Um nokkurra ára skeið hefur verið hægt að leggja stund á ýmis konar listir í FAS. Það nám er hluti af kjörnámsbraut við skólann. Meðal þess sem hægt er að læra eru; sjónlistir, sviðslistir, hönnun og kvikmyndagerð.
Á þessari önn eru bæði sjónlistir og sviðslistir í boði á námsframboði skólans. Nemendur í sviðslistum taka námið í svokölluðum spönnum en þá er farið hraðar yfir en hefðbundið er og á einni önn farið í efni tveggja áfanga.
Nú er komið að lokum fyrstu spannar í sviðslistum og af því tilefni buðu nemendur kennurum og starfsfólki skólans á sýningu til að sýna afrakstur vinnunnar undanfarið. Þar hefur mikið verið unnið með spuna og hafa nemendur mest verið í því að skapa efni, bæði hver og einn og eins í samvinnu við aðra í hópnum.
Það er skemmst frá því að segja að sýningin í dag gekk ljómandi vel, var skemmtileg og sýndu nemendur á sér nýja hlið. Takk fyrir skemmtilega sýningu.