynningar voru fjölbreyttar og gengu ljómandi vel. Okkur í FAS finnst mikilvægt að nemendur læri að standa fyrir framan hóp segja frá vinnu sinni og verkum.
Síðdegis hófst svo „Vorhátíð“ þar sem allir sem vildu gátu komið og kynnt sér fjölbreytta vinnu nemenda. Sýningar list- og verkgreina skipuðu stærstan sess en það voru líka dæmi um vinnu nemenda úr öðrum áföngum. Þegar boðið er til hátíðar er auðvitað boðið upp á hressingu. Það var gaman að sjá gestina rölta um efri hæðina og virða fyrir sér og jafnvel hlusta á verk nemenda. Takk öll fyrir komuna.
Á morgun, 10. maí er síðasti kennsludagur og lokamatsviðtöl hefjast svo á fimmtudag.
Á meðfylgjandi myndum má sjá nokkur af þeim verkefnum sem voru á sýningunni.
Það var aðeins öðruvísi að koma í Nýheima í dag en flesta aðra morgna. Ástæðan var sú að nokkrir af væntanlegum útskriftarnemendum höfðu hertekið húsið og „skreytt“ að eigin vild. Leiðin upp stigann á efri hæðina var orðin hálfgerð þrautabraut og víða var búið að hengja upp litlar myndasögur með því sem þeim finnst einkenna skólalífið. Að auki tóku þau á móti öðrum nemendum með tónlist og dansi og einhverjir fengu smá bunu úr vatnsbyssu. Með þessu sprelli vilja þau kveðja skólann sinn.
Í mörg ár hefur það tíðkast að væntanlegur útskriftarhópur og kennarar borði saman morgunverð áður en kennslu lýkur og svo var einnig nú. Linda okkar töfraði fram dýrinds kræsingar sem voru gerð góð skil. Við þetta tækifæri var líka skólasöngur FAS æfður sem verður sunginn eins og venjulega við útskrift, þann 20. maí.
Við höfum áður sagt frá „Rare routes“ samstarfsverkefninu um ábyrga ferðaþjónustu sem er í samstarfi við skóla í Tyrklandi og á Ítalíu. Fyrir áramót fóru fjórir kennarar úr fjallanáminu og eftir áramót komu aðilar úr samstarfsskólunum í heimsókn til Íslands.
Í síðustu viku apríl var komið að næsta viðburði sem að þessu sinni var í Cappadokiu í Tyrklandi og voru það þrír nemendur og tveir kennarar sem fóru í þá ferð. Komið var á áfangastað á aðfaranótt mánudags eftir langt ferðalag en farið var af stað frá FAS laugardaginn 23. apríl. Dagskrá hófst strax á mánudeginum. Meðan dvalið var ytra var farið á marga staði, m.a. í söfn, moskur og frumkirkjur. Menningin var mjög framandi og margt nýtt að sjá. Saga svæðisins er mikil og löng. Á einu safninu heyrðum við sögu um sykurkar en hún er þannig að ef strákur vildi gifta sig stúlku þá varð hann að búa til sykurkar með loki sem passaði, annars var hann ekki talinn þess verðugur að gifta sig.
Ferðin gekk ljómandi vel og nemendurnir allir sem voru í ferðinni frábærir. Kennarar eru með frá öllum löndunum þremur. Ferðalagið heim var langt en hópurinn kom aftur til Hafnar sunnudaginn 30 apríl reynslunni ríkari.
Senn líður að lokum annar og þá höldum við í fjallamennskunáminu upp í íslensku alpana. Í alpaferðum þessa árs héldum við upp á Hrútsfjallstinda en þar er landslagið upplagt til að kynnast hájöklum. Á fyrsta degi hittumst við á Kaffi Vatnajökli og undirbjuggum ferðina, gerðum leiðarkort, fórum yfir búnað og skerptum á línuvinnu sem á við alpaferðir. Fyrstu nóttina var gist milli Hrútsfjallstinda en þar er glæsilegt útsýni yfir Vatnajökul og Skaftafellsfjöll. Nemendurnir voru vel undirbúnir fyrir kaldar nætur á fjallinu eftir að hafa upplifað mjög kaldar aðstæður í áfanganum Vetrarferðir. Á Vesturtindi Hrútsfjallstinda fundum við frábærar aðstæður til þess að æfa sprungubjörgun í snjó, en þá er mikilvægt að vera lausnamiðuð og kunna að halda falli, setja niður snjóakkeri og útbúa hífingu. Ásamt Vesturtindi voru Miðtindur og Hátindur (1875 m) heimsóttir.
Í seinni alpaferðinni voru aðstæður og veður með besta móti og því gafst okkur færi til að kanna fáfarnar slóðir. Hópurinn hélt frá Hrútsfjallstindum yfir á upptök Svínafellsjökuls milli Miðtinds og Suðurtinds. Þar tókum við fjögur sig og gengum síðan yfir efri hluta ísfalls Svínafellsjökuls yfir að Tindaborg og loks Hvannadalshnjúk. Eitt allra fegursta tjaldsvæði landsins mun vera á toppi Svínahryggs en þar höfðum við útsýni yfir Hvannadalshnjúk, Dyrhamar, Tindaborg og Hrútsfjallstinda svo eitthvað sé nefnt. Eftir góðan nætursvefn gengum við yfir að Hvannahrygg neðan við Dyrhamar og niður um Virkisleið og loks út Virkisjökul.
Ferðin var stórkostleg og erum við kennararnir virkilega stoltir af þeirri færni sem nemendurnir hafa öðlast á árinu. Takk fyrir okkur!
Árni Stefán, Elín Lóa, Íris og Mike.