Það er orðin hefð í FAS að nýtt nemendaráð sé kosið á aðalfundi nemendafélagsins að vori. Sá fundur var haldinn 4. maí. Mæting á fundinn var ágæt og allt fór vel fram. Frambjóðendur til embætta voru; Anna Lára sem bauð sig fram sem forseta, Siggerður Egla bauð sig fram sem varaforseta og Helga Kristey bauð sig fram sem hagsmunafulltrúa skólans en sá fulltrúi er jafnframt tengiliður við SÍF (Samband íslenskra framhaldsskólanema). Ekkert mótframboð barst og því voru frambjóðendur sjálfkjörnir.
Í dag var komið að valdaskiptum nemendaráða. Það voru þau Dagmar, Júlíana og Filip sem afhentu völdin til nýs nemendaráðs og var það gert á táknrænan hátt með lyklaskiptum að herbergi nemendaráðs í skólanum.
Við þökkum fráfarandi ráði fyrir vinnuna í vetur og bjóðum nýtt nemendaráð velkomið. Jafnframt hlökkum við til að sjá starfið á komandi skólaári.