Allir eru sammála um nauðsyn þess að fræða nemendur um alls kyns mikilvæg mál. Og við hér í FAS reynum að koma fræðslu að þegar tækifæri gefst.
í þessari viku fengum við góða gesti til okkar sem áttu heldur betur við okkur erindi. Annars vegar fengum við Kára Sigurðsson og Andreu Marel með fræðslu um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna. Þau ræddu bæði við nemendur og starfsfólk og komu víða við. T.d. hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags, mikilvægi þess að sýna hvert öðru virðingu og virða mörk annarra. Þetta á að sjálfsögðu við bæði í daglegu lífi og netheimum. Þau sýndu okkur mörg dæmi þess þegar stafrænt ofbeldi fer úr böndunum á samfélagsmiðlum og hvaða áhrif það getur haft á einstaklinga.
Í seinni kynningunni var verið að kynna rafíþróttir og það var íþróttafélagið okkar Sindri sem stóð fyrir þessari kynningu. Til okkar komu Aron Ólafsson og Eva Margrét Guðnadóttir frá RÍSÍ (Rafíþróttasamband Íslands). Með þeim voru fulltrúar frá rafíþróttadeildinni hér á Höfn. Þau fjölluðu í kynningu sinni um jákvæða upplifun af tölvuleikjaspilun, hvernig samfélög geta stuðlað að jákvæðari upplifun og hvernig æskilegt sé að spila leiki á agaðan en um leið skemmtilegan hátt. Rafíþróttadeildin hér á Höfn starfar undir merkjum Sindra og þar er starfsemin vaxandi og mikil áhersla lögð á gagnkvæma virðingu og íþróttamannslega hegðun.
Við þökkum gestunum fyrir góða og mikilvæga fræðslu.