Alpaferð fjallamennskunámsins

04.maí.2023

Senn líður að lokum annar og þá höldum við í fjallamennskunáminu upp í íslensku alpana. Í alpaferðum þessa árs héldum við upp á Hrútsfjallstinda en þar er landslagið upplagt til að kynnast hájöklum. Á fyrsta degi hittumst við á Kaffi Vatnajökli og undirbjuggum ferðina, gerðum leiðarkort, fórum yfir búnað og skerptum á línuvinnu sem á við alpaferðir. Fyrstu nóttina var gist milli Hrútsfjallstinda en þar er glæsilegt útsýni yfir Vatnajökul og Skaftafellsfjöll. Nemendurnir voru vel undirbúnir fyrir kaldar nætur á fjallinu eftir að hafa upplifað mjög kaldar aðstæður í áfanganum Vetrarferðir. Á Vesturtindi Hrútsfjallstinda fundum við frábærar aðstæður til þess að æfa sprungubjörgun í snjó, en þá er mikilvægt að vera lausnamiðuð og kunna að halda falli, setja niður snjóakkeri og útbúa hífingu. Ásamt Vesturtindi voru Miðtindur og Hátindur (1875 m) heimsóttir.  

Í seinni alpaferðinni voru aðstæður og veður með besta móti og því gafst okkur færi til að kanna fáfarnar slóðir. Hópurinn hélt frá Hrútsfjallstindum yfir á upptök Svínafellsjökuls milli Miðtinds og Suðurtinds. Þar tókum við fjögur sig og gengum síðan yfir efri hluta ísfalls Svínafellsjökuls yfir að Tindaborg og loks Hvannadalshnjúk. Eitt allra fegursta tjaldsvæði landsins mun vera á toppi Svínahryggs en þar höfðum við útsýni yfir Hvannadalshnjúk, Dyrhamar, Tindaborg og Hrútsfjallstinda svo eitthvað sé nefnt. Eftir góðan nætursvefn gengum við yfir að Hvannahrygg neðan við Dyrhamar og niður um Virkisleið og loks út Virkisjökul.  

Ferðin var stórkostleg og erum við kennararnir virkilega stoltir af þeirri færni sem nemendurnir hafa öðlast á árinu. Takk fyrir okkur!
Árni Stefán, Elín Lóa, Íris og Mike.  

Aðrar fréttir

Hájöklaferð í fjallanáminu

Hájöklaferð í fjallanáminu

Þann 21. apríl lagði grunnnámshópur fjallanámsins af stað í leiðangur upp á Hrútsfjallstinda. Nemendur voru fimmtán talsins auk þriggja kennara  og var veðurspá með besta móti og stóð til að gista upp frá í þrjár nætur. Það þýddi að bakpokar voru þungir en samt sem...

Umhverfisdagur Nýheima

Umhverfisdagur Nýheima

Það er vel við hæfi á síðasta degi vetrar að taka til hendinni og hreinsa og tína drasl sem hefur fallið til í vetur. Eins og svo oft áður efndu íbúar Nýheima til hreinsunardags þar sem allir sem geta leggja hönd á plóg. Það er búið að tína rusl, sópa, hreinsa á milli...

Fjallanámið áfram í FAS

Fjallanámið áfram í FAS

Það er okkur sannarlega mikið gleðiefni að flytja nýjustu tíðindi af stöðu náms í fjallamennsku í FAS.  Næsta vetur mun námið verða í boði með svipuðu sniði og undanfarin ár. Það ár mun verða notað til að finna náminu farveg til framtíðar. Við höfum verið í erfiðum...