Það er mikið um að vera þessa vikuna í FAS því við erum með heimsókn frá samstarfsskólunum í nýjasta nemendaskiptaverkefninu okkar. Það verkefni fjallar um nýtingu á náttúrulegum auðlindum og ber nafnið Natural Resources and how to utilize these in rural areas in Finland, Iceland and Norway. Þetta er tveggja ára verkefni og farið er í heimsókn til eins þátttökulands á hverri önn og var fyrsta heimsóknin til Íslands. Frá hverju landi eru 10 nemendur og samskiptamálið í verkefninu er enska.
Gestirnir komu til landsins á sunnudag og til Hafnar seinni partinn í gær. Á meðan hópurinn dvelur hér verður farið í heimsóknir og skoðunarferðir. Þá verða einnig unnin verkefni sem tengjast nýtingu náttúrulegra auðlinda í löndunum þremur.
Hópurinn fer af stað til Keflavíkur seinni partinn á fimmtudag og flýgur utan á föstudagsmorgni. Verkefnið hefur sérstaka vefsíðu og þar er sagt frá því helsta er varðar verkefnið. Meðfylgjandi mynd var tekin í morgun þegar hópurinn fór í heimsókn til Skinneyjar-Þinganes.