Viljayfirlýsing um samstarf

Í dag undirrituðu Steinunn Hödd Harðardóttir þjóðgarðsvörður á suðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og Lind Völundardóttir skólameistari FAS yfirlýsingu um samstarf. Með viljayfirlýsingunni er ætlunin að efla samstarf  og  sýnileika á milli stofnananna í samfélaginu og styðja við sí- og endurmenntun landvarða þjóðgarðsins. Samstarfið mun annars vegar felast í auknu svigrúmi fyrir starfsfólk þjóðgarðsins til að taka áfanga í fjallamennskunámi FAS og hins vegar að FAS nýti þekkingu starfsfólks hjá þjóðgarðinum inn í nám í landvörslu í kennslu og fræðslu bæði fyrir nemendur og kennara.

Bæði þjóðgarðurinn og FAS hafa mörg sameiginleg markmið. Samstarfinu er ætlað að greiða aðgang að þeim. Þar má nefna umhverfis- og náttúruvernd í ferðamennsku, fræðslu og uppbyggingu þjóðgarðsins og tengsl landvarða og starfsmanna í ferðaþjónustu.

Við erum mjög ánægð með þessa viljayfirlýsingu sem mun án efa efla báðar stofnanirnar. Vonast er til að hægt verði að bjóða upp á námið í landvörslu strax í haust.

Fjallaskíðanámskeið FAS

Nú í lok febrúar og byrjun mars voru haldin tvö námskeið í grunni að fjallaskíðamennsku. Sem fyrr voru námskeiðin gerð út frá Dalvík og að hluta á því frábæra kaffihúsi Bakkabræðra. Lögð var áhersla á skipulag fjallaskíðaferða, leiðarval og landslagslestur, rötun, uppgöngutækni og auðvitað skíðamennsku utan leiða. Nemendur höfðu flestir nýlokið snóflóðanámskeiði sem er nauðsynlegur grunnur til þess að byggja ofan á. 

Farið var um víðan völl og fengu nemendur smjörþefinn af því frábæra fjallaskíðalandslagi sem Tröllaskagi og Eyjafjörður hafa upp á að bjóða. Meðal viðfangsefna á námskeiðinu voru klassísk svæði og tindar eins og Karlsárfjall, Kaldbakur, Múlakolla, Hlíðarfjall, Bæjarfjall á Dalvík og fleiri.  

Hóparnir tveir fengu vægast sagt ólík skilyrði. Fyrri hópurinn mætti í vorfæri og hita og þurfti víða að leita uppi skafla neðst í fjöllum sem þótti furðulegt ástand í lok febrúar. Skíðafærið var krefjandi en veðrið var með okkur í liði og hópurinn náði fjórum löngum dögum á fjöllum. Stuttu síðar mætti seinni hópurinn norður í fimbulkulda, éljagang og dásamlega mjúkt færi. Það var kærkomið að fá snjóinn aftur enda var skíðamönnum ekki farið að lítast á blikuna í lok febrúar þegar ástandið var sambærilegt maílokum. Veðurskilyrði voru krefjandi en það skemmdi þó ekki fyrir þegar hópurinn neyddist til þess að skíða ferska lausamjöll í lyftunum í Hlíðarfjalli vegna veðurs.  

Alltaf er hægt að læra á fjöllum og nemendur fengu tækifæri til þess að nýta kunnáttu sína og snjóflóðaþekkingu til þess að æfa leiðarval, hættumat og ákvarðanatöku í snævi þöktu fjalllendi. 

Nú vonum við kennararnir að við höfum náð að smita fleiri FASara af fjallaskíðadellunni enda ekkert skemmtilegra en að renna sér niður eftir góða fjallgöngu! 

Kennarar á námskeiðunum voru Erla Guðný Helgadóttir og Daniel Saulite 

Hljómsveitin Fókus

Í hádeginu í dag mátti heyra flotta músík berast frá Nýheimum. Það var hljómsveitin Fókus sem flutti nokkur lög og voru flest þeirra frumsamin. Hljómsveitina Fókus skipa þær Amylee da Silva Trindade, Alexandra Hernandez, Anna Lára Grétarsdóttir, Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir (Abbalónía) og Pia Wrede. Abbalónía kemur frá Selfossi og kynnist hornfirsku snótunum í gegnum Sinfóníuhljómsveit Suðurlands en þær Alexandra og Amylee hafa spilað þar. Pia er skiptinemi frá Þýskalandi og er í FAS þessa önn.

