Hafragrautur bætir og kætir

Við vitum öll að góð næring skiptir miklu máli til að stuðla að vellíðan. Og það er mun líklegra að það sé auðveldara að einbeita sér með mettan maga fremur en að sitja með gaulandi garnir og bíða eftir því að tíminn líði. Góð og holl næring er einmitt einn þáttur í stefnu heilsueflandi framhaldsskóla. 

FAS ætlar nú á vorönninni að bjóða nemendum og starfsfólki upp á frían hafragraut í morgunhléinu og stuðla þar með að því að allir eigi kost á hollri næringu. Við hvetjum alla til að nýta sér þetta góða tilboð.

Skólastarf vorannar hafið í FAS

Skólastarf vorannarinnar hófst formlega eftir hádegi í dag þegar skólinn var settur. Það var gaman að sjá nemendur mæta og tilbúna til að takast á við nýjar áskoranir á nýrri önn með hækkandi sól.

Nú er verið að taka upp nýtt skipulag í FAS sem má segja að sé tvíþætt. Kennsla hefst á þessari önn klukkan 8:30 á morgnana og kennt er til 16:30. Kennslustundir eru styttar niður í 45 mínútur. Eins og áður eru kenndar fjórir tímar í viku í flestum fimm eininga áföngum. En til að vega upp á móti styttri kennslustundum hafa bæst við vinnustundir þar sem allir nemendur eiga að mæta. Vinnustundirnar nýtast bæði til sjálfstæðrar verkefnavinnu og eins til að ljúka þeim verkefnum sem ekki náðist að vinna í kennslustundum. Það er mætingaskylda í bæði kennslustundir og vinnustundir.

FAS er heilsueflandi framhaldsskóli þar sem vellíðan nemenda er í fyrirrúmi. Breytt fyrirkomulag á kennslustundum samræmist nýjustu rannsóknum á svefntíma ungmenna og viljum við að okkar nemendur njóti þeirra.

Fyrsti umsjónartími annarinnar verður í fyrramálið, fimmtudag 5. janúar á milli 8:30 og 9:00. Þar verður nánar farið yfir nýtt skipulag.  Í kjölfarið verður kennt eftir svokallaðir „hraðtöflu“ en þá hitta kennarar í hverjum áfanga nemendahópa sína í 20 mínútur og þá verður farið yfir skipulag annarinnar.

Kennsla hefst svo samkvæmt stundatöflu föstudaginn 6. janúar.

 

 

Jólafrí og upphaf vorannar

Nú er starfi haustannar lokið og allar einkunnir eiga að vera komnar í INNU. Þá eru líka allir komnir í jólafrí og er það orðið langþráð hjá mörgum að geta tekið því aðeins rólegar eftir annir síðustu vikna.

Skólastarf vorannar hefst miðvikudaginn 4. janúar en þá verður skólinn settur klukkan 13. Eftir skólasetningu verður boðið upp á aðstoð við að komast inn í tölvukerfi skólans. Fimmtudaginn 5. janúar verður umsjónarfundur klukkan 8:30. Það er mjög mikilvægt að allir mæti á þann fund því þar á að kynna nýtt skipulag á skólastarfi vorannarinnar. Eftir þann fund hefst kennsla.

Starfsfólk FAS sendir nemendum sínum sem og landsmönnum öllum bestu óskir um gleðilega jólahátíð og vonar að nýtt ár verði öllum gott og gefandi.

Hafdís okkar kveður í kaffiteríunni

Í morgun komu margir starfsmenn FAS niður á Nýtorg og drukku kaffibollann sinn þar. Það var þó ákveðið tilefni og það var að kveðja hana Dísu okkar sem hefur séð um veitingasöluna síðustu fimm árin.

Nú er komið að starfslokum hjá henni og vildum við sýna smá þakklætisvott sem Lind skólameistari afhenti. Við eigum örugglega eftir að sakna hennar og allra kræsinganna sem hún hefur töfrað fram. Við óskum henni alls hins besta um ókomin ár.

Kennslu að ljúka og lokamat framundan

Í dag 8. desember er síðasti kennsludagur annarinnar í FAS og eru nemendur í óða önn að leggja lokahönd á síðustu verkefni annarinnar og skila námsmöppum.

Framundan er svo lokamat en þá hitta nemendur kennara sína til gera upp áfangann. Allir nemendur eiga að hafa fengið úthlutaðan tíma fyrir lokamatsviðtalið og er mikilvægt að nemendur mæti á réttum tíma og vel undirbúnir í lokamatið. Staðnemendur eiga að mæta í sína kennslustofu og fjarnemendur fá fundarboð á Teams. Til að forðast árekstra fylgja tímasetningar fyrir lokamat stundatöflu annarinnar. Lokamat í FAS stendur yfir frá 9. – 19. desember.

Við vonum að öllum gangi sem best á þessum síðustu dögum annarinnar.

Fab Stelpur & Tækni

Á þessu hausti stóð Vöruhúsið fyrir námskeiði sem kallast Fab Stelpur & Tækni. Markhópurinn voru stelpur á aldrinum 14-20 ára og var markmiðið að kynna tækninám sérstaklega fyrir stelpum og alla þá möguleika sem tækninám býður upp á, 

Það voru sex stelpur sem allar eru nemendur í FAS sem kláruðu námskeiðið. Þær hönnuðu allar lampa þar sem þær lærðu m.a. lærðu að vinna með þrívíddargögn og prenta út í þrívíddarprentara,  teikna í vektor teikniforritinu Inscape og skera út í laserskera. Þá fengu þær fræðslu um Arduino iðntölvur, lærðu um RGB LED borða og hvernig má stýra þeim með iðntölvu, lærðu að lóða og tengja Led borða við iðntölvu. Þá lærðu þær að setja upp Arduino IDE forritið og hvernig er hægt að breyta forriti til að geta sett upp mismunandi lýsingu á lampana og síðast en ekki síst hvernig hægt er að setja upp app fyrir snjallsíma til að geta stýrt lampanum í gegnum appið.

Fyrir utan þessa fræðslu fengu þátttakendur kynningar um kvenkyns fyrirmyndir í þessum geira, bæði íslenskar og erlendar. Í FAS fá þátttakendur einingar fyrir námskeiðið sem nýtist inn í námsferilinn. Vöruhúsið ætlar að vinna áfram að því að kynna tækninám fyrir stelpum og stefnir að námskeiði fyrir stelpur á grunnskólaaldri.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stelpurnar okkar með lampana sína. En þær voru sammála um að námskeiðið hefði verið skemmtilegt og gagnlegt.