Þær hafa spilað saman síðan í desember 2022 og í þessari viku sendu þær inn  umsókn til að fá að taka þátt í Músíktilraunum. En Músiktilraunir er vettvangur fyrir ungt fólk til að koma frumsaminni tónlist á framfæri og fer keppnin að jafnaði fram í seinni hluta mars ár hvert.

Í dag verða menningarverðlaun sveitarfélagsins afhent og Fókus spilar þar. Það verður gaman að fylgjast með stelpunum næstu daga og vikur.

„Rare Routes“ samstarfsverkefnið

FAS vinnur nú að umfangsmiklu samstarfsverkefni um ábyrga ferðaþjónustu ásamt skólum frá Tyrklandi og Ítalíu. Að því tilefni fóru fjórir kennarar frá FAS, allir úr fjallamennskudeildinni, til Adana í Tyrklandi til að hitta samstarfsaðilana. Sú ferð var farin um miðjan desember. 

Ferðalagið var langt en þegar á áfangastað var komið var hitastigið um 15-20 gráður og mjög frábrugðinn menningarheimur. Fundardagarnir voru langir og strangir en við fengum þó að kynnast suðausturhluta  Tyrklands, svæðinu sem jarðskjálftarnir nú í febrúar höfðu mikil áhrif á.  

Dagana 27. febrúar – 4. mars tókum við í FAS ásamt Markaðsstofu Reykjaness á móti samstarfsaðilum okkar frá Tyrklandi og Ítalíu. Að þessu sinni funduðum við á Reykjanesi og ferðuðumst þar um og kynntum gestum okkar fyrir ábyrgri ferðaþjónustu á Íslandi.  

Næsti liður í verkefninu er nemendaferð til Tyrklands en þangað halda þrír nemendur og tveir kennarar í apríl.  

10. bekkur heimsækir FAS

Í gær komu nemendur úr 10. bekk í heimsókn til okkar í FAS. Þegar hópurinn mætti var þeim boðið í morgunmat með nemendum og kennurum skólans. Í framhaldi af því var kynning á skólanum, námsframboði og félagslífinu. Við vonum að kynningin hafi verið gagnleg og fróðleg, einnig að gestirnir séu einhverju nær um það hvað tekur við að loknum grunnskóla. Á meðfylgjandi mynd má sjá ummæli núverandi nemenda um það hvers vegna FAS ætti að verða fyrir valinu að loknum grunnskóla.

Í dag verður fundur með foreldrum 10. bekkinga. Þar fá foreldrar sams konar kynningu á skólanum og nemendur fengu. Jafnframt fá þeir tækifæri til að spyrja nánar um skólann. Við vonumst til að sjá sem flesta í dag.

Vel heppnuð árshátíð FAS

Árshátíð FAS fór fram síðastliðinn fimmtudag, þann 2.mars. Þemað að þessu sinni var „90’s“ og var Sindrabær skreyttur í takt við þann tíma. Skreytingarnar voru afurð árshátíðarhóps á opnum dögum sem fóru fram fyrr hluta síðustu viku.

Að loknu borðhaldi var sýnt myndband sem árshátíðarhópurinn vann á opnum dögum. Árshátíðardans var svo dansaður en stífar æfingar höfðu átt sér stað í skólanum og lukkaðist hann vel. Við höfum áður sagt frá því að nemendur í sviðslistum eiga heiðurinn af dansinum.  Það var svo hljómsveitin Nostalgia sem spilaði fyrir dansi og hélt stemningunni uppi.

Eftir stendur vel lukkuð árshátíð sem hefði ekki getað átt sér stað nema fyrir kennara, foreldra sem buðu sig fram í gæslu og svo að sjálfsögðu nemandanna sem skipulögðu hana svo vel. Takk krakkar!!